Þorpið með skrýtna nafninu stendur í rúmlega 555m hæð á milli fjallsins Balzo Nero og Lima árinnar í Bagni di Lucca. Þar skammt frá liggur líka forn gönguleið, Via Francigena, sem pílagrímar áttu leið um á leið sinni frá Brennero skarði til Rómar.
Nafnið eitt og sér er fyrsta ráðgátan. Almennt er talið að það sé brauðið í altarissakramentinu. Panis Celorum sem þýðir í raun "brauð himinsins". Aðrir telja líklegra að það sé dregið af orðinu panicellum sem er fóðurtegund. Þriðja tilgátan er að bærinn heiti eftir rómverskum bræðrum sem eiga að hafa lagt grunninn að bænum, bræðurnir Pancelli. Vico þýðir svo einfaldlega prestsetur (vicario).
Hvað um það. Næsta ráðgáta tengist horfna gamla bænum í Vico Pancellorum sem stóð í um 637 m hæð.
Fyrir rúmlega 1000 árum síðan varð öflugur jarðskjálfti á þessum slóðum sem lagði gamla þorpið í rúst og það er vel niðurgrafið enn þann dag í dag. Kirkja heilags Markúsar og fjölmargar húsarústir bíða þess að flett verði ofan af þeim og þær rannakaðar nánar.
Sagnir herma að hið forna þorp hafi verið búið þremur safnbrunnum og geymi leirmuni frá rómverskum tíma. Pompei poppar upp í hugann og gæsahúð gerir vart við sig þegar hugsað er til alls þess sem grófst undir. Hin forna saga og rætur bíða uppgröfts og kortlagningar og það heyrir undir yfirstjórn háskólans í Pisa og væntanlega þarf einnig að grafa eftir fjármagni til að geta skyggnst inn í rústirnar.
Í fyrra var lagfærð gönguleið upp að rústunum sem er örugg en ófært er að nálgast gamla bæjarstæðið ofanfrá, því þar eru sprungur allt að 500m langar.
Eftir hrunið hófu þorpsbúar uppbyggingu á nýjum stað neðar í hlíðinni og þar stendur stendur helgidómur þeirra í dag, Pieve di San Paolo, sóknarkirkja heilags Páls. Þar er líka reynt að ráða í tilvist sérkennilegra lágmynda sem staðsettar eru fyrir ofan kirkjudyrnar. Þær virrðast einkennilega samsetning hogginna mynda sem sýna 1)Krist á krossinum 2)Tré 3)Riddara með sverð (en búið er að skafa hann í burtu) 4)Skákborð 5)María mey með jesúbarnið. Þetta hljómar eiginlega eins og myndagáta í Mogganum.
Ein skemmtileg staðreynd til viðbótar varðandi þennan sögufræga bæ er að þar hefur varðveist tungumál, kallað l'Arivarésco. Á síðustu öld voru blikksveinar, einskonar farandiðnaðarmenn, sem ferðuðustu um Ítalíu og gerðu við muni og ílát úr tini, blikki og kopar þar sem þess þurfti við. Þeir kölluðust ýmist stagnini eða arivari og dregur tungumálið nafn sitt af því. Arivaresco er skilgreint sem raunverulegt tungumál, ekki mállýska.
Viðgerðirnar voru vandasöm vinna sem kröfðust lagni og reynslu. Blikksveinarnir fengu fæði og húsaskjól þar til verkefninu var lokið og héldu þá sína leið á næsta stað sem þarfnaðist þeirra. Þeir fengu þá hugmynd að búa til tungumál til að geta átt samskipti sín á milli án þess að aðrir skildu. Þá gátu þeir slúðrað um þá sem þeir unnu fyrir og lagt drög að því að láta sig hverfa. Það kom nefnilega stundum fyrir að þeir notuðu "óæðra" efni í viðgerðirnar og þá var gott að vera horfinn um morguninn þegar upp komst um blekkinguna.
Fram á miðja tuttugustu öld var list blikksmiðanna mjög lifandi í Vico Pancellorum og þeir höfðu einhverskonar miðstöð þar. Hafist var handa við "uppvakningu" tungumálsins fyrir nokkrum árum og einn af fáum sem tala það í dag er Manuel Mingazzini sem lærði það af afa sínum og miðlar því áfram til sinna afkomenda.
Þetta eru sérkennin og ráðgáturnar um Vico Pancellorum.
Uppfært 23.12.2021
Á Þollák heimsótti ég loksins þennan margslungna bæ. Gengum lengi vel, upp, upp, upp eftir bröttum götum bæjarins án þess að hitta sálu, hvað þá menneskju. Þar voru hinsvegar listaverk með reglulegi millibili sem vöktut athygli. Loks rákumst við á fallega verönd og íbúa sem átti þar leið um. Hún sagði okkur að það væru 84 hugrakkir íbúar sem byggju í Vico í dag, en á sumrin eru hér um 300 manns. Á árunum eftir seinna stríð bjuggu hér 1500 manns, og það varu 3 matvörubúðir, 2 skósmiðir, 2 kjötkaupmenn, en núna er bærinn eins og Þyrnirós.
Commentaires