top of page
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Bagni di Lucca

Updated: Aug 14, 2022

...er samnefnari yfir um 30 bæi sem nota Bagni di Lucca sem einskonar regnhlífarnafn. Nafnið þýðir í raun Böðin í Lucca sem er mjög lýsandi og bera bæjirnir því nafn með rentu. Borgin Lucca er rétt hjá og er höfuðborg sýslunnar. Þessir bæir eru misstórir, sumir örsmáir, í raun húsaþyrping með nokkrum byggingum en aðrir settlegir bæir með langa sögu.


Það fer reyndar alveg eftir því hvernig maður telur og við hvað er miðað hvort þessir smábæir séu 25 eða 31 talsins en íbúafjöldinn í þeim öllum er rúmlega 6.200 manns.

Venjulega er talað um að Bagni di Lucca samanstandi af þremur smábæjum, Ponte a Serraglio, oftast kallað Ponte og er svæðið sem liggur meðfram bökkum árinnar Serchio, þar sem hið sögufræga spilavíti er staðsett; Bagni alla Villa, oftast kallaður Villa, þar sem sundlaug bæjarins er, ráðhúsið, bankarnir og þjónustu við bæjarbúa er að finna; og Bagni Caldi, þar sem áður var stærsta heilsumiðstöðin.


Fornoli er svo fjórði bærinn sem oftast er hafinn með í upptalningunni, því þar er lestarstöðin fyrir Bagni di Lucca. Þar fyrir utan er fjölmargir bæjarkjarnar eða húsaþyrpingar í nærliggjandi hæðum sem eru hluti af sveitarfélaginu Bagni di Lucca. Sumir þeirra eiga sér mjög sérstaka sögu.


Allir sem fara í ferð til Bagni di Lucca munu komast að því að sjarminn er ekki eingöngu bundinn fortíðarfrægð. Þegar heilsuböðin voru upp á sitt besta nýttu þau heitt vatn úr 19 lindum úr hlíðum Colle di Corsena og tvo náttúrulega gufuhella. Heilsuböð og tengd starfsemi hefa verið í ákveðinni lægð undanfarin ár og Covid aðgerðir gerðu reksturinn enn erfiðari. Nýlega var ein heilsumiðstöðin Terme Bagno Bernabò opnuð aftur en vonandi fá fleiri heilsuböðaftur tilgang og komast í rekstur.


Bagni di Lucca er í því í dag betur þekkt sem miðstöð fyrir útivist með gönguferðum, hjólreiðum, klifri, skíðabrekkum, vatnasporti og ævintýramennsku. Náttúruunnendur hafa úr nógu að velja en einnig hægt að fara í hæglætisfrí því hér er vin fyrir ferðamenn sem vilja láta líða úr sér í friðsælu og fögru umhverfi, burtu frá mannfjöldanum.


Það er stutt til Flórens, Siena, Pisa og Lucca sem er bara 27 km í burt, þannig að það tekur örskamma stund að stinga sér í samband við þessa mest heimsóttu staði í Toskana þegar andinn kemur yfir mann.



En ef við förum aðeins aftur í tímann og skoðum hvernig Bagni di Lucca komst á heimskortið, þá eru það heilsuböðin, heitu lindirnar og lækningameðferðirnar sem sáu um það.


Rómverjar og jafnvel Etrúrar, forverar þeirra, vissu um lækningamátt lindanna. Staðarins er þó fyrst getið árið 983 undir nafninu Corsena í opinberu skjali þar sem eignarhald færðist á milli embætta.


Það var svo kona að nafni Matthildur, valdhafi í Toskana á 11. öld sem lagði drög að framtíðarfrægð Bagni di Lucca. Hún, Matilde di Canossa, var valdamikill höfðingi sem ríkti í 40 ár og gekk einnig undir nafninu Matilde di Toscana. Talið er að hún hafi verið fædd árið 1046 og þegar mest lét stjórnaði hún nánast öllum Ítalíuskaganum. Hún lét m.a. byggja fræga brú yfir Serchio ánna, svokallaða Magdalenu brú sem í daglegu tali er kölluð Djöflabrúin. Það var gert til að auðvelda pílagrímum á leið sinni frá Kantaraborg til Rómar að hressa sig við í heitu lindunum og næra sig. Til þess að fjármagna þetta boð, þurfti að setja á reglur um fjárhættuspil.


Máttur heilsulindann fór svo að spyrjast út fyrir alvöru í byrjun 19. aldar og Bagni di Lucca varð einn mikilvægasti sumaráfangastaður í Evrópu. Staðurinn laðaði að sér konungborið fólk, aðalsmenn, listamenn, spjátrunga og fræðimenn sem komu hingað að leita sér lækninga við ýmiskonar kvillum en einnig til að finna afdrep og innblástur fyrir andann.


Vinsældir staðarins urðu líka til þess að hér risu villur af betri og stærri gerðinni, sem enn prýða svæðið. Margir nafntogaðir einstaklingar áttu leið hér um og dvöldu um lengri eða skemmri tíma hér. Einn þeirra var Giacomo Puccini.


Lífsstíll og ríkidæmi kölluðu á nýjar tómstundir og árið 1837 var þar opnað eitt fyrsta spilavíti í Evrópu og heimildir segja að rúllettan hafi verið fundin upp í sögufrægu spilavíti í Bagni di Lucca.


Hernámstíð Napóleons (1804-1815) var mikið blómaskeið fyrir Bagni di Lucca og systir hans Elisa Baciocchi sem þá var prinsessan af Lucca lét leggja veg þangað og dvaldi þar langdvölum. Hún setti fingrafar sitt víða um bæinn og endurbyggði m.a. nokkrar heilsulindir og byggði sér dvalarstað í viðhafnarútgáfu.


Gestir í Bagni di Lucca í dag, fá að njóta náttúrunnar og finna vísbendingar um blómatímann víðsvegar um bæina. Það er alls staðar hægt að drepa niður fæti og finna söguleg fótspor. Á blómaskeiðinu voru 80 hótel og gististaðir á svæðinu, þrjú spilavíti og 7 heilsuböð. Það var enginn maður með mönnum eða konum nema hafa komið hingað eða dvalið um skeið.







Related Posts

See All

Commentaires


bottom of page