top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Meistari Puccini í Bagni di Lucca

Updated: Sep 8, 2022

Hótel La Corona hefur hýst virta, fræga, kostulega og skrautlega gesti í gegnum tíðina. Einn þeirra var Giacomo Puccini (1858 - 1924), sem dvaldi þar oft á tíðum og átti sinn uppáhaldsrétt á matseðlinum. Það er óþarfi að kynna eitt ástsælasta tónskáld Ítala. Hans er oftast getið í sömu andrá og Verdi. Óperur þeirra tveggja eru líklega oftast fluttar á óperusviðum heimsins, enn þann dag í dag.


Puccini kom til Bagni til Lucca til að fá innblástur og vinnufrið. Hann leit á staðinn sem sem eitt af sínum heimilum. Hann var aufúsugestur á hótelunum og veitingastöðunum og hann hafði sitt eigið herbergi hjá Bastiani fjölskyldunni. Á La Corona var uppáhalds rétturinn hans “Fagioli al fiasco” sem þýðir bókstaflega “Baunir í klúðrinu.” Fiasco í þessu tilfelli er raunar glerflaskan sem baunarnar eldast í. Rétturinn samanstendur af baunum sem eldaðar eru í gleríláti við vægan hita yfir nótt í eldglæðum og ösku í arninum.


Í einni af dvöl sinni á La Corona gaf Puccini þáverandi hóteleiganda La Corona, Faustino Barsi, skopmynd af sjálfum sér í þakklætisskyni sem hann teiknaði á botn súpuskálar. Á meðan á þessari dvöl stóð virðist hann einnig hafa skrifað stuttan vals sem hann tileinkaði Irmu, eiginkonu Hr. Barsi. Þetta mun hafa verið árið 1898.


Sumarið 1903 þegar hann var að semja óperuna Madama Butterfly, dvaldi Puccini hluta sumars í rólegum bæ sem heitir Boscolungo sem tilheyrir nú Abetone. Þar hafði hann keypt litla villu sem hann átti allt til ársins 1909. Puccini var því oft á ferðinni, ýmist á leiðinni þangað eða til Lucca eða Torre del Lago þar sem hann átti líka heimili. Hann kunni vel að meta kyrrðina sem svæðið bauð upp á. Svæðið er í dag vinsælt til útvistar og frábært skíðasvæði.


Vitað er að Puccini var með bíladellu á háu stigi og ýmist keyrði hann sjálfur eða var með bílstjóra. Árið 1903 slasaðist hann illa í bílslysi þegar bílnum hvolfdi yfir hann og litlu munaði að Madama Butterfly liti ekki dagsins ljós. Á meðan hann var að komast til heilsu lagði hann lokahönd á óperuna og hún var frumflutt ári eftir slysið, þann 17. febrúar 1904.


Þegar hann kom hingað til dvalar þá tók hann ávalt lest frá Lucca til Bagni di Lucca en keyrði svo til Abetone á bílnum sínum. Á milli ferða fékk hann að geyma bílinn í bílskúr hér í bænum, en vitneskjan um hvar sá bílskúr var, er horfin. Efni í skemmtilega rannsóknarvinnu.


Hér í bænum átti Puccini marga kæra vini og dvaldi hér reglulega frá því hann var pjakkur þar til hann festi kaup á villunni í Boscolungo. Hann átti einnig velgjörðarmenn í bænum sem reyndust honum vel. Puccini samdi verkið Vexilla Regis að beiðni Dr. Adelson Betti, lyfsalans í bænum sem sinnti auk þess starfi organista og kórstjóra í kirkjunni. Verkið var frumflutt um páska og Puccini hefur verið tæplega tvítugur þegar hann samdi það.


Áður en hann hóf nám við tónlistarháskólann í Milano, varð hann sér út um aur með því að spila á píanó í spilavítinu og í tveimur af leikhúsunum sem þá voru starfrækt í Bagni di Lucca. Þá gisti hann jafnan á Park Hotel Regina alltaf í sama herberginu, með gott útsýni yfir leikhústorgið og nærliggjandi veitingastaði. Hann fylgdist með komum kvenna á veitingastaðina og stakk sér út til að hitta þær í von um að þær myndu bjóða sér í mat og drykk. Hann var fjölþreifinn karlinn og hann fiskaði vel með þessari aðferð.


Eitt kvöldið þegar hann var að spila í Teatro Accademico; neitaði hann áheyrendum um aukalag og þeir brugðust ókvæða við. Hann kallaði áheyrendur "necciari" eða “kastaníupönnuköku-skríl” sem hlýtur að hafa verið mikið skammaryrði í þá daga. Hann slapp samt ómeiddur frá kvöldinu.


Seinna á lífsleiðinni eftir að hann hafði selt villuna sína í Abetone kom Puccini iðulega til Bagni di Lucca og mun hafa samið 2. þátt óperunnar La Fanciulla del West þegar hann dvaldi á Grand Hotel delle Terme og hugmyndin að Turandot fæddist árið 1919 í Bagni di Lucca þegar hann var þar í sumarfríi ásamt textaskáldunum sínum, þeim Giuseppe Adami og Renato Simoni.


Á La Corona hótelinu heitir ein svítan í höfuðið á Puccini, eðli málsins samkvæmt. Það verður spennandi að vita hvort Baunir í klúðrinu verði á matseðlinum í sumar. Ef ekki, þá er hér uppskrift.


Skrifað fyrir Hótel La Corona

Áður birt á Facebook síðu hótelsins 22.4.2021




Related Posts

See All

Comentarios

No se pudieron cargar los comentarios
Parece que hubo un problema técnico. Intenta volver a conectarte o actualiza la página.
bottom of page