Frelsisdagur Ítala, 25. apríl. Þegar Ítalir frelsuði sig undan nasistum og fasistum í lok seinna stríðs.
Lýðveldisdagur Ítala, 2. júní. Þennan dag minnast Ítalir mikilvægrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór eftir seinna stríð sem ákvarðaði hvaða stjórnskipan skyldi viðhöfð eftir stríð og fall fasismans. Það má segja að þetta sé þeirra aðal þjóðhátíðardagur þó svo að þeir séu fleiri.
Ítalska þjóðin var þá spurð álits um það hvort konungsveldi ætti að vera áfram við lýði eða hvort lýðveldi ætti að taka við. Atkvæðagreiðslan stóð í tvo daga, þann 2. og 3. júní og niðurstöður voru kynntar um viku seinna, þann 10. júní 1946. Dagurinn eftir, 11. júní fékk útnefninguna fyrsti dagur lýðveldis Ítalíu.
Kjörsókn var mikil eða rúm 89%. Kosningarnar voru líka sögulegar fyrir þá staðreynd að þetta var í fyrsta sinn sem konur fengu að kjósa í almennum kosningum á Ítalíu. Raunar voru konur í meirihluta þeirra sem kusu, 12.998.131 konur og 11.949.056 karlar.
Þegar talið var upp úr kjörkössunum var glettilega mjótt á munum eins og sést á þessari mynd. Það voru líka skýr skil á milli norður og suðurs, skil sem koma berlega í ljós enn þann dag í dag.
Gild atkvæði voru 23.437.143, þar af 12.718.641 (54,27%) sem lýsti sig fylgjandi lýðveldi og 10.718.502 (45,73%) var hlynnt konungsveldinu.
Eftir 85 ára valdatíð Savoy-ættarveldisins, fasistatímabilsins og þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni, fór Ítalía frá stjórnarskrárbundnu konungsveldi - stjórnað af Albertine samþykktinni - til lýðveldisins.
Konungur Ítalíu, Umberto II af Savoy, ákvað að yfirgefa Ítalíu þann 13. júní til að forðast átök milli stríðandi fylkinga, en þá þegar höfðu blóðugir atburðir átt sér stað í ýmsum ítölskum borgum. Hann fór í útlegð til Portúgal.
Með gildistöku stjórnarskrár ítalska lýðveldisins þann 1. janúar 1948 var karlkyns afkomendum Umberto II frá Savoy bannað að koma til Ítalíu. Það bann varði til ársins 2002 þegar ákvæðið var fellt úr gildi gegn því að hann afsalaði sér öllum kröfum til krúnunnar.
Það eru annars margir dagar, þjóðhátíðardagar, sem minnast merkra atburða í sögu landsins.
7. janúar. Þjóðfánadagurinn - Festa Tricolori.
17. mars. Sameiningarafmæli - Anniversario dell'Unità d'Italia - Þegar öll (flest) borgríki sameinuðust undir nafni Ítalíu, 1861.
25. apríl. Frelsun Ítalíu - Anniversario della liberazione d'Italia - Þegar Ítalir frelsuði sig undan nasistum og fasistum í lok seinna stríðs. FRÍDAGUR
2. júní. Lýðveldisdagurinn - Festa della Repubblica (sjá hér að ofan) FRÍDAGUR
11. júní. Fyrsti dagur lýðveldisins.
4. nóvember. Sameiningardagur ítölsku þjóðarinnar og herliðsins. - La Giornata dell'Unità Nazionale e delle Forze Armate - Þegar Ítalir höfðu sigur í fyrri heimstyrjöldinni og sameinuðu svæðin Trento og Trieste aftur undir sínum fána.
Af ofantöldum dögum eru það 25. apríl og 2. júní sem eru opinberir frídagar en hinir upptaldir eru skilgreindir hátíðisdagar.
Comments