Ágúst Pétursson - dægurlagahöfundur

  • Facebook

Diskurinn Hittumst heil með lögum Ágústs var gefinn út árið 2001 á 80 ára fæðingarafmæli hans. Kostar 2.000 kr. heimsendur. Tekið er við pöntunum á netfangið agusta.sigrun@outlook.com og í síma 899 4428.

Lífshlaup

 

Ágúst (Metúsalem) Pétursson var fæddur 29. júní 1921 á Hallgilsstöðum í Norður-Þingeyjarsýslu en ólst upp skammt þar frá, á bænum Höfnum við Finnafjörð, sonur hjónanna Péturs Metúsalemssonar og Sigríðar Friðriksdóttur.  Þegar hann var 19 ára (1940) fór hann til Vestmannaeyja og tók sveinspróf í húsgagnasmíði, þeirri iðn sem hann vann við upp frá því, lengst af hjá Gamla Kompaníinu í Reykjavík. 

 

Ágúst lék á ýmis hljóðfæri. Hann lærði á orgel hjá föður sínum sem var organisti í sóknarkirkjunni á Skeggjastöðum við Bakkaflóa og lærðu öll systkinin undirstöðuatriði í tónlist hjá honum.  Fyrstu harmonikuna eignaðist hann ungur að árum en hún var hnappanikka og sá hann sjálfur um að ná tökum á hljóðfærinu. Eftir að hann kom til Vestmannaeyja spilaði hann á saxófón með lúðrasveitinni undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar.  Ásamt því raddæfði hann og söng I. bassa í oktett sem kallaði sig Smárakvartettinn og var starfræktur á árunum 1944-45 í Vestmannaeyjum.  Hann spilaði á dansleikjum í Alþýðuhúsinu og í Samkomuhúsinu í Vestmannaeyjum, lungann af þeim tíma sem hann bjó þar á árabilinu 1940-45. Á þeim tíma varð til lagið Gleym-mér-ei við texta Kristjáns frá Djúpalæk en bæjarstjórinn ákvað að banna flutning á laginu vegna þess að í textanum var minnst á Drottin, en það þótti alls ekki hæfa á þeim tíma.  Árni Tryggvason segir frá þessu í bók sinni en hann hafði lært lagið eftir eyranu af manni sem lærði það af manni em var staddur á umræddum danskleik þar sem lagið var flutt. Árni kom svo 35 árum seinna til Ágústar og bað um að fá að flytja lagið á skemmtun í Austurbæjarbíó og kunni lagið enn kórrétt.

 

Lagið Æskuminning samdi hann árið 1944, en hann kom því lagi ekki á framfæri fyrr en í danslagakeppni S.K.T árið 1952, að hann sendi lagið í keppnina fyrir áeggjan konu sinnar.  Æskuminning fékk II. verðlaun í keppninni, og var kjörið besta íslenska danslagið 1953, í skoðanakönnun tímaritsins Hljómplötunýjungar.  Jenni Jónsson fékk samskonar viðurkenningu fyrir textann.  Seinna fékk lagið sérstaka viðurkenningu frá Félagi íslenskra dægurlagahöfunda. 

 

Kristján frá Djúpalæk var sveitungi og æskuvinur Ágústar og gerði hann texta við flest lög Ágústar. Jenni Jónsson og Loftur Jónsson sömdu einnig marga texta fyrir hann en hann átti það líka til að setja sjálfur saman texta við lögin sín og upplýsist það hér með að textinn við lagið Óskastund er eftir hann sjálfan. 

 

Árið 1945 fluttist hann til Reykjavíkur með unnustu sinni sem hann hafði kynnst í Vestmannaeyjum, Guðrúnu Dagnýju Kristjánsdóttur frá Hvammi við Fáskrúðsfjörð og giftu þau sig 2. nóvember 1946. Hann var Kópavogsbúi frá 1951 og átti þar sitt heimili alla tíð á Álftröð 3, ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum, þeim; Hörpu, Pétri Ómari og Ágústu Sigrúnu.

 

Hann spilaði á dansleikjum með Jenna Jónssyni og Jóhanni Eymundssyni og um árabil léku þeir félagar í Skátaheimilinu við Snorrabraut undir nafninu Hljómatríóið.  Ágúst var einn af stofnendum Félags harmonikuunnenda í Reykjavík.  Fljótlega eftir stofnunina færði hann félaginu, marz sem hann tileinkaði þeim, harmonikumarzinn. 

 

Ágúst lést 28. júlí 1986.