top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Hafnir og fólkið þar

Updated: Nov 13, 2023

Þessa grein ritaði Ólafur Eggertsson í Berunesi, frændi minn. Hún birtist í tímaritinu Glettingi á síðasta ári. Hér er verið að fjalla um ömmu mína og afa sem bygggðu sér bú á Höfnum. Ég fór með frændfólki mínu að skoða gamla eyðibýlið á aðventunni 2021. Sirra frænka tók nokkrar dásamlegar myndir sem prýða þennan pistil.




Við sem nú erum uppi og njótum gæða og þæginda eigum oft erfitt með að setja okkur í spor þeirra, sem lifðu og störfuðu fyrir einum eða tveim mannsöldrum. Nánast allt hefur breyst, nema náttúran er enn með sama sniði að mestu leyti. Ég ætla að taka þig, lesandi minn, dálítið aftur á bak í tímann um og upp úr aldamótunum 1900 þegar flest var svo sem verið hafði um aldir í íslenskum sveitum, en þó, sjávarþorpin stækkuðu, vélarnar voru að koma í bátana og Ísland komið með heimastjórn. Á þessum tíma voru flestar fjölskyldur stórar, börnin mörg og kynslóðirnar bjuggu saman, oft þröngt, en hver hjálpaði öðrum og ættartengslin voru sterk.


Pétur Albert Metúsalemsson f. 16.08.1871 á Miðfjarðarnesi við Bakkaflóa og ólst þar upp uns hann fór sem vinnumaður á nágrannabæi og út á Langanes. Segir fátt af næstu árum uns hann réðst sem vinnumaður og síðar ráðsmaður að Sauðanesbúinu. Fyrst til sr. Arnljóts Ólafssonar, en eftir lát hans 1904 hjá Þorsteini Arnljótssyni. Hjá Þorsteini lærði Pétur á orgel. Var hann um árabil organisti kirkjunnar og kenndi ennfremur mörgum á hljóðfærið.





Í Vestmannaeyjum ólst Sigríður Friðriksdóttir f. 29.06.1884 upp í stórum systkinahóp. Foreldrar hennar höfðu flutst til Eyja frá Núpi undir Eyjafjöllum árið 1904. Yfir sumarið var litla vinnu að hafa í Eyjum og því fór Sigríður norður til Þórshafnar og var m.a. í vinnu hjá Þorsteini Arnljótssyni, sem þá var tengdur búinu á Sauðanesi, auk þess að stýra verslun sinni á Þórshöfn. Þannig bar það til, að Sigríður og Pétur voru samtýmis þarna og felldu hugi saman. Þau gengu síðan í hjónaband 1907 og hófu búskap á Hallgilsstöðum sem er jörð sunnan Hafralónsár, innst á Langanesi. Sauðanesbúið átti þar hluta jarðarinnar og það fengu þau til leigu.



Á Hallgilsstöðum stækkaði fjölskyldan.: Pétur Marinó f.1908, Elín Margrét f. 1909, Valgerður Guðbjörg f. 1912, Oddgeir Friðrik f. 1914, Björn Óli f. 1916, Ágúst Metúsalem f. 1921.


Efnin voru ekki mikil, og 1922 vildu þau kaupa jörðina, en fengu ekki á ásættanlegu verði og ákváðu að taka sig upp og flytja til Vestmannaeyja. Það sem fékkst fyrir bústofninn og innanstokksmuni fór að mestu í að gera upp verslunarskuldir, en bestu kúna höfðu þau með sér á skipinu Villemoes til nýrra heimkynna. Fjölskylda Sigríðar, Friðrik og Oddný í Gröf léttu undir með fjölskyldunni fyrsta kastið, en eftir eitt ár, ár með erfiðleikum og heilsuleysi, var stefnan tekin til baka og haldið til Bakkafjarðar, þar sem ættingjar opnuðu þeim dyr sínar. Sigríður og Ágúst fóru í Bakka, en Pétur og flest barnanna í Miðfjarðarnes. Marinó í vinnu á Bakkafirði og víðar.


En árið 1924 sameinaðist fjölskyldan í Saurbæ og þau fengu keypta 10 ha. spildu út með Saurbæjarnesi þar sem mátti byggja, hafa 30 ær, 1 kú og 1 hest og lendingu fyrir 1 bát. Þarna voru Hafnir komnar á kortið og hafist handa við íbúðarhús. Gerður grunnur og hlaðinn kjallari sem lokað var að hausti. Og þangað flutti fólkið og má nærri geta hvort ekki hafi verið þröngt skorinn stakkurinn til að byrja með. Neðan við bæinn er fjaran, þó nokkur malarkambur, en brúkleg lending milli hleina. Pétur átti árabát og stundaði sjóinn ásamt sonum sínum, fyrst og fremst til að afla heimilinu matar, en eitthvað var verkað og lagt inn í verslun. "Var þá mikið unnið, en lítið sofið," eða svo sagði einn bróðirinn síðar.


Ekki löngu síðar eignuðust þeir vélbátinn Stellu og alla tíð fylgdi það nafn bátum í eigu einhvers þeirra. Fiskurinn var verkaður heima, aðallega saltaður og lifrin sett í ker og látin sjálfrenna, sem kallað var. Þegar farið var síðla nætur til fiskjar, var það fastur siður að taka stóra kúfskel, sökkva í lýsiskarið og drekka. Þeir höfðu tröllatrú á hollustunni og lýsið dugði vel með einhverju nesti fram eftir degi. Af bústofninum fara fáar sögur, en einhverju sinni var fenginn grís. Sá óx og þegar kom að því að lóga dýrinu, vandaðist málið. Kunnáttan ekki mikil, en þó var vitað að til að ná burstunum (hárinu) úr húðinni varð að hafa sjóðandi vatn. Kom sér nú vel sá stóri þvottapottur sem Oddgeir hafði þá nýlega gert og stóð á steyptri undirstöðu, sem enn má sjá. En eftir mannraunir og mikið heitt vatn varð þó þetta svín að miklum og góðum mat.


Á Höfnum fæddist þeim hjónum drengur, sem skírður var Garðar, en honum entist ekki aldur og dó tveggja ára. Tónlistin var ríkur þáttur í Pétri, bæði var hann organisti og kenndi fólki. Hann réðst í það að kaupa forláta orgel-harmoníum og flytja í Hafnir. Seinna kom þetta orgel í Laxárdal og nú er það hjá Garðari Eggertssyni. Hljómfagurt og ljómandi stofustáss. Pétri var fleira til lista lagt. Hann var eftirsóttur hárskeri og sjálflærður dýralæknir sem oft gat leyst úr vanda. Lengi átti hann Skjóna sinn, lipran reiðhest. Pétur andaðist vorið 1935, en Sigríður hélt fjölskyldunni saman á Höfnum til 1939 að búið var leyst upp og fólkið dreyfðist. Það var kannski naumast rétt að segja að fjölskyldan hafi verið búsett á Höfnum síðustu árin, því sækja varð vinnu út í frá. Þeir bræður voru flestir tengdir útgerð Stellu og gerðu þá mest út frá Bakkafirði og lönduðu þar í fiskverkun. Elín Margrét fór snemma að vinna út frá heimilinu. Strax eftir fermingu tók hún að sér ráðskonustarf á Bakkafirði, en næstu árin meir heima við, 16 ára keypti hún sér prjónvél og prjónaði þá og ætíð mikið. Þessa prjónavél átti hún og notaði allt sitt líf. Haustið 1928 réði hún sig í vist til Rolfs Johansen kaupmanns á Reyðarfirði. Af ferð hennar að heiman er nokkur saga svohljóðandi:


Elín segir frá: Ég fór á Bakkafjörð til að taka þar strandferðaskip. En að morgni næsta dags var stórhríð og versta veður svo skipið komst ekki inn og hélt áfram til Vopnafjarðar. Var nú haft samband við afgreiðslumanninn þar og honum greint frá að ég gæti ekki komið, svo sem áætlað var. En hann var tengdur Rolf og vissi að mín væri vænst, svo hann lagði svo fyrir að fundinn væri duglegur maður að flytja mig á hesti til Vopnafjarðar og það var gert. Jónas Pálsson í Kverkártungu kom og eftir 13 klukkustundir vorum við komin alla leið. Þá var uppskipunarbáturinn að koma úr síðustu ferð sinni og skipverjar voru tregir að fara til baka vegna slæms veðurs og sjólags. Þeir fóru þó samt og ég komst um borð. Á Reyðarfirði var ég eitt ár, vann í eldhúsi og mjólkaði kýrnar.

Nokkur orð um fólkið á Höfnum.

Samheldnin og dugnaðurinn voru þessari fjölskyldu lykilatriði, en svo átti handverkið og tónlistin einnig sinn sess. Áður er nefnt, að mikið var prjónað og spilað á orgel, en öll systkinin spiluðu eftir nótum, og þó þeir Marinó og Ágúst mest. Ágúst, yngsti bróðirinn sem upp komst, var snemma heillaður af tónunum og þeir Kristján Einarsson frá Djúpalæk voru miklir mátar. Með árunum urðu til margar perlur hjá þeim, saman og sitt í hvoru lagi. Ágúst lærði fyrst á harmonikku hja Ormalónsbræðrum, en síðan og mest í sjálfsnámi. Í Vestmannaeyjum var hann m.a. félagi í lúðrasveit staðarins á námsárum sínum þar. Marinó, Björn og Oddgeir voru næstu árin tengdir störfum við fisk og veiðar. Seinna gerðist Marinó heildsali og bjó þá ásamt Sigríði móður sinni í Kópavogi. Björn Óli verslunarmaður og stofnaði Karnabæ tískuverslun ásamt félaga sínum. Bjó í Reykjavík með sinni fjölskyldu. Oddgeir hannaði og smíðaði hausingavél, sem þótti mikið þarfaþing og var notuð víða í fiskvinnslum. Hann átti lengst heima í Keflavík. Ágúst lærði húsgagnasmíði og vann við það, en hafði alltaf hlutastarf í tónlistinni. Lék í danshljómsveitum, eða einn og sinnti lagasmíð. Hann bjó í Kópavogi, en þeir bræður, Marinó og hann reistu sér og mömmu sinni hús þar. Valgerður var hægri hönd bræðra sinna í útgerðinni á Bakkafirði, og þar kynntist hún manni sínum, Braga Halldórssyni og saman fluttu þau til Keflavíkur. Skömmu fyrir stríðið fluttist Valgerður til Kaupmannahafnar og hugðist verða þar í eitt ár. Það var þó ekki fyrr en með ferð Esju frá Petsamo að hún komst heim á ný. Þá er að nefna Elínu Margréti. Hún vann að heiman, á Akureyri, Ísafirði og ásamt mömmu sinni og Birni á Seyðisfirði áður en þær mæðgur fluttust til Þórshafnar haustið 1940. Á Akureyri hafði hún starfað við karlmannafatasaum og fékkst nú við það ásamt því að prjóna á prjónavélina góðu. Árið 1942 fluttist hún í Laxárdal og giftist Eggert bónda Ólafssyni þar.


Nú stendur fátt eftir að mannvirkjum á Höfnum. Þó eru veggir húsanna uppistandandi, umgjörðin um þvottapottinn og stallur kýrinnar. Garðurinn um matjurtagarðinn er greinilegur og lendingin fyrir neðan bæinn er á sínum stað. En yfir öllu vakir Gunnólfsvíkurfjall handan Finnafjarðar.


Berunesi á sumardaginn fyrsta 2021 - Ólafur Eggertsson.



Hafnir - malað af Hauki Björnssyni
Hafnir - málað af Hauki Björnssyni

Heimildir:

Frásögn Elínar Margrétar Pétursdóttur.

Langnesingasaga. Höfundur Friðrik G Olgeirsson.

Sveitir og jarðir í Múlaþingi 1. bindi.

Ættartöl og viðtöl við ættmenni.

Related Posts

See All
bottom of page