top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Marinó Pétursson - 111 ára minning +2

Updated: Nov 13, 2023

(skrifað 21.02.2019 / Endurbirt og uppfært á konudaginn 21.02.2021)


Marinó frændi, föðurbróðir minn, var fæddur 21. febrúar 1908 og lést 12. nóvember 1991. Það eru því 111 ár síðan hann fæddist. Mér fannst merkilegt að uppgötva nýlega að frændi dó sama dag og mamma mín, Guðrún Dagný Kristjánsdóttir, en hún féll frá 12. nóvember 2015, þá níræð. Á Álftröðinni, í húsinu sem pabbi minn, Ágúst Pétursson, teiknaði og byggði á árunum 1951-52, var skemmtilegt sambýli þegar ég var ung. Þau pabbi og mamma voru frumbyggjar í Kópavogi og fyrst var ætlunin að byggja hús á einni hæð fyrir fjölskylduna sem fór ört stækkandi. Það varð hins vegar úr að Sigríður amma mín og frændi myndu flytja í Kópavoginn og þá var einfaldlega teiknuð önnur hæð ofan á húsið. Frændi er mér mjög minnisstæður en hann var eiginlega eins og afi minn. Það var 13 ára aldursmunur á þeim bræðrum, frændi var elstur og pabbi var yngstur þeirra systkina frá Höfnum. Frændi var mjög tónelskur, gjafmildur, gestrisinn og með afburðum barngóður. Ótrúlega oft skreið maður upp stigann í innlit til hans. Hann hýsti gjarnan ungt fólk úr fjölskyldunni sem var að hefja sambúð og naut þess þá að kynnast ungviðinu með sinni rólegu návist og hlýju. Hann leyfði mér að gramsa í frímerkjasafninu hjá sér og ég kom mér upp flottu safni með tímanum. Hann var um langt skeið í mat hjá mömmu. Man hvað ég var orðin vön spurningunni um saltið. Frændi saltaði nefnilega matinn áður en hann smakkaði hann og það átti sér sínar skýringar. Þannig var að þegar þau systkinin voru að alast upp á Höfnum við Finnafjörð virðist grunnvatnið sem notað var til drykkjar og matargerðar hafa verið í saltara lagi. Því fannst þeim bræðrum maturinn oft mjög bragðdaufur, því þeir höfðu saltari bragðlauka en gengur og gerist. Marinó Pétursson var líka heildverslun sem flutti aðallega inn og verslaði með byggingar- og útgerðarvöru. Margir úr fjölskyldunni stigu sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum í fyrirtækinu hjá frænda og fóru með gott veganesti út í lífið eftir þá reynslu. Hann flutti svo á heimahagana, til Bakkafjarðar, stundaði sjóróðra og varði ævikvöldinu þar. Frændi spilaði mikið á píanó. Oft á kvöldin þegar maður var kominn í háttinn, heyrði maður óminn af Für Elize og aðrar perlur að ofan. Þegar ég byrjaði í tónlistarnámi áttaði ég mig á að Beethoven hafði verið í miklu uppáhaldi hjá frænda, hans tónlist hljómaði oft að ofan. Hann var ánægður með að ég var í tónlistarnámi og gladdist þegar ég byrjaði í söngnámi. Þegar ég svo ákvað að fara í ævintýraferð til Ítalíu að læra ítölsku kom hann færandi hendi með umtalsverða upphæð til að tryggja að ég gæti gert þennan draum að veruleika. Frændi ánafnaði öllum eigum sínum í sérstakan sjóð eftir sinn dag sem hýstur er undir verndarvæng Íslensku Óperunnar. Það kom okkur öllum skemmtilega á óvart og var hjartanleg staðfesting á því hvað var hans líf og yndi. Þegar ég rifja upp tengslin sem ég átti við frænda, finn ég að ég sakna hans. Ég vona að hann og pabbi séu einhversstaðar úti á sjó á veiðum, þöglir en flautandi lagstúf á meðan þeir bíða eftir að hann bíti á.Ágústa Sigrún Ágústsdóttir

Related Posts

See All

ความคิดเห็น


bottom of page