top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Aldarminning - Ágúst Pétursson

Updated: Nov 13, 2023

Ágúst (Metúsalem) Pétursson var fæddur 29. júní 1921 á Hallgilsstöðum í Norður-Þingeyjarsýslu en ólst upp skammt þar frá, á bænum Höfnum við Finnafjörð, sonur hjónanna Péturs Metúsalemssonar og Sigríðar Friðriksdóttur. Um Jónsmessuna er birtan og hlýjan hvað mest norður við heimskautsbaug og þannig munum við harmonikuunnendur minnast hans. Þessa ljóðrænu hlýju skynjum við líka í tónlistinni, sem hann gaf okkur. Ekki urðu textarnir heldur til að skemma fyrir og aldrei var hann í vandræðum með að fá góða textahöfunda. Æskuvinur hans og nágranni, Kristján Einarsson frá Djúpalæk, færði honum gullfallega texta. Loftur Jónsson vinur Ágústar, setti saman marga texta fyrir hann, einnig Jenni Jóns, en þeir spiluðu saman í hljómsveit í mörg ár. Allir voru þessir textahöfundar miklir fagurkerar og textarnir komu frá hjartanu, eins og tónlistin.


Ágúst hóf ungur að leika á harmoniku og 18 ára flutti hann til Vestmannaeyja, til að að leika fyrir dansi. Þar hófst samstarf hans við Jenna Jóns, sem einnig átti eftir að verða þjóðkunnur laga- og textasmiður. Ágúst lék reyndar á ýmis hljóðfæri. Hann lærði á orgel hjá föður sínum sem var organisti í sóknarkirkjunni á Skeggjastöðum við Bakkaflóa. Fyrstu harmonikuna eignaðist hann ungur að árum en hún var hnappanikka og sá hann sjálfur um að ná tökum á hljóðfærinu. Eftir að hann kom til Vestmannaeyja spilaði hann á saxófón með lúðrasveitinni undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar. Ásamt því raddæfði hann og söng I. bassa í oktett sem kallaði sig Smárakvartettinn og var starfræktur á árunum 1944-45 í Vestmannaeyjum. Hann spilaði á dansleikjum í Alþýðuhúsinu og í Samkomuhúsinu í Vestmannaeyjum, lungann af þeim tíma sem hann bjó þar á árabilinu 1940-45.

 2. nóvember 1946 Brúðarmynd: Guðrún Dagný Kristjánsdóttir og Ágúst M. Pétursson
2. nóvember 1946 - Brúðarmynd Guðrún Dagný Kristjánsdóttir og Ágúst M. Pétursson

Ágúst Pétursson flutti til Reykjavíkur árið 1945, þá fullnuma í húsgagnasmíði sem hann lærði í Vestmannaeyjum hjá Óla Gränz. Honum hafði víst hálfleiðst að mæla göturnar á daginn og var boðið að hjálpa til á trésmíðaverkstæðinu hjá honum, sem leiddi til þess að hann lagði smíðarnar fyrir sig sem ævistarf. Í Vestmannaeyjum hafði hann einnig kynnst ástinni sinni og þau Guðrún Dagný Kristjánsdóttir frá Hvammi við Fáskrúðsfjörð giftu sig fljótlega eftir að þau fluttu til Reykjavíkur. Hann hóf að leika á dansleikjum í höfuðborginni í samvinnu við Jenna Jóns og Jóhann Eymundsson, en um árabil léku þeir félagar saman í Skátaheimilinu við Snorrabraut undir nafninu Hljómatríóið. Þau hjónakornin byggðu sér heimili í Kópavogi, á Álftröð 3 og fluttu inn árið 1951. Þar átti hann sitt heimili alla tíð ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum, þeim Kristrúnu Hörpu, Pétri Ómari og Ágústu Sigrúnu.


Það mun hafa verið fyrir norðan á heimaslóðum að Ágúst fór fyrst að setja saman lög, en þegar danslagakeppni S.K.T. hófst upp úr 1950 varð hann þjóðkunnur. Brilljantíngreiddir töffarar styttu tangósporin og rauluðu Æskuminningu í eyrað á kærustunni og það var að minnsta kosti einn Þórður sjóari um borð í hverjum síldarbát, en þeir voru á þriðja hundraðið. Guðrún kona hans átti reyndar talsverðan þátt í því að Æskuminning komst á framfæri, því þegar höfundurinn hikaði, tók hún af skarið og eggjaði hann til að senda lagið í danslagakeppnina. Lög Ágústar Péturssonar urðu fjölmörg og mörg þeirra greipt í þjóðarsálina. Lagið Harpan ómar er við texta eftir Jenna Jóns sem kom nöfnum tveggja barna Ágústs inn í titil lagsins, þeirra Hörpu og Ómars.


Ágúst Pétursson fékk margar viðurkenningar fyrir lög sín. Meðal annars var lagið Æskuminning valið næst besta dægurlagið árið 1953, í skoðanakönnun tímaritsins Hljómplötunýjungar. Jenni Jóns fékk samskonar viðurkenningu fyrir textann. Lagið var gefið út á hljómplötu sama ár. Alfreð Clausen söng með Hljómsveit Carls Billich. Harmonikuleikari í þeirri hljómsveit var einn af félögum í F.H.U.R., Bragi Hlíðberg. Þá fékk Æskuminningin sérstaka viðurkenningu frá félagi íslenskra dægurlagahöfunda. En mesta viðurkenningin er þó sú, að þessi lög eru orðin sígild.


Ágúst Pétursson gerðist félagi í Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík fljótlega eftir stofnun þess 1977 og var alltaf tilbúinn að leggja félaginu lið þegar á þurfti að halda. Á hann var hlustað og hann gerði sig snemma gildandi í félaginu. Fljótlega eftir að hann gekk í félagið, færði hann því að gjöf fallegan mars, sem hann hafði samið. Félagið er ákaflega stolt af því að eiga þennan glæsilega FHUR mars. Frá byrjun lék hann með hljómsveitum félagsins og er hans minnst sem góðs félaga, sem aðeins lagði gott til málanna, þegar eitthvað þurfti úrlausnar við. Þegar Samband íslenkra harmonikuunnenda var stofnað á Akureyri 3. maí 1981, af þeim fimm harmonikufélögum sem þá höfðu verið stofnuð, varð hann fyrsti fulltrúi FHUR og fyrsti gjaldkeri sambandsins.


Síðasta lagið sem Ágúst samdi var líklega í tengslum við æfingar á vegum F.H.U.R. Einn félaginn, Eyþór Guðmundsson, bjó í Selbrekkunni í nágrenni við Gústa. Þar varð Selbrekkumarsúrkinn til, sem líklega er saminn árið 1984.


Ágúst Pétursson lést 28. júlí 1986 langt um aldur fram. Hans verður ávallt minnst sem góðs félaga og eins af bestu lagasmiðum F.H.U.R. Í ár höldum við minningu hans á lofti, því hann á 100 ára fæðingarafmæli þann 29. júní 2021.


Þegar Ágúst lést samdi æskuvinur hans, Kristján frá Djúpalæk, þessi fallegu kveðjuorð í bundnu máli sem lýsir sambandi þeirra æskuvinanna svo vel og jafnframt þessari átthagaþrá sem var svo einkennandi fyrir texta þess tíma.


Kristrún Harpa og Ágústa Sigrún Ágústsdætur

(greinin birtist í Harmonikublaðinu í maí 2021)


Kveðja


Ó, vinur hve við undum saman ungir,

í anda gengum við til nægtaborðs.

Og vonir okkar hátt til lofts í ljóma,

þá lyftu sér á vængjum tóns og orðs.

Við sáum framtíð fegri okkar samtíð

og fengum hryggð í dýpstu gleði breytt.

Við þráðum blæ og birtu fjarra stranda,

en bernskustöðvum unnum þó svo heitt.


Við hurfum brott úr heimi bernskudrauma

og hlutum leiði, stundum óskabyr.

Til frjórri marka, fundum eðalsteina,

en fylgja ættarmeiðsins knúði dyr

og mælti: Ykkur ber að syngja saman,

þann söng er löngum fyrr við eyra kvað.

En hann var aðeins hljómur liðins tíma

og hjörtu okkar máttu gráta það.


Og nú ert þú til fegri landa farinn,

ég fylgi þér í hug með djúpri þökk.

Því vinum er ei skapað nema að skilja,

þú skilur best er rödd mín gerist klökk.

Á milli okkar ei er þráður slitinn,

þú ert og verður stöðugt mér við hönd.

Við þáðum margt sem þakka ber og virða,

en þó var æskan best – á gömlu Strönd.


Kristján frá Djúpalæk – 29. júlí 1986

Related Posts

See All

Comments


bottom of page