top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Jenni Jóns og Ágúst Péturs

Updated: Nov 13, 2023

Pabbi eignaðist marga vini í gegnum tónlistina. Menn sem spiluðu með honum í hljómsveitum í gegnum tíðina og aðra sem sömdu texta fyrir hann. Hann var líka alltaf boðinn og búinn að aðstoða sína vini við að skrifa upp nótur og prufukeyra lög sem þeir voru að semja. Jenni Kristinn Jónsson var einn af þeim.


Við höfum heimildir fyrir því að pabbi hafi skrifað upp lagið Vökudraumur fyrir Jenna Jónsson sem var ævilangur vinur pabba og mikill samgangur með fjölskyldum þeirra alla tíð. Lagið á að hafa orðið til á stofugólfinu heima hjá pabba og hann hripað það niður. Pabbi sá svo um að kenna Alfreð Clausen lagið sem söng það inn á plötu í litlu stúdíó á Óðinsgötu 5.

Ágúst, Guðrún Dagný, Svava Sveins og Jenni Jónsson
Ágúst, Guðrún Dagný, Svava Sveins og Jenni Jónsson.

Efstu tvær plöturnar á metsölulista í desember 1953 hjá Drangey voru Vökudraumur og Æskuminning.


Vökudraumur var svo kjörið besta íslenska dægurlagið í skoðankönnunun tímaritsins Hljómplötunýjunga árið 1954. Fast á hæla þess var lagið Æskuminning eftir pabba. Sama ár var Sigfús Halldórsson kjörinn besti íslenski dægurlagahöfundirinn, Ágúst Pétursson var í öðru sæti og Jenni Jónsson í því þriðja. Ég er viss um að þeim hafi fundist vænt um þetta þeim vinunum.


Þeir kynntust í Vestmannaeyjum þegar pabbi flutti þangað 18 ára gamall til að leika fyrir dansi. Þar hófst vinskapur þeirra. Það var reyndar töluverður aldursmunur á þeim, Jenni fæddur 1906 en pabbi 1921 en þeir áttu gott samstarf í yfir 25 ár og tók upp þráðinn eftir að þeir fluttu í bæinn og spiluðu saman í Hljómatríóinu með Jóhanni Eymundssyni. Spilað var fyrir dansi í Skátaheimilinu við Snorrabraut, Gúttó í Hafnarfirði, í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði og á fleiri stöðum.

Ömmubæn, Lipurtá, Brúnaljósin brúnu eru lög sem hljómuðu oft heima hjá mér og voru ekki síður vinsæl í óskalagaþáttum útvarpsins.


Brúnaljósin brúnu unnu fyrstu verðlaun í danslagakepnni Skemmtiklúbbs templara (SKT) árið 1954 í flokknum „Nýju dansarnir”.


Þegar lagið kom út á plötu var hún rifin út, enda Alfreð vinsæll og hafði nýverið verið kosinn besti íslenski dægurlagasöngvarinn í skoðanakönnun Hljómplötunýjunga. Platan var í fyrsta sæti metsölulista Drangeyjar í nóvember 1954.Eftir að Jenni flutti til Reykjavíkur lagði hann harmonikuna á hilluna og trommurnar urðu hans hljóðfæri og svo fóru lögin að koma á færibandi. Jenni var feykigóður textasmiður líka og átti texta við mörg af vinsælustu lögum pabba, t.d. Æskuminningu, Góðir dagar og Harpan ómar. Þar tókst honum að koma fyrir í titli lagsins nöfnum eldri systkina minna, þeim Hörpu og Ómari. Undirrituð var ekki komin á teikniborði þá, enda örverpi.


Það sem tengdi mig við Jenna, þó svo að það væri 59 ára aldursmunur á okkur, var að við áttum sama afmælisdag, 1. september. Ég man enn eftir afmæliskveðjunum sem ég fékk frá þeim Jenna og Svövu Sveinsdóttur, eiginkonu hans á þeim degi.


Jenni greindist með Parkinson sjúkdóminn og var mjög lasburð síðustu æviárin. Í minningargrein sem pabbi skrifar um Jenna sem lést árið 1982 ritar hann meðal annars: „Ég kynntist Jenna árið 1942 þegar hann var fenginn til Vestmannaeyja til að spila í Alþýðuhúsinu þar í bæ. Við spiluðum þar oftast bara tveir um eins og hálfs árs skeið. Betri félaga hefði ég ekki getað hugsað mér að vinna með. Engan, hvorki fyrr né síðar, hef ég þekkt, sem hafði eins næmt auga fyrir broslegu hliðum lífsins, og gerði allt svo lifandi og ljóst með sinni snilldarlegu frásagnargáfu.”

Related Posts

See All

コメント


bottom of page