Hljómatríóið var tríó harmonikuleikaranna Jenna Jónssonar, Ágústs Péturssonar og Jóhanns Eymundssonar. Jóhann og pabbi hófu samstarf ásamt Jenna Jóns sem var giftur frænku Jóhanns, Svövu Sveinsdóttur. Þeir spiluðu á harmoniku en Jenni skipti fljótlega yfir á trommurnar. Hljómatríóið starfaði í ein 17 ár og spiluðu þeir mest í Skátaheimilinu við Snorrabraut og Breiðfirðingabúð á Skólavörðustíg.
Áður í þessum upprifjunarpistlum um pabba var fjallað um Jenna en þessi pistill er tileinkaður spilafélaga pabba og Jenna í Hljómatríóinu, Jóhanni Eymundssyni.
Faðir hans var Eymundur Austmann sem var mikill harmoniku snillingur og spilaði mjög víða á Vestfjörðum á sínum yngri árum ávallt einn og á hnappanikku. Hann byrjaði að
kenna syni sínum þegar hann var um 8 ára gamall og spilaði Jóhann fyrst opinberlega í Skjaldborg á Patreksfirði þá 11 ára. Þá var hann svo feiminn að fortjaldið var ekki dregið frá fyrr en eftir að hann hætti leik.
Árið 1942 flytur fjölskyldan til Reykjavíkur og er nikkan ávallt þanin á heimilinu og í allskonar samkvæmum. Um 1950 spila saman þeir bræðurnir Jóhann, Alfreð og Ingimundur á réttarballi í Landeyjum en Jóhann og Ingimundur spiluðu mjög oft saman.
Árið 1954 flutti Jóhann ásamt konu sinn, Þórhöllu Karlsdóttur, Döddu, í Kópavoginn og voru þau meðal þeirra fyrstu sem byggðu þar. Svo skemmtilega vill til að foreldrar mínir gerðu slíkt hið sama. Þau byggðu á Álftröð 3 á árunum 1951-1952 en Jóhann og Dadda á Víghólastíg 16, ögn austar.
Þessi auglýsing birtist í tímaritnu Hamar þann 22. desember 1954. Þá hefur tríóið verið nýstofnað og til stóð að leika fyrir dansi í Gúttó í Hafnarfirði á annan í jólum. Auk þess spiluðu þeir stundum í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði.
Aldrei sendu tríóið frá sér efni þrátt fyrir að hafa á að skipa tveimur öflugum og virkum lagahöfunda, þeim Jenna og Ágústi. Nokkrir frægir söngvarar komu fram með þeim þ.á.m. Alfreð Clausen og með honum var tekin upp plata sem Íslenzkir tónar gáfu út árið 1954 og innihélt Hreyfilsvalsinn eftir Jenna og Blítt og létt eftir Oddgeir Kristjánsson og Árna úr Eyjum.
Jóhann samdi þó nokkur lög en eina lagið sem vitað er að kom út á plötu er lagið Útþrá. Reyndar er eftirnafnið hans Jóhanns misritað á plötunni því hann er Eymundsson, en bar millinafnið Sigurður.
Lagið var útsett af Jan Morávek í kúrekatakti eða country takti sem var óvenjulegt á þessum tíma en var vinsælt vestanhafs. Jónatan Garðarsson getur þess í þættinum sínum Flugur þann 28. júní 2021 og spilar lagið.
Elfa Dís, dóttir Jóhanns, sagði mér að pabbi hennar hafi ekki verið ánægður með útsetninguna á laginu. Þau tóku sig því til og fengu pabba sinn ti að syngja og spila lagið inn á upptöku eins og hann hefði viljað hafa það. Þau voru svo yndisleg að leyfa mér að birta þá upptöku hér. Vel gert hjá honum, kominn vel á sjötugs aldur þegar upptakan var gerð.
Útþrá komst í úrslitakeppni SKT árið 1955 og fékk viðurkenningu sem og lag eftir pabba sem nú virðist glatað og heitir Elfa ástarinnar.
ÚTÞRÁ
Texti: Jenni Jónsson
Fýsti mig að ferðast ungur
Fá að kanna lönd og höf
Útþrá mín var öllu fremri
Ég hlaut hana barn í vöggugjöf
Sigldi síðan fríðu fleyi
Föðurland mitt hvarf mér þá
Lifði ótal ævintýri
Ókunn lönd og víð‘ um höfin blá
Löngum þráði ég landið kæra
Ljúfa snót og græna hlíð
Að heyra málið bjarta blíða
Frá bernsku minnar unaðstíð
Og þótt ég beri bein mín fjarri
Best er minnar móðurskaut
Sú endurminning ávallt geymist
Hún er mér fró í sorg og gleði og þraut
Ég man mest eftir Jóhanni úr versluninni Drífu við Hlíðarveginn og þangað átti maður oft erindi. Þau hjónin, Jóhann og Dadda stunduðu verslunarrekstur stóran hluta starfsævinnar en Jóhann nam trésmíðar, útskrifaðist sem húsasmíðameistari og starfaði alla tíð við það að einhverju leyti meðfram verslunarrekstri.
Þeir áttu því margt sameiginlegt spilafélagarnir, báðir iðnmenntaðir og fengust við smíðar. Báðir lagahöfundar, harmonikuleikarar, frumbyggjar í Kópavogi og bjuggu nánast á sama frímerkinu. Auk þess urðu mörg barna þeirra samferða í skóla.
Elfa Dís segir að pabbi sinn hafi verið mikið snyrtimenni og man vel eftir hvernig hann vafði teppi utan um nikkuna sína og pakkaði henni niður í trétösku. Hann bað hana líka oft um að bursta skóna sína áður en hann fór að spila og hún tók góðan tíma í það.
Helga dóttir Jóhanns man eftir því þegar pabbi hennar var að æfa sig upp á Víghólastíg þá mátti enginn vera inni í stofunni nema hundurinn Kátur. Hann horfði á pabba aðdáunaraugum þegar hann þandi nikkuna og var að undirbúa sig fyrir ball kvöldsins.
Vil nota tækifærið og þakka börnum Jóhanns sem lögðu mér til efni í þennan pistil.
Hittumst heil.
コメント