top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Ja, sjómennskan er ekkert grín

Updated: Nov 13, 2023

Til hamingju með daginn sjómenn og sæfarendur. Ég er sjómannsdóttir langt aftur í ættir eins og flestir Íslendinga en ekki algerlega hreinræktuð. Ég er hvorki hreinræktaður Íslendingur né hreinræktuð sjómannsdóttir.


Langa-langa-langafi minn í föðurætt hét Louis Henry Joseph Vandercruyce (Vandercruys eða Vandercruyse) fæddur í Dunkerque/Dunkirk þann 25.3.1787 (ekki vitað hvenær eða hvar hann lést). Hann var einn af frönsku sjómönnunum sem komu upp að ströndum Íslands til að veiða á 17. og 18. öld. Skútan sem hann var á hét Morgunroðinn (l'Aurore) frá bænum Dunkerque og strandaði á Skálafjöru í Meðallandi nær því beint niður af bænum Slýum 13. apríl 1818. Allir sem voru um borð á l'Aurore komust lífs af, en þeir voru ellefu talsins. Nokkrum dögum eftir skipstrandið var haldið uppboð á munum sem björguðust úr skipinu. Níu mánuðum síðar hinsvegar, þann 26. janúar 1819, fæddist Benóní Hendriksson (Hinriksson), langa-langafi minn. Móðir hans var Valgerður Jónsdóttur, vinnukona á Skurðbæ. f. 1778 í Sandfellssókn, d. 3.1.1851 í Sauðhúsnesi. Var hann kallaður "Svarti Bensi" þar sem hann þótti dökkur á hörund. Skipbrotsmennirnir fóru frá Vík 2. maí en til Reykjavíkur komu þeir ekki fyrri en 11. maí. Þeir fóru smátt og smátt heim á leið en farkostirnir voru svo litlir að ekki var hægt að taka fleiri en tvo til þrjá þeirra hverju sinni. Þrír þeir síðustu fóru frá Íslandi þann 12. ágúst 1819 með vöruflutningaskipinu Othin. Með því skipi fór Louis Henry Joseph Vanderoruys og er honum svo lýst í vegabréfi bæjarfógetans í Reykjavík: 31 árs að aldri, fæddur í Sandhólakirkju, talar frönsku, hollensku o. s. frv., meðalmaður að vexti, riðvaxinn, brúnhærður og bláeygður. Hér er smá samantekt um strandið sem birtist í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1974.


Þegar hann yfirgaf landið vissi hann ekki að hann hefði sáð fræi í frjóan svörð og hann komst líklega aldrei að því. Eftirgrennslan síðustu ára bendir ekki til þess að hann hafi eignast önnur börn og keðjan er slitin virðist vera. Þessi ungi sjómaður sem kom hingað, á sem sagt sæg af afkomendum hér á landi og var alveg grunlaus alla ævi um ættbogann sem til varð út frá honum.

Strandsaga úr Meðallandi
.pdf
Download PDF • 123KB

Hér er samantekt um það helsta sem vitað er um þennan forföður minn.


P.S. Það hefur komið upp sú tilgáta að nafnið hans gæti hafa verið rangritað. Að líklegri útgáfa af eftirnafninu sé Vandercruys eða Vandercruyse í stað Vanderoruys. Nútímaútgáfan gæti ver Van der Cruys. Það skyldi þó aldrei vera...


Amma mín, Sigríður Friðriksdóttir, var systir Binna í Gröf og einn afkomanda franska sjómannsins. Allir synir hennar voru til sjós í lengri eða skemmri tíma, þ.m.t. pabbi minn, Ágúst Pétursson, sem var skipverji á bátum frá Þórshöfn og Bakkafirði. Mér er minnistæð sú nostalgía sem gerði vart við sig á vorin, þegar pabbi þurfti nauðsynlega að fara til Bakkafjarðar að gera út með Marinó frænda. Það var góðlátlega gert grín af því og sá sælureitur kallaður Costa del Bakkafjörður.


Ég skrifaði stutta minningargrein um Marinó frænda í fyrra, þegar hann hefði orðið 111 ára. Þannig að í ár eru 112 ár síðan Marinó frændi fæddist. Á næsta ári er merkisár, því þá hefði pabbi orðið 100 ára. Hann var fæddur 29. júní 1921. Það verður gaman að fagna þessum merkisdegi með tónlistina hans í fyrirrúmi. Diskurinn Hittumst heil kom út árið sem hann hefði orðið áttræður, þannig að nú er lag að gleðjast og hittast heil á komandi ári. Þá fær Þórður sjóari örugglega að hljóma og Harpan að óma.


En þeir voru fleiri sjómennirnir í minni ætt. Bæði þar sem mamma ólst upp í Hvammi við Fáskrúðsfjörð og þar sem pabbi ólst upp á Höfnum við Finnafjörð voru tekjurnar drýgðar með því að gera út á litlum bát frá bæjunum. Síðar varð bróðir mömmu háseti á MB Frey, sem gerði út frá Vestmannaeyjum. Hinn 12. febrúar 1944 gekk aftaka suðvestan veður yfir landið með miklu brimi og hafróti. Þetta var hið mesta mannskaðaveður og fórust fjórir bátar með 15 sjómönnum. Árið 1944 var annað mesta slysaár á styrjaldarárunum 1939-1945. Þá fórust 17 skip og 104 manns drukknuðu með ýmsum hætti hér við landið. Frá Vestmannaeyjum fórust í þessu veðri tveir bátar með allri áhöfn, samtals níu mönnum. Bátarnir sem fórust voru: Njörður VE 220. Með honum fórst öll áhöfnin, fjórir menn. Freyr VE 98 ogmeð honum fimm menn. Allt voru þetta menn í blóma lífsins þar með talinn móðurbróðir minn Guðmundur Kristjánsson, þá tvítugur að aldri á sinni annarri vertíð. Mamma var á þessum árum í vist í Vestmannaeyjum og frétti fyrir tilviljun að báturinn sem bróðir hennar var á hefði farist. Mér skilst að henni hafi aldrei verið formlega tilkynnt um slysið, hún frétti einungis að báturinn hefði farist með allri áhöfninni. Punktur.


Já, sjómennskan er ekkert grín, eins og segir í kvæði Kristjáns frá Djúpalæk við lag föður míns um Þórð sjóara, sem óskaði þess að öldurnar breyttust í vín.


Þórður sjóari er á Spotify í ýmsum útgáfum, t.d. þessari

Related Posts

See All

Komentar


bottom of page