top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Guðrún Dagný Kristjánsdóttir

Updated: Nov 12

Minningargrein um móður mína sem birt var 2015

Fædd: 28. september 1925

Dáin: 12. nóvember 2015


Í dag eru 9 ár síðan að mamma dó. Sama ár var ég að halda upp á 50 ára afmælið mitt og gaf út diskinn Stjörnubjart. Ég tileinkaði mömmu diskinn.

Útgáfan á Stjörnubjart er tileinkuð móður minni, Guðrúnu Dagnýju Kristjánsdóttur, sem hefur stutt mig með tilvist sinni og nærveru í gegnum tíðina.

Mamma lifði sinu lífi fyrir aðra. Yngri kynslóðin átti alltaf alveg sérstakan stað í hennar hjarta og hún var alltaf boðin og búin til að aðstoða, elda, baka, prjóna og sauma til að létta undir með öðrum.


Lífið fór samt ekki mjúkum höndum um mömmu og hún missti mikið. Þegar hún er 18 ára gömul, eru hún og Hjalti bróðir hennar þau einu sem eru eftirlifandi úr fjölskyldunni, auk Gróu stjúpmóður hennar. Mamma mætti þessum missi með því að koma sér upp ákveðinni brynju eða skráp, sem erfitt var að komast inn fyrir. Þrátt fyrir það skynjaði maður alltaf væntumþykju og viljann til að taka á sig allar byrðar, áhyggjur og sorgir sem þjökuðu fólkið í kringum hana. Hún virtist geta tekið endalaust við og þörfin fyrir að líkna og lina þjáningar annarra var svo einlæg.



Hún var heimavinnandi og gegndi hlutverki dagmömmu fyrir barnabörn systkina minna, þannig að það má segja að ég hafi alist upp í stórum systkinahóp, þó svo að ég væri algert örverpi.


Þegar sonur minn Mikael fæddist fannst henni verst að geta ekki orðið mér að liði og passað hann fyrir mig eins og hún hafði gert fyrir hin barnabörnin. Þá var hún að verða áttræð og hafði ekki heilsu til að eltast við uppátækjasaman dreng. Það var sterkur strengur á milli þeirra. Mamma vildi reyndar að hann yrði skírður Bjartur sem kannski lýsir því best hvernig hún hugsaði til hans.


Hún var mjög góð prjónakona, ein af stofnendum Handprjónasambands Íslands, stofnfélagi nr. 90, ef ég man rétt. Hún var svo vandvirk og fékk alltaf hrós fyrir fallegt hekl í opnar peysur og góðan frágang. Hún kenndi mér að prjóna og að vanda mig við prjónaskapinn og dró mig svo að landi þegar þolinmæðina þraut.



Það var ekki fyrr en pabbi dó árið 1986 að mamma fór út á vinnumarkaðinn, þá var hún 61 árs gömul og fékk vinnu við ræstingar á barnadeild 20 á Kópavogshæli. Henni líkaði vel að vinna þar, skúringarnar gátu reyndað tekið á, en hún naut þess að vera allt í kring um börnin og það voru margar sögurnar sem hún kom með heim í Álftröðina af deildinni. Umönnunarstörf áttu vel við hana og hún sagði mér einhverntímann að hún hefði líklega farið í hjúkrun, ef það hefði verið hægt á þeim tíma.


Mér finnst eiginlega ótrúlegt að hún hafi verið mamma mín. Það var svo stórt kynslóðabil á milli okkar, nokkrir hugarheimar og ólíkur þankagangur. Tímarnir sem hún lifði og áföllin sem hún gekk í gegnum voru eitthvað svo fjarlæg og forn. Hún var eiginlega allt í senn, mamma mín og allar ömmurnar og afarnir sem ég kynntist aldrei.


Það var svo fallega gert af þér mamma að leyfa okkur Mikael að vera hjá þér þegar þú kvaddir við tóna úr laginu hans pabba, Stjörnubjart. Augnablikið var nánast áþreifanlegt þegar pabbi kom og sótti þig undir þessum fallegu tónum og orðum. Það er gott af vita af ykkur, loksins sameinuð, eftir tæplega 30 ára aðskilnað. Ég get alveg unnað ykkur þess, en mikið væri nú gott að fá að kíkja í heimsókn við og við og fá hlýtt faðmlag og ástríkt augnaráð. Við Mikael erkiengill örkum áfram æviveginn, þakklát fyrir lífið og veganestið.


Hittumst heil.

Þín dóttir,

Ágústa Sigrún Ágústsdóttir


68 views0 comments

Related Posts

See All

Comments


bottom of page