top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Æskuheimilið

Updated: Nov 13, 2023

Æskuheimilið mitt á Álftröð 3 er farið í eyði. Þar bjó ég frá fæðingu vel fram yfir þrítugsaldurinn. Ég fór í kveðjuför í gær því nú á að rífa öll húsin við Álftröðina og Skólatröðina og byggja upp á nýtt á svokölluðum Traðarreit eystri. Aldrei að vita nema maður flytji á Álftröð 3 einhverntíman aftur.


Á reitnum eru nú átta hús og tólf íbúðir, í deiliskipulagi er gert ráð fyrir allt að 180 íbúðum á reitnum í tveimur byggingum sem verða þrjár til fimm hæðir. Framkvæmdum á að vera að fullu lokið um mitt ár 2025.




Minningarbrot frá Hörpu systur minni

Húsin við Álftröðina voru á meðal fyrstu íbúðarhúsanna í Kópavogi sem raðað var niður við götur eftir ákveðnu skipulagi með réttum hæðarpunktum þannig að húsin stæðu jafnhátt við götuna. Ég heyrði pabba oft tala um vankunnáttu þeirra sem áttu að sjá um þessi mál og oft þurfti að endurmæla þangað til að rétt útkoma fékkst. Menn lögðu saman kunnáttu sína í hverfinu. Þegar farið var að bera í götuna fyrir framan húsið var hún ansi há miðað við grunnflöt hússins þannig að fyrsta hæðin varð nánast eins og kjallari. Það tókst að fá vegagerðarmenn til þess að endurskoða málið og “skafa” ofan af götunni þannig að hún yrði í nokkur veginn réttri hæð. Það fór samt svo að allar lóðirnar við götuna eru stallaðar að einhverju leiti.


Húsið heima átti í fyrstu bara að vera ein hæð með lágu risi og ef til vill kvistum. Pabbi teiknaði og smíðaði en Þórarinn Ólafsson skrifaði uppá teikningarnar eins og oft var gert í þá daga. Þegar byggingin var farin af stað þá langaði ömmu og Marinó frænda að breyta til og vildu flytjast í Kópavoginn. Þá var ákveðið að byggja efri hæð og þá var bara teiknað og smíðað í beinu framhaldi af neðri hæðinni. Bygginarefnið var timbur, hlaðnir gaflar og gosull var notuð sem einangrun. Ég man vel eftir hversu timburlyktin var góð og hvað var gaman að leika sér í holu hleðslusteinunum og grindunum sem mynduðu milliveggina. Það var erfitt að ná í byggingarefni á þessum tímum. Sumir notuðu jafnvel pappír til að einangra.


Pabba og Ragnari á Álftröð 5 tókst að fá í gegn að grafin yrði skurður á lóðarmörkum milli Skólatraðar og Álftraðar og þar yrðu lögð rör fyrir skólp og trúlega vatn líka, annars tíðkuðust rotþrær við nærliggjandi hús. Þessir framtakssömu menn komust með þessu móti í lögn sem lögð var fyrir barnaskólann við Digranesveg rétt hjá okkur og þótti þetta mikill lúxus.


Fyrsta árið var búið í þvottahúsinu og einu herbergi, vatnslaust og kamar úti. Vatninu var velt í tunnum frá þeim húsum sem höfðu vatn. Á árinu var neðri hæðin komið í viðunandi stand og þá gátu amma og frændi flutt í hvort sitt herbergi, stofan var sameiginleg og eldhúsið líka síðan var haldið áfram að standsetja efri hæðina og þangað fluttu síðan amma og frændi. Þetta tók svona eitt ár og samvinnan var mikil. Á árinu sem allir bjuggu saman niðri fæddist Ómar bróðir árið 1952 og sjálfsagt komið sér vel að hafa ömmu heima við, þau jólin. Pabbi og mamma leigðu síðan út frá sér nokkrum sinnum til að drýgja tekjurnar eftir að amma og frændi fluttust upp.


Mig grunar að pabbi hafi unnið þetta mest ásamt Þórarni smið sem var afskaplega ósérhlífinn maður. Svona var samhjálpin við þetta og allir undu glaðir við sitt


Húsakönnun í tengslum við endurskipulagning traðarreits austur


Bílskúr og minni viðbyggingu er bætt við húsið 1972 samkvæmt teikningum og anddyri stækkað sömuleiðis. Hliðarhurð við anddyri hefur verið skipt út fyrir glugga. Húsið hefur líklegast verið hlaðið og pússað en hefur seinna verið klætt að utan með lóðréttum timburpanelum.Þak virðist með upprunalegri bárujárnsklæðningu. Húsið er í frekar lélegu ásigkomulagi og lokað hefur verið fyrir glugga í risi.

Þetta er opinberi textinn sem er nú ekki alltaf réttur. Önundur Jónsson f.v. mágur og nágranni á Álftröðinni leiðrétti þessa söguskýringu og sendi mér þennan texta:


Þegar ég flyt í Álftröðina 1963 var pabbi þinn búinn að byggja bílskúrinn. Þessi mynd hér er tekin á heimkeyrslunni í Álftröð 3, 1969. Þá vorum við mamma þín og Harpa löngu byrjuð að "spóla upp nælon" fyrir heildverslun Marinós. Langaði bara að leiðrétta þetta, þar sem ég man vel eftir þessu. Svo var eitt annað að ég man að pabbi þinn innréttaði herbergi í einu horninu á skúrnum og það var kartöflugeymsla. Það gerði hann 1965. Geymslan var vel einangruð og það dugði að hafa eina 15 kerta peru þar til að halda henni frostlausri. Gaman að þessari sögu þinni.



Hafnir og Hvammur

Æskuheimili beggja foreldra minna eru líka farin í eyði.


Mamma ólst upp við Fáskrúðsfjörð á bænum Stekk í Hvammi. Hún bjó þar reyndar ekki lengi en fór mjög ung til Vestmanneyja í vist og þar kynntust þau pabbi. Það eru ekki margar myndir til af húsinu uppistandandi. Þyrfti að grúska aðeins meira, kannski trekkja í pistil. Við mamma fórum hringinn um 1990 og þá var það helst skorsteinninn sem var heillegur. Náði þarna mynd af mér í Don Cano galla með Skrúð í baksýn. Geri aðrir betur.


Hvammur


Hafnir

Föðuramma mín og afi byggðu sér bú að Höfnum við Finnafjörð sem stendur við Bakkaflóa. Fjölskyldan fluttist þaðan nokkrum árum eftir að afi dó. Amma Sigríður flutti svo í Kópavoginn, á efri hæðina á Álftröð 3 og bjó þar með Marinó, föðurbróður mínum, þar til hún flutti á Grund. Pistill væntanlegur.




Related Posts

See All
bottom of page