top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Þúfutittlingsheilkenni

Updated: Jan 24, 2022

Það stendur mikið til. Flutningar á næsta leiti. Vinkona mín segir að ég sé haldin þúfutittlingsheilkenni. Er á leiðinni heim til æskustöðvanna í póstnúmer 200, á götu sem kennd er við álfa. Jaja Ding Dong.

Undanfarin ár hef ég unnið markvisst að því að minnka dótið í kringum mig. Musteri minninganna er víst í geymslunni. Hef löngum haft það orð á mér að vera safnari, en hef tapað þeim titli til annarra fjölskyldumeðlima. Nú er næsti rúntur í tiltekt hafinn en þetta er vandasamt verk. Það er verið að flysja minningarnar og flokka þær sem getur verið áskorun. Það var því kærkomið verkfærið sem ég fékk upp í hendurnar.


Verkfærið var sem sagt námskeið sem ég sæki um þessar mundir sem markþjálfi og heitir Personal Foundation. Það er eru gerðar kröfur til mín að viðhalda áunnum réttindum og til að færast á næsta stig í vottun. Við höfum verið að vinna með módel sem heitir Integrity, needs and wants (heilindi, þarfir og langanir). Það er eignað manni að nafni Thomas Leonard sem var einn af þeim stóru í árdaga markþjálfunar og stofnaði m.a. ICF sem eru eru stærstu alþjóðasamtök markþjálfa í dag.


Thomas átti kollgátuna. Hann segir sem sagt, að við þurfum að stilla áttavitann okkar í eftir heilindum okkar (integrity) og gildismati. Segir sig sjálft. Næsta skref er að greina og uppfylla tilfinningalegar þarfir (needs) varanlega. Þörf vinna og rökrétt framhald. Hann segir að þetta sé einfaldlega hæfni sem þarf að þjálfa. Þegar búið er að pússa þetta til, þá verða langanirnar (wants) ekki eins krefjandi, ágengar eða tímafrekar. Þá hvílum við rólegri í heilindum okkar og erum óhrædd við að taka ákvarðanir í samræmi við það. Langanirnar eru sem sagt eldspýtan sem slokknar á og kallar strax á þá næstu. Skammgóður vermir.


Að skoða boðskapinn sem þetta módel birtir kom á hárréttum tíma fyrir mig og er að hjálpa mér við flutning í minni íbúð. Innihald kassanna fær upprifjun og einlægt mat um hvort það sem þeir geyma verði áfram lífsförunautar. Ég svara spurningunni heilshugar og af heilindum og þá fylgir mér ekki lengur gerviþarfadót, nema kannski frímerkjasafnið.... já ég veit... en það er ástæða fyrir því.


Litla stúlkan með eldspýturnar ætlar hinsvegar ekki að flytja með á þúfuna mína.

149 views0 comments

Related Posts

See All
bottom of page