top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Loftbelgur

Updated: Jan 24, 2022

Nú er ferðaþráin komin á næsta stig hjá mér eða er það einhver önnur þörf sem kraumar? Ég bíð eftir að takast á loft... eða lenda.


Loftbelgur er mál málanna þessa dagana. Fæ einhverja ólýsanlega léttleikatilfinningu þegar ég hugsa um loftbelgi. Á sama tíma og það að hoppa út úr flugvél í fallhlíf færist alltaf ofar á skjóðuskrána mína.


Ég var í Zagreb fyrir tveimur árum þegar ég las um loftbelgjahátíð sem haldin er þar á hverju ári. Því miður hittist þannig á að ég var nýfarin eða rétt ókomin þegar hátíðin var haldin það árið, en ég strengdi þess heit að fljúga í loftbelg áður en langt um liði.


Það er mikil rómantík sem fylgir þessari athöfn sem mér finnst bæði fallegt og fyndið á sama tíma. Það er alltaf þriðja hjólið með í för, aðilinn sem heldur belgnum á lofti og kyndir undir. Það er því alltaf einhver að fylgjast með kossunum og kjassinu ef andinn kemur yfir parið sem ákveður að innsigla ástina um borð í loftbelg. Sé fyrir mér vandræðagang við að ná góðri mynd. Kjánaprikið þarf að vera með í för til að þess að kyndarinn komi ekki upp á milli. Sé líka fyrir mér hvernig kyndarinn er beðinn um að smella af einn mynd og hallar sér aftur og...


Annars átti ég spjall við Zeppelin ökumann um daginn. Ég stóðst ekki mátið þegar ég sá þennan starfstitil á LinkedIn og sendi honum vinarbeiðni. Hann útskýrði að hann væri í raun og verð Airbus flugmaður en kynni vel við að skilgreina sig svona. Var ekki komin svo langt að spyrja hann um hjúskaparstöðu...


Svo hef ég notað loftbelginn í markþjálfunarsamtölum, því myndmálið er svo mikilvægt í slíkum samtölum. Hvað er betra en að finna hvernig orkan og hitinn ýtir manni upp á við og benslin sem halda manni við jörðina eru leyst hvert af öðru. Tilfinningin að vera bundinn en taka svo flugið, fá yfirsýnina, njóta stundarinnar og anda er óviðjafnanleg.

Og það sem kemur okkur upp er eldurinn og heitt loft. Það þarf ekki að vera flókið að sleppa tökunum. Traust er allt sem þarf í bland við smá tækni.


Þá er bara að ákveða á hvoru ég byrja. Önnur athöfnin tekur mig upp en hin sendir mig niður. Er ekki best að byrja á að fara upp áður en maður fer niður.


Eða eins og Tyrone vinur minn sagði um árið What goes up must come down.

47 views0 comments

Related Posts

See All

Comments


bottom of page