top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Djöflabrúin

Updated: Aug 28, 2022

Brátt liggur leiðin aftur til Ítalíu og djöfullinn sjálfur kemur að sjálfsögðu við sögu


Leiðin liggur til norðurhluta Toskanahérðs þar sem er að finna 25 bæi sem liggja við ármót Serchio og Lima í dalsmynni Garfagnana dalsins. Jafnan er talað um alla þessi bæi undir einu og sama nafninu, Bagni di Lucca. Þetta svæði sem liggur allt upp til Castelnuovo sem margir segja að sé síðasta gamla sveitin í Toskana, jafnvel á Ítalíu.


Í einum þessara bæja, sem hefur nafnið Borgo a Mozzano stendur þessi stórskrýtna brú sem heitir með raun og réttu Magdalenubrú (Ponte della Maddalena) en gengur alltaf undir nafninu Djöflabrúin.


Brúin var líklega upphaflega byggð á 11.öld fyrir tilstilli Matilde di Canossa sem var valdamikil greifynja á þessum tíma. Kannski vildi hún komast þurrum fótum í böðin sem voru hinum megin Serchio árinnar en líklegar er að brúin hafi verið byggð til að tengja þjóðleiðina frá Kantaraborg í Bretlandi til Rómar fyrir pílagríma sem allir áttu erindi við páfann í Róm.


Um 1500 fékk hún "kristilega" nafnið sitt vegna styttu af Maríu Magdalenu sem stóð skammt frá á austurbakkanum.


Þetta mannvirki hefur spilað stóra rullu í sögu bæjanna þar allt um kring og ýmsar sögur hafa orðið til í tengslum við brúna. Gælunafnið sem brúin hefur fengið tengist einmitt einni slíkri sögu.


Sagan segir, eins og auðvitað er, að bygging brúarinnar hafi verið allt annað ein auðveld.

Brúarsmiðurinn sem hafði það verkefni að ljúka við byggingu hennar áttaði sig á því að hann myndi aldrei ljúka byggingunni innan þess tíma sem umsaminn var.


Hann settist því við árbakka árinnar Serchio, miður sín yfir stöðunni. Þá dúkkar upp sjálfur djöfullinn rétt hjá honum og býður fram aðstoð sína gegn ákveðnu samkomulagi. Djöfullinn bauð brúarsmiðnum að ljúka við byggingu brúarinnar á einni nóttu gegn því að hann fengi að launum sál þeirrar persónu sem gengi fyrst yfir brúna.


Í öngum sínum gengur brúarsmiðurinn að þessu samkomulagi. Djöfullinn stóð við sinn hluta samningins og brúin var fullbúin morguninn eftir. Í enn meiri öngum leitarbrúarsmiðurinn ráða hjá þorpsprestinum. Presturinn ráðleggur honum að virða samninginn en láta svín ganga fyrst yfir brúna.

Áætlunin tókst og reitti djöfulinn svo mikið til reiði að hann henti sér fram af brúnni og hefur ekki sést þar síðan!


Þetta er kunnuglegt stef og eflaust til svipaðar sögur um sálnaviðskipti í öllum þjóðsögum. Kirkjusmiðurinn á Reyni er ein slík, þó svo að lausnin hafi verið önnur. Sæmundur fróði og Gilitrutt koma líka upp í hugann.


Alltént, er þessi brú mikil meistarasmíð, hver svo sem byggði hana. Mjög sérstök hönnun sem styður "tilgátur" um að yfirnáttúruleg öfl hafi komið þar við sögu.


En það er ásýndin sem er líklega eftirminnilegust og kannski örlítil vinstri slagsíða. Árið 1836 skemmdist hún illa í flóði og fékk nauðsynlegar viðgerðir í kjölfarið. Eins og brýr víða um álfuna, var brúin "tekin niður" í seinni heimstyrjöldinni og endurbyggð eftir stríð.



Related Posts

See All
bottom of page