top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Via Francigena - Suðurgangan

Updated: May 18, 2023

Via Francigena á Ítalíu er mikilvæg forn slóð sem á miðöldum tengdi löndin norðan Alpafjalla við Róm. Þessi pílagrímaleið liggur frá Kantaraborg, yfir sundið til Frakklands og í gegnum Sviss, áður en komið er yfir til Ítalíu. Pílagrímarnir hófu ferð sína hér og hvar í álfunni og liðuðust eftir æðakerfi vega sen leiddi þá eins og í gegnum trekt niður eftir Ítalíuskaganum, með viðkomu í Róm. Þar var þeirra aðaláfangastaður og syndaaflausn að fá skv. kaþólsku kirkjunni en sumir héldu áfram til Jerúsalem og lögðu á hafið frá Santa Maria di Leuca. Jakobsvegurinn var önnur pílagrímaleið kristinna manna á miðöldum með Santiago di Compostela sem áfangastað.

Leið Sigríks frá Kantaraborg til Rómar
Leið Sigríks frá Kantaraborg til Rómar

Vegirnir sem pílagrímarnir fóru um voru sannanlega ekki lagðir sérstaklega í þessum tilgangi. Leiðirnar lágu yfir fjallaskörð, ár og dali, þar sem forverar og forfeður höfðu fundið sér leið í gegnum hindranir í álfunni. Rómverjar koma þar auðvitað við sögu, enda náði Rómarveldi þegar mest var yfir stærstan hluta Evrópu og þó víðar væri leitað, með tilheyrandi ferðalögum endanna á milli.


Langbarðar sem komu norðar úr álfunni, réðu á 7. öld yfir mestöllum Ítalíuskaganum og settu um leið svip sinn á samgönguleiðir þess tíma. Arfleið Langbarða sést best á því að enn í dag er stærsta hérað Norður-Ítalíu kallað Lombardia.


Frankar með Karlamagnús sem þekktasta konung Karlunga komu svo Langbörðum frá völdum. Frankar/Karlungar höfðu tekið kristni og taldi Karlamagnús að konungsríki Langbarða á Ítalíu væri ógn við hagsmuni Franka á Ítalíu og við öryggi páfans í Róm. Árið 773 leiddi hann her sinn yfir Alpana og hertók höfuðborg Langbarða, Paviu.


En hvers vegna heitir hún Via Francigena?


Eins og oft er það ekki alveg vitað eða fleiri en ein tilgáta við lýði. Flestar heimildir aðhyllast að nafnið tengist áðurnefndum Frönkum (Franchi) sem voru við völd á stórum hluta Ítalíuskagans og öttu stríð við Býsansveldið. Í sumum heimildum er þessi leið þá kölluð Romea eða Francesca og virðist því tilviljun ráði því að hvaða nafn varð ofan á.

Æðakerfi Francigena pílagreímaleiðarinnar
Æðakerfi Francigena pílagreímaleiðarinnar

Nikulás Bergsson, ábóti á Munkaþverá gekk þessa leið um miðja 12. öld, (1154) og hélt svo áfram til Jerúsalem. Nikulás skrifaði ítarlega ferðasögu um þessa för sína á latínu og er handritið til í Kaupmannahöfn og hefur verið þýtt, heitir Landaleiðarvísir og borgarskipan. Er það stundum sagt fyrsta landafræðiritið sem skrifað hefur verið af Íslendingi.


Margir þekktir Íslendingar gengu suður, m.a. Guðríður Þorbjarnardóttir. Í Njálu er sagt að Flosi Þórðarson hafi farið í suðurgöngu eftir Njálsbrennu og Kári Sölmundarson einnig. Í gestabók klaustursins í Reichenau, þar sem skráð eru nöfn allra pílagríma sem þar komu við á 9., 10. og 11. öld, er að finna 39 nöfn karla og kvenna sem sögð eru vera frá Hislant terra (Íslandi).


Hér er skemmtileg ferðasaga Í fótspor syndaselanna. Félagsskapur sem kallar sig Pálnatókavinir fóru í einskonar suðurgöngu áríð 1996.


Í dag er jafnan vísað til leið Sigríks erkibiskups frá Kantaraborg í gegnum álfuna til Rómar. Sigríkur ferðaðist í gegnum Frakkland og 60 árum seinna hóf Nikulás leið sína frá Danmörku í gegnum Þýskaland en þeir virðast báðir hafa farið í gegnum St. Bernharðsskarðið. Eftir það lá leiðin eftir sömu landamerkjum alla leið til Rómar, þótt þeir hafi áð á ólíkum stöðum.


Lucca

Volto Santo
Volto Santo

Ferðasaga Nikulásar þykir sérstaklega markverð þegar hann er kominn í námunda við Lucca í Norður-Toskana. Þar takmarkaði hann sig ekki við að lýsa áningarstaðnum eins og aðrir gerðu, heldur skemmtir hann sér við að lýsa stöðunum með þeim hætti að það veitir mikilvægar upplýsingar um sögulega stöðu Lucca á 12. öld í samhengi við trúarsögu og staði þess tíma. Þar ber helst að nefna upplýsingar hans um Volto Santo (heilaga andlit)” sem er stór útskorinn trékross. Krossinn á að hafa komist með yfirnáttúrulegum hætti frá landinu helga til Lucca og frásagnir eru til af kraftaverkum sem eiga að hafa átt sér stað í tengslum við hann. Tilvist krossins árið 1154 í Lucca og kraftaverkasögurnar staðfestir Nikulás í sínum skrifum ásamt fleiru.


Hluti leiðarinnir á þessum slóðum hefur fengið nafnið Via del Volto Santo til heiðurs krossinum fræga sem nú er hýstur í Dómkirkjunni San Martino kirkjunni í Lucca. Sú leið er 199 km kafli sem liggur í gegnum fjöllin og er ein af aðreinunum inn í hina skilgreindu pílagrímaleið Via Francigena.


Leiðin gaf mörgum fornum borgum, eins og Lucca og Siena, aukið vægi og stjórnaði því hvernig byggðirnar þróuðust. Leið pílagrímanna bjargaði því mörgum brothættum byggðum. Bæir eins og San Miniato, San Gimignano, Colle Valdelsa og Pescia blómstruðu og fengu nýtt hlutverk og vægi meðfram þessum nýja þjóðvegi.


2078 km – 98 dagar


Öll leiðin er um 2000 km (2078) ef upphafspunkturinn er Kantaraborg á Englandi og tekur rúma 3 mánuði í göngu, nánar tiltekið 99 nætur (98 göngudaga) ef gengnir eru 14-30km á dag.

Þessi leið gleymdist eiginlega að mestu leyti allt þar til ársins 1985, þó að kaflar hennar væru í notkun sem staðbundnir vegir og göngustígar. Það ár var maður að nafni Giovanni Caselli að leita að nýju efni til að skrifa ferðabækur um. Hann ákvaða að ganga Via Francigena eftir að hafa kynnt sér leið Sigríks erkibiskpus. Það má segja að hann hafi kortlagt leiðina upp á nýtt. Þar sem vantaði búta inn í, leitaði hann í þekkingarbrunn heimamanna um fornar leiðir og náði að fylla upp í eyðurnar sem vantaði í heildarmyndina. Eftir að bókin hans kom út árið 1990 byrjaði leiðin að vekja athygli og árið 1994 varð Via Francigena ein af tilnefndum menningarleiðum Evrópuráðsins.


Árið 2001 voru stofnuð samtök til að stuðla að kynningu á þessari leið og þjónustu við ferðalanga. Haldi var upp á 20 ára afmæli samtakanna árið 2021 og leiðin gengin og gerð stutt heimildarmynd sem þið getið skoðað HÉR.
Related Posts

See All

Comments


bottom of page