Í dag er merkisdagur fyrir mína starfsgrein, Mannauðsdagurinn 20. maí. Ég fór að velta því fyrir mér hvernig ég leiddist út í því að fara að sinna mannauðsmálum, sem einu sinni voru kölluð starfsmannamál. Það var ekki fyrsta val eftir útskrift úr MK 1985 að fara að læra mannauðsstjórnun og ég efast um að hún hafi verið kennd á Íslandi. Hugtakið mannauður var ekki vel þekkt á þeim í tíma og í íslenskum orðabókum þá var orðið skilgreint sem „yfirgefið svæði.”
Ég tók strikið beint úr landi eftir útskrift og skráði mig í tungumálaskóla í Suður-Þýskalandi, Villa Sonnenhof. Svo réð ég mig sem Au-pair hjá ungum hjónum, fam. Geldner í Buchholz og passaði tvö börn þeirra, þreif, straujaði og stoppaði í göt á fötum. Ég hélt þá vist ekki út til enda og ákvað að skrá mig nám í þýsku fyrir útlendinga við háskólann í Freiburg, en bætti svo við ítölsku og tónlistarfræðum svona til að hafa örugglega nóg að gera.
Ég tók í raun aldrei ákvörðun um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór en þegar ég rifja þetta upp sé ég að þetta val hefur fylgt mér æ síðan. Mér finnst gaman að læra tungumál, er með útþrá á háu stigi og tónlistin hefur elt mig á röndum.
Ég hef líka verið svo lánsöm að leggja stund á nám í því sem mér finnst skemmtilegt og unnið við það líka. Ég er útskrifuð söngkona og söngkennari og hef unnið við það meðfram öðru alla tíð. Ég lauk námi í Leiðsöguskólanum og hef skottast með ítölsku- og enskumælandi ferðamenn um landið og verið farastjóri á erlendri grundu.
Ég var svo heppin að kynnast flugbransanum þegar ég var að lenda á Íslandi eftir viðburðaríkt sumar í Króatíu sem fararstjóri. Var ráðin til vinnu hjá JetX sem síðar varð Primera Air og fékk það krefjandi verkefni að stofna mannauðsdeild og sinna starfi mannauðsstjóra frá 2007. Þá var líka kominn tími til að bæta við sig menntun til að geta staðið undir þeirri ábyrgð.
Síðan þá hef ég bætt við mig diploma í mannauðsstjórnun frá EHÍ, meistaraprófi í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá HR og svo fékk ég nám í markþjálfun í kaupbæti. Verkefnin sem tengjast mannauðsstjórnun hafa verið mjög fjölbreytt frá upphafi. Nýverið bætt ég svo við mig sáttamiðlun sem er aðferðafræði sem nýtist vel þegar þarf utanaðkomandi aðstoð við úrlausn ágreinings á vinnustöðum.
Undanfarnir mánuðir hafa verið... spes... og verkefnin sem tengjast mannauðsmálum hafa helst snúið að því að lækka starfshlutfall, segja upp og hlú að fólki. Það eru sem sagt alltaf nýjar áskoranir hjá mannauðsfólki og við erum í sífelldri endurnýjun til að mæta þörfum og verða við kröfum sem gerðar eru til okkar.
Það var áhugavert að lesa grein í morgun eftir formann félags mannauðsfólks á Íslandi, Ásdísi Eir Símonardóttur um að 86% svarenda telur kórónufaraldur gera vinnustaði sterkari. Það eru góð skilaboð inn í það sem framundan er og vísbending um að mannauðsfólk mæti reynslunni ríkari með nýjar lausnir og fleiri verkfæri í verkfæratöskunni eftir kófið.
Heima er best í kófi, en nú mætum við til leiks!
ความคิดเห็น