top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Gestastjarnan

Updated: Nov 13, 2023

Að ferðast innannhúss hefur í för með sér tiltekt af ýmsu tagi. Heimasíðan mín hefur fengið andlitslyftingu, jafnvel skurðaðgerð. Ýmsar skúffur hafa verið opnaðar og í einni þeirra fann ég gamla gersemi. Nostalgían gerði vart við sig og minningarnar ruddust fram.

Ég var tvítug þegar pabbi minn, Ágúst Pétursson, féll frá en á næsta ári verða 100 ár frá því hann fæddist. Við áttum tónlistina sameiginlega og þar þurfti hann að halda mér við efnið. Það var oft stutt í uppgjöf ef æfingar á klarínett eða píanó gengu brösuglega. Já, ég var örverpi og skellibjalla. Óþolinmóð, skapstór og kröfuhörð. Alger andstaða við pabba sem var rólyndismaður, þolinmóður og hafði úthald í að smíða og semja af mikilli list.


Pabbi var tónlistarmaður og einkar laghentur og hugmyndaríkur húsgagnasmiður. Gestastjarnan var gestaþraut sem hann smíðaði og fjöldaframleiddi eftir fyrirmynd sem við fundum í Minjasafninu á Akureyri eitt sumarið.


Þarna var verkefni sem hentaði okkur báðum. Hugvitið og úthaldið við að framleiða og fínpússa hafði pabbi. Hann teiknaði líka mynd í þrívídd sem fylgdi með, til þess að hafa fyrirmynd að lausninni. Svo þurfti að pakka stjörnunni, brjóta saman öskjur, stimpla á límmiða og selja. Þar kom ég sterk inn. Ég hafði mikinn metnað fyrir því að koma þessari framleiðslu pabba á framfæri og seldi eins og vindurinn. Ég fann mig í þessu hlutverki og gekk hús úr húsi og kynna þessa vöru sem ég var mjög stolt af.


Þarna fengu mínir styrkleikar að njóta sín og ég hafði bæði þolinmæði og úthald í verkefnið. Umgjörðin hentaði mér, tilgangurinn var skýr og umbunin var í samræmi við árangurinn. Þetta var gott samstarf. Ég fékk svo stuðning og hvatningu sem gerði gæfumuninn. Núna veit ég get sótt nóg af þolinmæði og sýnt úthald þegar á þarf að halda, en ekki alltaf... alls ekki alltaf... eiginlega bara stundum! Það vita þeir sem þekkja mig best. Það er mín ábyrgð að búa til þá umgjörð sem ég þarf, velja og hafna.


Ég er viss um að margir nágrannar okkar á Álftröðinni frá því á síðustu öld eigi svona gestaþraut ofan í skúffu. Gætuð þið athugað hvort þið eigið ennþá myndina sem fylgdi gestastjörnunni og sent mér, því frummyndin er týnd?


Takk pabbi. Ég elska þig. Hittumst heil.



Related Posts

See All
bottom of page