top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

San Zeno og lukkuhjólið

San Zeno (eða Zenone) er verndardýrlingur Verona-borgar, líklega fæddur í Máretaníu, núverandi Marokkó. Hann var áttundi kristni biskup í Verona, gegndi því hlutverki frá 362 til dauða árið 380 og er eignaður heiðurinn á að hafa kristnað íbúa Verona.


Á valdatíma rómverska keisarans Valentinianus I, varð Zeno píslarvottur fyrir kristna trú sína. Nákvæmar upplýsingar um afdrif hans eru óljósar en talið er að hann hafi verið hálshöggvinn. Eftir fráfallið óx söfnuður hans og byggð var Basilíka honum til heiðurs í Verona sem e.t.v. er merkust rómanskra bygginga N-Ítalíu. Líkamsleifar San Zeno hvíla í glerkistu undir altarinu.


Lukkuhjólið á San Zeno kirkjunni í Verona
Lukkuhjólið á San Zeno kirkjunni í Verona

Sögur herma að á stað Basilikunnar hafi áður staðið kirkja frá 6 .öld sem reist var af Austur-Gotum. Núverandi kirkja skemmdist í jarðskjálfta 1117 eins og stór hluti Verona borgar, þannig að kirkjan sem við sjáum í dag var endurbyggð á 12. öld. Stíllinn er rómanskur en eftir jarðskjálftann fékk hún auk þess gotneskt yfirbragð með tilkomu hvelfingarinnar og rósettunnar sem oft einkennir gotneskar kirkjur. Glugginn fyrir ofan aðaldyrnar gengur undir nafni „lukkuhjólið“, la ruota della fortuna.


Merkustu listaverk kirkjunnar er „biblía fátæka mannsins“, útihurð með 48 myndskreyttum bronsplötum sem og altaristaflan eftir Mantegna 1456-59. Til vinsri þegar komið er inn um aðaldyr kirkjunnar er marmarabrunnur frá rómverskum tíma sem fannst við uppgröft á Piazza Erbe. Klukkuturninn var byggður á árunum 1045-1178 og varðturninn á 14. öld. fyrir þáverandi Benidiktinaklaustur. Inni í kirkjunni er einstök tréhvelfing frá 14. öld og freskur frá 12. - 14. öld skreyta hliðarskipin. Fleira markvert er þar að finna og í þessum pistli er það vel listað og myndskreytt. Í þessu myndbandi er einnig hægt að litast um inni í kirkjunni.



Verónabúar halda mikið upp á San Zeno Basilikuna, jafnvel meira en sína eigin Dómkirkju. Vinsældir og frægð kirkjunnar byggjast fyrst og fremst á arkitektúrnum en að hluta til á sögusögnum um grafhvelfinguna þar sem Rómeó og Júlía eiga að hafa gefist hvort öðru.


Dýrlingadagur hans er haldinn hátíðlegur 12. apríl en biskupsdæmið í Verona heldur upp á hann 21. maí, á þeim degi sem líkamsleifar hans voru færðar úr Dómkirkjunni í Basilikuna sem byggð var honum til heiðurs og vígð 21. maí, árið 807. Hann veiddi sér oft til matar í ánni Adige sem rennur í gegnum Verona; fyrir þetta er hann talinn hinn heilagi verndari ferskvatnsveiðimanna.


Hann hafði viðurnefnið, Moro biskup, eða sá dökki en einnig „sá sem brosir/hlær”, og er oft túlkaður þannig. Eins og margir kristnir biskupar þess tíma lifði hann einskonar meinlætalífi. Þrátt fyrir það hann fróður og menningarlega ríkur, fékk góða menntun. Hann var góður prédikari og dró mikinn mannfjölda til prédikana sinna. Um 93 af prédikunum hans hafa varðveist, 30 þeirra eru fullkláraðar en hinar eru samantektir eða drög sem bera vitni um hvernig hann sinnti boðunarstarfi sínu þegar kristnin átti undir högg að sækja og boðendur hennar voru strádrepnir innan Rómarveldis.


Kraftaverk

Það eru fjölmargar kraftaverkasögur sem eignaðar eru honum. Ein þeirra snýr að veðmáli sem dýrlingurinn hefði gert við djöfulinn og hann er stundum sýndur með fótinn ofan á púka. Skírskotun í Sæmund fróða þarna. Önnur saga segir frá því hvernig San Zeno tókst að lækna andsetna dóttur sýslumannsins og ein önnur hvernig hann bjargaði barni sem dreki hafði gleypt!


Óvenjulegasta kraftaverkið er líklega þar sem heilagur Gregoríus páfi segir frá kraftaverki þar sem áin Adige (588) flæddi yfir bakka sína og setti borgin á kaf. Flóðvatnið barst til Dómkirkjunnar sem þá var helguð heilögum Zeno, en á undraverðan hátt fór vatnið ekki inn í kirkjuna, þó dyrnar væru opnar. Ekki ólíklegt að Zeno hafi eitthvað verið skyldur Eldklerkinum, hinum íslenska.


Margar San Zeno kirkjur

Önnur kirkja í Verona ber nafnið hans San Zeno in Oratorio þar sem hann á að hafa komið að biðjast fyrir. San Zeno er mjög „vinsæll“ dýrlingur og margar kirkjur helgaðar honum víðsvegar við Gardavatn. Í bænum Bardolino eru tvær slíkar. Önnur þeirra er í miklu uppáhaldi hjá mér, en það er erfitt að finna hana. Hún fellur eins og flís við rass inn í umhverfi lítils samfélags, callað Borgo, á ítölsku. Hún er í fullkominni niðurníðslu en einhver galdur að stíga inn um þessar veðruðu kirkjudyr HÉR



Related Posts

See All

Comments


bottom of page