• Ágústa Sigrún Ágústsdóttir

Augusta Verona

Updated: Mar 20

Ferðakvíði er farinn að gera vart við sig, þ.e.a.s. kvíði fyrir því að komast ekki til fyrirheitna landsins í sumar. Samhengi hlutanna er að síast inn. Ég held í vonina að komast heim til Verónu og heilsa upp á kennileitin mín. Hún Ítalía á það líka skilið að verða heimsótt í sumar. Við þurfum báðar á því að halda.


Veiran hefur skilið eftir sig sviðna jörð. Sú líking skaust upp í kollinn í vikunni þegar sonur minn var að skrifa heimildaritgerð um Rauða krossinn. Við mynni Gardavatns, nálægt stað sem heitir Solferino, hófst mikil orusta þann 24. júní 1859. Þetta var sameiningarstríð Ítala í bandalagi við Frakka miðað að því að hrekja Austurríkismenn af svæðinu. Svissneskur kaupsýslumaður, Henri Dunant, átti þar leið um í viðskiptaerindum en hörmungarnar sem blöstu við honum fengu hann til þess að gleyma erindi sínu. Hann réðist í það að stofna hjálparsveit með þorpsbúum til að hjúkra særðum mönnum, í kirkjum og skýlum hvar sem því varð við komið. Þessi upplifun hafði djúpstæð áhrif á hann og hann skrifaði minningabók með áskorun til heimsbyggðarinnar að stofna sjálfboðasveitir hjúkrunarfólks í stríði sem yrðu viðurkenndar af öllum herstjórnum. Þessi áskorun varð til þess að Rauði krossinn var stofnaður fjórum árum síðar. Henri Dunant hefur stundum verið réttnefndur Samverjinn frá Solferino.


Núna 160 árum seinna er hægt að segja að veirufaraldurinn hafi skilið eftir sig sviðna jörð. Það eina sem getur bjargað ferðaþjónustunni á Ítalíu er einhverskonar hjálparsveit ferðamanna sem koma í flugförmum til þess að vekja hana til lífsins. Lífga upp á mannlífið, borða góðan mat og halda áfram að uppgötva töfra Ítalíu.

Ég bíð í ofvæni eftir að komast heim til Verónu sem er staðsett rétt við Gardavatn. Ég tengi mjög sterkt við þá borg og full ástæða til. Á 1. öld f. Kr. varð Veróna rómversk nýlenda, kölluð Colonia Augusta Verona. Ég legg ekki meira á ykkur. Í ljósi þessarar staðreyndar hef ég komið mér upp staksteinum hér og þar í borginni sem ég hlakka til að deila með ykkur næst þegar við förum… HEIM!


Burt Veiróna!

Halló Augusta Verona!!256 views0 comments

Related Posts

See All