Pabbi eignaðist fyrstu nikkuna sína þegar hann bjó á sínum æskuslóðum, á Höfnum við Finnafjörð við Bakkaflóann.
Það var Skandia Special, hvít hnappanikka með norska laginu, með skeljamynstri.
Þetta hefur líklega verið á árunum 1934-1936. Nikkan var væntanlega ekki ný þegar pabbi eignaðist hana. Það er meira en líklegt að hún hafi komið af norskum síldveiðibát, en þeir voru fjölmargir fyrir norðan á þessum árum. Oddgeir, bróðir pabba fékk svo nikkuna þegar pabbi eignaðist nýja, en hann naut þess að spila. Það var mikið búið að gera við og hlú að nikkunni en vandamálið var að takkarnir á henni glömruðu töluvert. Hún söng því sitt síðasta í Keflavík eftir góða þjónustu innan fjölskyldunnar.
Hagström Skandia
Pabbi skipti um hljóðfæri fljótlega eftir seinna stríð eftir að hann fluttist upp á land frá Vestmannaeyjum, þar sem hann hafði unnið fyrir sér við að spila á dansleikjum á stríðsárunum. Nýja hljóðfærið var mjög vönduð sænsk Hagström Skandia hnappanikka, rauð að lit með norskum gripum. Við vitum ekki alveg hvernig kaupin fóru fram eða hvernig hann varð sér úti um nikkuna, en á þessum árum var Hljóðfæraverslunin Rín stór innflytjandi á harmonikum. Rauða Skandia nikkan var hans aðalhljóðfæri upp frá því og á hana lék pabbi á dansleikjum á árunum milli 1950 og 1980 og auk þess samdi hann öll sín bestu og þekktustu lög á hana.
Brandoni
Eftir rúmlega þrjátíu ára dyggilega þjónustu var rauða Skandia nikkan farin að sýna ellimerki og lögð voru drög að kaupum á nýju hljóðfæri. Þegar pabbi og mamma fóru í frí til Rimini eitt sinn, heimsóttu þau Brandoni harmonikuverksmiðjuna í Castelfidardo. Pabba leist vel á svarta nikku af Brandoni gerð. Góðvinur pabba og spilafélagi Högni Jónsson sá síðan um að panta gripinn frá Ítalíu og urðu fagnaðarfundir þegar þetta úrvalshljóðfæri komst í hendur pabba árið 1981. Pabbi fékk þar með nýtt hljóðfæri að tjá sig á.
Brandoni nikkan var mjög kröftug og hljómfögur. Nikkan var þung og eftir að pabbi veiktist, þá var ég stundum að skutlast með honum á æfingar hjá harmonikufélaginu og bar þá nikkuna fyrir hann.
Eftir að pabbi dó var hljóðfærið falt en í raun enginn sem gat notað nikkuna því svo fáir spila á nikku með norskt grip. Á endanum fannst kaupandi, Kópavogsbúinn, Helgi Jóhannesson.
Okkur fjölskylduna langar að endurnýja kynnin við Brandoni nikkuna þannig að ef einhver lesandi veit hvar hún er niðurkomin um þessar mundir mætti sá hinn sami koma á sambandi við okkur.
Harpa systir mín og mágur fengu að „heimsækja“ nikkuna einu sinni og hún mátaði hana eins og sést á þessari mynd sem hún skartar líka lopapeysu í stíl sem hún prjónaði sjálf.
Umskiptin frá Skandia yfir í Brandoni
Rétt um það leiti sem hljóðfæraskiptin urðu var pabbi staddur á Akureyri vegna stofnunar Sambands íslenskra harmonikuunnenda og var þá fenginn til að leika á skemmtifundi hjá Félagi harmonikuunnenda við Eyjafjörð. Þar var hann með þá rauðu og eftir að hafa lokið leik sagði hann tónleikagestum að hljóðfærið væri til sölu. Meðal tónleikagesta var Sveinn nokkur Nikulásson ættaður frá Raufarhöfn. Hann keypti nikkuna á staðnum. Nokkrum árum síðar, þegar Sveinn var fallinn frá, rakst frændi hans, Jón Hrólfsson mikill harmonikusnillingur, líka frá Raufarhöfn, á nikkuna í Tónabúðinni á Akureyri og þegar sá, sem var með honum í ferð, Jóhann Jósefsson frá Ormarslóni við Þistilfjörð, sagði honum hver hefði verið upphaflegur eigandi nikkunnar, keypti Jón hana fyrst og fremst til að bjarga henni frá glötun, enda um sögulegan grip að ræða. Það er skemmtilegt að segja frá því en Jóhann var einmitt fyrsti harmonikukennari pabba.
Það er ekki algengt að nikkur með norska gripinu komi í sölu svo hún vakti nokkra athygli. Árið 1995 skipti Jón nikkunni fyrir gítar, sem Indriði Hilmarsson á Raufarhöfn átti og þar með Indriði orðinn harmonikueigandi. Indriði hafði einmitt kynnst nikku hjá afa sínum en sú hafði verið með norskum gripum. Indriði átti hana svo í mörg ár. Seinna reyndi Harpa systir að eignast nikkuna og hafði á endanum skipti við Indriða eftir að annað hljóðfæri sem hún varð sér út um gat fyllt hennar skarð.
Skandia nikkan er því aftur orðin ein af fjölskyldunni og var tekið vel á móti henni þegar hún kom aftur heim.
En hvað er norkst grip?
Hljómborð hnappanikkunnar er af þrennu tagi. Algengustu gerðirnar eru C kerfi og B kerfi, nefnd eftir þeim nótum á hnappaborðinu og hvernig nóturnar raðast upp. C kerfið er stundun nefnt sænska kerfið, er útbreiddat og er vinsælt í Vestur-Evrópu, m.a. Frakklandi og Skandinavíu að Noregi undanskildum, þar sem B kerfið er algengast, og kallast því norska kerfið. Á Íslandi hefur píanóharmonikan verið mest áberandi. Hnapparnir hófu þó innreið sína fyrir allnokkrum árum og sjást í vaxandi mæli meðal ungs fólks og hafa margir tónlistarskólar tekið þá stefnu að kenna einungis á happanikkur með C kerfi, það sænska.
Pabbi var því á undan sinni samtíð, en líklega tilviljun ein sem réð því að fyrsta hljóðfærið hann var með norska kerfinu. Hann hélt sig við það norska alla tíð.
Einn af vinsælli tónlistarmönnum á þessum tíma var Toralf Tollefsen, harmonikuleikari. Tollefsen og frú komu til Íslands um miðjan júlí 1953 í tónlelikaferðalag. Fram til 7. september lék Tollefsen á 50 tónleikum víðsvegar um land og ávalt þurft að leika 5-10 aukalög. Toralf spilaði á hnappanikku eins og pabbi og gerði laginu hans Æskuminning góð skil og það var m.a. tekið upp undir nafninu Ungdomsminder.
En meira um Æskuminningu síðar…
Komentarze