Borgin Lecce hefur verið kölluð „Flórens suðursins“ enda svipur með þessum tveimur borgum, svona barokksvipur!
Helsta ástæða þess er arkitektúrinn, en barokkbyggingar í Lecce eru fjölmargar og hafa varðveist mjög vel.
Andrúmsloftið er líflegt og iðandi með áberandi suður-ítölsku sólkysstu yfirbragði. Eðli málsins samkvæmt eru þessar perlur ekki eins frægar og flóran í Flórens sem er ein mest heimsótta borg Ítalíu, en það eru mannvirki á hverju horni í Lecce sem bíða eftir að verða uppgötvuð og öðlast viðlíka frægð.
Þeim sem finnst Flórens vera stórborg með sína 360.000 íbúa kemur á óvart að í Lecce búa einungis um 100.000 manns sem gerir hana mjög aðgengilega og léttleikandi borg með sögutengingu við hvert fótmál. Lecce er því fullkominn staður til að njóta byggingarlistar, menningar og sögu sem aðrar stórar ítalskar borgir geta státað af, en án mannfjöldans.
Lecce skartar byggingum með einkennandi ljósan lit staðbundins steins sem á mállýskunni hér um slóðir kallast „leccisu“, Þetta er strágulur sandsteinn, fyrrum sjávarbotn úr skeljabrotum og litlum steingervingum sem lita hann, ásamt leir, kvars og steinefnum sem einkenna húsakostinn hér. Steinninn er mjög gljúpur og veðrast auðveldlega og því mikil vinna við að viðhalda byggingum með þessum stein sem molnar mjög auðveldega.
Dæmigerð gönguferð
Við erum náttúrulega stödd á hælnum á stígvélinu.
Dæmigerð gönguferð gæti byrjað við hið glæsilega inngönguhlið í borgina, Porta Napoli. Það var reist árið 1548 til heiður Karli V. habsborgarkeisara sem byggði víggirðingar til að verja borgina gegn Tyrkjum.
Þaðan liggur leiðin í hið líflega gyðingahverfi áður en haldið er í kirkjuna Basilica di Santa Croce sem tók um 200 ár að fullgera. Kirkjan sú er með með vel skreytta og flúraða framhlið a la barokk. Þar eru mörg falleg smáatriði að finna og virða fyrir sér og tekur alveg daginn að ná utan um öll mótívin. Hætta á hálsríg!
Reyndar er barkokk kirkjurnar í Lecce 48 talsins og ekki víst að endist fríið að heimsækja þær allar nema þú sért með barokk-blæti á háu stigi.
Ef þú ert á ferðinni að morgni til þá er nauðsynlegt að smakka 'pasticciotto', sem er hefðbundið vanillufyllt bakkelsi sem þú borðar með leccískum espresso bolla sem er fullkomnaður með klaka og sætri möndlumjólk.
Fleira óvænt sem bíður þín er hið fagra og iðandi torg, Piazza Sant'Oronzo sem heitir eftir verndardýrlingi borgarinnar. Þar er einmitt staðsetning rómversks hringleikahúss sem er ennþá að hluta til sýnilegt. Hringleikahúsið, sem var byggt á 2. öld e.Kr., tók 25.000 manns í sæti og fannst fyrir tilviljun árið 1905.
Þaðan gæti leiðin legið niður verslunargötu að hinu glæsilega Piazza Duomo torgi, þar sem dómkirkjan í Lecce bíður okkar. Byggð upphaflega árið 1144 með glæsilegu ytra byrði sem samsvarar sér vel við stórkostlega innviði, með 12 hliðarkapellum sem innihalda málverk eftir merka meistara. Nýr hliðarinngangur var byggður á hana í barokkstíl á 17. öld. Klukkuturninn er hinsvegar frá 17. öld, byggður í stað annars sem hrundi.
Ef þú nærð að slíta þig frá borginni, þessu augnayndi með um 100 kirkjum í mýmörgum stílum, allt frá rómönskum til rókókó stíls, þá gæti rúntur niður á rivíeruna verið önnur uppgötvun. Hvað eru mörg R í því?
Þú ert aldrei langt frá Adríahafsströndinni og sandur svo langt sem augað eygir. Ekki að undra að þessi lengja hafi verið kölluð Karíbíahaf Ítalíu.
Tveir staðir til viðbótar sem mig langar að nefna og gætu vakið áhuga þinn:
Þú ættir að leggja leið þína til Faggiano fjölskyldunnar sem rekur einka-fornminjasafn á upprunastað merkilegs fornleifafundar árið 2007. Kannski væri svo hægt að smakka á einhverjum rétti á veitingastaðnum sem þau reka við hliðina og heitir Quo Vadis.
Politeama Greco er leikhúsið í hjarta Lecce og fylgir fast á hæla hins þekkta San Carlo leikhúss í Napolí í vinsældum. Óperu-, leik-, og tónleikahús sem var útefnt þjóðargersemi árið 1979. Nöfn eins og Tito Schipa og Ennio Morricone tengjast leikhúsinu og Katia Ricciarelli var þar við stjórnvölinn um langt skeið.
Annars er Puglia hérað eitt af frjósömustu svæðum Ítalíu, Magnið sem framleytt er af ólívuolíu í dag er t.d. meira en restin af Ítalíu framleiðir til samans! Það kemur því ekki á óvart að náttúrulegur auður þessa héraðs hefur laðað að sér fjölda innrásaraðila í gegnum söguna. Hér var nýlenda Forn-Grikkja á 8. öld f.Kr., síðan komu Rómverjar, Saracenar, Normannar, Tyrkir, Spánverjar og Bourbonar, áður en Puglia varð hluti af sameinuðri Ítalíu árið 1861.
Þangað lögðu eflaust leið sína íslenskir pílagrímar á leiðinni til landsins helga. Eftir að hafa stoppað hjá páfanum í Róm, lá leiðini til Santa Maria di Leuca, alveg neðst á hælnum þaðan sem siglt var til Jerúsalem.
Nú vill svo skemmtilega til að að á dagskránni eru tvær ferðir til Lecce í haust, þann 5. október frá Keflavík og 16. nóvember 2023 frá Akureyri.
Heimildir viðsvegar af veraldarvefnum m.a. hér: https://www.apuliaproperties.com/the-lecce-stone/
Comments