Vitað er að Suður-Ítalía var á sínum tíma forngrísk nýlenda, svokölluð Magna Grecia eða það var nafnið sem Rómverjar gáfu þessu svæði. Enn þann dag í dag, á miðjum hælnum í Puglia er samfélag sem nefnist „Grecìa Salentina“ sem má rekja til þess tíma. Gríska hugtakið, hameni patrida, eða „glatað heimaland“ er kannski réttnefni því eftir fall Rómarveldis og síðar Býsans heimsveldisins rofnuðu tengslin við Grikkland.
Íbúarnir halda þó fast í sína grísku arfleifð innflytjenda allt aftur til 8. aldar f.Kr. og samfélög þeirra héldust ósnortin nok, þrátt fyrir trúskipti og tíð valdaskipti á Suður-Ítalíu. Síðar. eða eftir að Býsans féll og Tyrkir tóku völdin, hröktust margir Grikkir á flótta á þetta svæði á 16. og 17. öld sem viðhélt þessum sérkennum.
Mállýska eða tungumál?
Þarna fyrirfinnst einangrað tungumál, grískuskotið, en sem hefur blandast töluvert við ítölskuna og mállýskur svæðisins. Tungumálið kallast „griko“ einskonar afbrigði af grísku og er enn töluð og kennd í skólum.
Árið 1996 var stofnað bandalag 11 bæja á Salento svæðinu, Grecìa Salentina, til að stuðla að varðveislu grískrar menningar og tungumálsins.
Þessir bæir skera sig úr á þessu svæði hvað þetta varðar en einnig vegna byggingarstíls og hvítþveginna húsveggja sem minna á Grikkland.
Nú nýverið var reistur skjöldur til að innsigla samstarfið. Þar stendur:
„Rætur okkar eru þær sömu þó svo að greinarnar vaxi í sitt hvoru lagi, en tréð sem styður við greinarnar hefur einn og sama stofninn."
Bæirnir eru reyndar fleiri en 11, en margir þeirra töpuðu þessari grísku tengingu á 20. öldinni og tungumálið er horfið úr daglegu lífi þar á bæ. Í Calabria héraði, fremst á tánni, er þó að finna aðra þyrpingu bæja sem hefur svipaða sögu. Bovesia varðveitir sína grísku arfleifð með miklum myndarbrag.
Stjórnarskrár verndað og tungumál í útrýmingarhættu
Með lagasetningu frá 1999 var viðurkenning á slíkum menningarkimum samþykkt inn í ítölsku stjórnarskrána, þannig að grísku samfélögin í Calabria og Salento eru núna viðurkennd menningarsamfélög. Stjórnarskráin verndar jafnframt tungumál og menningu albanskra, katalónskra, germanskra, slóvenskra og króatískra menningarhópa og þeirra sem tala frönsku, próvensku, fríúlsku, ladínsku, occítönsku og sardínsku.
Auk þess er griko á UNESCO lista yfir tungumál í bráðri útrýmingarhættu, en einungis 20.000 tala griko í dag og eru það þá helst eldra fólk.
Grecìa Salentina
Bæirnir eru allir inn til landsins, nálægt borginni Lecce og flestir þeirra eru byggðir upp í kringum miðlægan kastala og eiga sér áhugaverðan kjarna með skrautlegum byggingum.
Krúttlega staðreynd að einn af þessum bæjum heitir Calimera sem þýðir góðan daginn á grísku.
Dans og tónlist
Ef þannig liggur á þér mæli ég með að fara í danstíma til að læra Pizzica Salentino sem er dans ættaður héðan með viðeigandi tónlist. Dansinn er paradans. Konan er sú sem leiðir dansinn en maðurinn dansar í kringum hana og daðrar við hana án þess að snerta hana nokkurn tíma. Reyndar má oft sjá tvær konur dansa saman og fleiri útgáfur eru til.
HÉR er dásamlegt myndband til að fá innsýn í tónlistina og dansinn. Hvílíkt úthald.
Bæjarnöfn þessara 11 þorpa
HÉR er ágætis útlistun (á ensku) á þorpunum 11.
Af öðrum þorpum ólöstuðum og þó víðar væri leitað er Corigliano d’Otranto líklega sá bær sem þú ættir ekki að missa af ef þú ert á ferðinni á þessum slóðum. Upplagt er að byrja í hinum glæsilega kastala og stökkva svo nokkrar aldir aftur í tímann með því að rölta um hinn sögulega miðbæ. Þarna er sjarmaflóð af húsagörðum, kirkjum og þröngum húsasundum. Kvöldin eru líka falleg, því þess er gætt að lýsa húsin ekki um of.
Góða ferð til Puglia eða...
Kalòs ìrtate stin Grecìa Salentina
Þú hefur tækifæri til að skella þér í borgarferð til Lecce í Puglia í október nk, sjá HÉR
Heimilidir víðsvegar af veraldarvefnum, einkum hér:
Kommentare