top of page
Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Bærinn Garda við Garda

Updated: Aug 20, 2023

Gardavatn dregur nafn sitt af bænum Garda sem dregur nafn sitt af stæðilegu virki sem þar stóð og gegndi því hlutverki að fylgjast með ferðum þeirra sem áttu leið um.


Útsýnispallur í bænum Garda
Útsýnispallur í bænum Garda

Orðsifjafræðin leiðir okkur til orðsins to guard á ensku, en á okkar ástkæra ylhýra er þetta skylt sögninni að verja og nafnorðinu vörður. Orðið „garda" hefur sömu merkingu og orðið „guarda" eða sögnin „guardare" í ítölsku í dag, sem þýðir að horfa, sjá, gæta eða fylgjast með.


Guarda/Garda hljómar ótrúlega líkt og orðið varða á íslensku.

Annars er Garda lítill og heillandi bær með rúmlega 4000 íbúa, staðsettur Veneto-megin við Gardavatn en þrjú héruð eiga héraðsmörk að vatninu. Bærinn stendur við fallega, afmarkaða vík eða flóa. Hann er þekktur fyrir fallegan vatnsbakka og hinn sögulega miðbæ.


Uppruni þessa þéttbýlis er mjög forn ef dæma má af þeim fjölmörgu forsögulegum menjum sem hér hafa fundist. Eins og í mörgum öðrum bæjum á svæðinu eru ummerki um einhverja þéttbýlismyndun, jafnvel fólk sem byggði á staurum úti í vatninu. Fundist hafa leirmunir í nýlegum uppgreftri sem taldir eru frá bronsöld. Klettaristur hafa hafa fundist í fjallinu Lippa sem sýna greinilega frumstæðar veiðimyndir, en einnig teikningar af dýrum, krossum, stríðsmönnum, vopnum og völundarhúsum.


Eftir fall Rómarveldis voru hér stanslausar árasir herskárra þjóðflokka sem flestir komu yfir fjöllin og inn til vatnsins fyrir ofan bæinn Garda. Staðurinn varð því fljótlega mikilvæg varnarmiðstöð, einskonar öryggishnappur sem tengdur var við önnur varnarvirki við vatnið.


Hvað helst?

Byggingarnar í bænum Garda bera vott um þróun byggðar á þessum stað og þar er þó nokkra gimsteina að finna.

Efsti parturinn af Santa Maria Assunta í Garda
Efsti parturinn af Santa Maria Assunta kirkjunni í Garda

Við getum t.d. skoðað sóknarkirkjuna Santa Maria Assunta. Bygging hennar hófst árið 1530 að skipan biskupsins í Verona, Gian Matteo Giberti; en vegna skorts á fjármagni liðu 235 ár áður en verkinu var lokið (1764). Stytturnar tvær á framhliðini eru af heilögum Pétri og Páli eftir myndhöggvarann ​​Righetti (1886). Fallegur miðglugginn er samtímaverk. Framhliðin og klukkuturninn var endurreistur árið 1979 og aftur árið 2013.

Il Chiostro della Pieve di Santa Maria Assunta
Il Chiostro della Pieve di Santa Maria Assunta

Reyndar er klausturgarðurinn sem kirkjan tengist enn sögulegri og áhugaverðari. Il Chiostro della Pieve di Santa Maria Assunta, en klausturgarðurinn og tilbeiðsluhúsið (pieve) eru með því elsta sem finnst á þessu svæði og rekur söguna allt aftur til 10. aldar. Hér eru ummerki frá 5.öld um einhverskonar trúarlega byggingu sem var miðpunktur trúarathafna á mjög stóru svæði. Í forgarðinum hafa varðveist þrjár sjúlur, þar af tvær frá 5.öld.


Sterkur jarðskjálfti í upphafi 12. aldar olli mjög alvarlegum skemmdum á þessari byggingu, svo mikið að hún var algjörlega endurbyggð og núverandi útlit hennar er frá þeim tíma.


Miðaldir

Hinn sögulegi miðbær í Garda geymir líka nokkrar perlur sem rekja má aftur til miðalda.

Það er t.d. klukkuturninn Torre dell’Orologio (t.v.) og Palazzo Fregoso byggð af aðalsfjölskyldu, upprunalega frá Genova, sem settust að á svæðinu á 14. öld. Þessi bygging er ein af elstu og merkustu byggingunum í bænum og er í hinum dæmigerða feneyska-gotneska stíl eins og fleiri byggingar í bænum. Glugginn sem opnast fyrir ofan bogann minnir á endurreisnarstíl og fyrir neðan hann er enn læsilegt skjaldarmerki Fregoso ættarinnar. (hulið fána).


Báðar þessar byggingar eru tengdar inngönguhliðunum tveim sem lágu inn í bæinn til forna og gefa góða vísbendingu um hvernig Garda leit út á miðöldum, umkringd borgarmúrum sem má enn sjá hér og hvar um bæinn sem útveggi núverandi bygginga.


Göngutúr meðfram vatnsbakkanum eftir Lungolago Regina Adelaide er dásemdin ein og liggur leiðin þá fram hjá litríkri bátahöfninni sem býður upp á sjálfustundir af betri gerðinni en þessar tvær byggingar vekja jafnframt athygli á þeirri gönguleið.


Skipstjórahúsið og gamla höfnin
Skipstjórahúsið og gamla höfnin
Palazzo dei Capitani

Þessi sögulega 16. aldar bygging heitir svo vegna embættisins sem var fulltrúi feneyskra yfirvalda hér við vatnið. Hlutverk skipstjórans við vatnið var að gæta öryggis og koma í veg fyrir hvers kyns smygl. Catullo torgið fyrir framan bygginguna er í rauninni gamla höfnin og hægt var að sigla alveg upp að húsinu og liggja við festar þar. Sú staðreynd að þetta embætti hafði sæti hér í bænum jók á virðingu bæjarins. Palazzo dei Capitani var byggð á 14. og 15. öld í feneyskum gotneskum stíl og einkennist af gluggum á framhliðinni í tilviljanakenndri röð.

Palazzo La Losa
Palazzo La Losa
Palazzo La Losa

Byggingin er á tveimur hæðum, báðar með stórum forsal með fimm bogum á framhliðinni. La Losa er bygging út af fyrir sig, en hún er samt einskonar framlenging í áttina að vatninu af Pincini Carlotti höllinni. Þessi sérstaki arkitektúr hafði þann tilgang að styðja við litla bryggju og var því með stóra hvelfingu við innganginn. Á efri hæðinni var svo hægt að horfa yfir vatnið og láta vindinn leika um sig á heitustu dögum ársins.


Hönnuður þessarar byggingar er ekki af verri endanum, Michele Sammicheli, mjög virtur og afkastamikill arkitekt á þessu svæði.


Á leiðinni út á Punta San Vigilio tangann

það er svo sannarlega hægt að mæla með göngutúr út á tangann sem heitir Punta San Vigilio sem er fallegt svæði með útsýni yfir hafmeyjuströndina, Baia delle Sirene.


Áberandi við endimörk bæjarins er Villa Albertini sem lítur út eins og kastali og er umlukin gróskumiklum trjám, skreytt gosbrunnum, stígum og gróðurhúsum.


Byggingin rekur uppruna sinn til sextándu aldar þegar hún var byggð af Becelli-ættinni, en nafn hennar ber nafn greifa sem átti hana nokkrum öldum síðar. Nýjir eigendur á 19. öld ákváðu að gera gagngerar endurbætur á Villa Albertini og gefa henni svipmót sem minnti á miðaldakastala eins og sést. Aðeins vesturhliðin heldur sextándu aldar útliti sínu, sem og litla kirkjan tileinkuð San Carlo Borromeo.


Nýlega var garðurinn í kringum landareignina opnaður almenningi og hægt að mæla með heimsókn þangað, fallegar gönguleiðir: HÉR er heimsíðan þeirra. Aðgangseyrir 5€

Villa Dora
Villa Dora

Þegar lengra er haldið sjá um við fleiri villur, t.d. Villa Dora, sem er tekur á móti skipulögum hópum af fötluðum einstaklingum með fræðslu og samfélag að leiðarljósi. Villan heitir eftir Dora Montani sem gaf húsið og allt innbú í þessum tilgangi.


Villa Carlotti Canossa
Villa Carlotti Canossa

Villa Carlotti Canossa er ristastór demantur byggð við rætur Monte Baldo fjallsins á milli átjándu og nítjándu aldar. Var byggt fyrir feneyska aðalsætt að nafni Carlotti en þegar sú ætt átti ekki lengur erfingja eignaðist önnur aðalsætt að nafni Canossa villuna, árið 1920.






San Vigilio tanginn og byggingar þar eru í eigu Guarienti aðalsættarinnar og þykir umhverfið þar svo fallegt að það gengur undir nafninu Portofino við Gardavatnið.


Villa Guarienti gengur einnig undir nafninu Villa Brenzoni með vísan í Agostino, greifann af Guarenti di Brenzoni sem bað um að hún yrði byggð fyrir sig árið 1540. Byggingin er ef til vill meðal fallegustu og sögulegustu einbýlishúsa við Gardavatn, umkringd síprustrjám sem endurspeglast í kristalstæru vatninu og aftur kemur arkitektinn Michele Sammicheli við sögu.


Agostini var virtur fyrir vísinda- og bókmenntaþekkingu sína og leitaði að friði og ró eftir annasamt líf í Feneyjum og Róm. Á þeim tíma sem hann bjó þar skrifaði Agostino heimspekilega bók um ánægjuna við einveru. Nálgun hans á lífið endurspeglast í einkunnarorðum hans Beatus ille qui procul negotii. (Sælir eru þeir sem halda sig fjarri viðskiptum).


Afkomendur Guarienti di Brenzone eiga enn tangann og byggingarnar. Þar er hótel og veitingastaður opinn almenningi, en villan sjálf er fyrir einkaafnot fjölskyldunnar sem og kapellan helguð heilögum Vigilio.


Meira um tangann og byggingarnar HÉR


Heimildir fengnar víðsvegar af veraldarvefnum, m.a. hér.





Related Posts

See All

Comments


bottom of page