top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Árangursblinda

Updated: Jan 19, 2022

Þetta orð, árangursblinda, festist í huga mér eftir lestur smásögunnar Jónatan eftir Þórarin Eldjárn í morgun. Fyrir utan að finnast orðið sjálft góð viðbót við fjölda nýyrða sem hafa ruðst fram að undaförnu, þá settist það að hjá mér. Ég held ég viti ástæðuna. Ég tengi sterklega við það, þ.e.a.s. blinduna, sé sjálfa mig í speglinum sem getur verið svo hreinskilinn. Var að því komin að svæfa þessar hugrenningar þegar ég ákvað að nota spegilinn mér til framdráttar í tíð innanhússferðalaga.


Orðið hreyfði við mér og ég tengi það við marga atburði í mínu lífi. Stór augnablik og afrek hafa ósjálfrátt kallað á áfram og meira, án þess að vekja hjá mér þá tilfinningu að hafa náð árangri sem beri að fagna. Tómleikatilfinning hefur frekar gert vart við sig við verklok og hugurinn strax farið á fleygiferð að upphugsa næsta verkefni.


Mér finnst einhvern veginn aðrir koma betur auga á það sem ég áorka en ég sjálf. Þannig hrósa mínir nánustu mér fyrir sumt sem mér finnst eiginlega ekki vera neitt, neitt. Það er ekki fyrr en ég staldra við að árangurinn kjarnast og ég meðtek hann. 


Mér gengur betur að sjá árangur hjá öðrum en sjálfri mér. Ég fæ mikið út úr því að sjá aðra ná markmiðum sínum. Það kemur mér heldur ekki á óvart, því tveir af mínum „greindu” styrkleikum eru einmitt catalyst og enabler. Það útleggst sem þörf fyrir að búa til aðstæður til að gera öðrum kleift að vaxa og dafna, veita innblástur og hvetja til dáða. Þessir styrkleikar eru orkugefandi fyrir mig og nýtast mér vel sem markþjálfa.


En nú er lag, kominn tími til að nýta spegilinn frá því í morgun. Í komandi viku fer ég í markþjálfun og er komin með fullkominn efnivið í samtalið. Þangað til ætla ég að nýta inniveruna til að kveikja á núvitundinni og fá mér gleraugu við árangursblindunni.


Ég lofaði sjálfri mér að ég skyldi lesa bók í morgun og „Þættir af séra Þórarinum og fleirum“ varð fyrir valinu. Hinn árangursblindi Jónatan var óaflátanlega með hugann við það sem eftir væri og las ekki bækur af því að hann óttaðist að þeim lyki.


Ég vil ekki vera Jónatan.


Ég er Núgústa.

145 views0 comments

Related Posts

See All

Comments


bottom of page