top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Kvarantína

Updated: Apr 3, 2022

Mér finnst svo gaman af því að kryfja uppruna orða og velta fyrir mér hvernig þau ferðast á milli tungumála. Orðið sóttkví eða enska orðið quarantine höfum við heyrt mjög oft undanfarnar vikur. Kannski ekki eins oft og orðið fordæmalaus, en næstum því.

Orðið er upprunnið úr ítölsku og þýðir fjörutíu (40). Smækkunarendingin „-ina” er krúttlega útgáfan sem þýðir „tæplega 40” eða „litlar fjörtíu”.


Á blómskeiði Feneyjalýðveldsins komu skip drekkhlaðin verðmætum varningi frá ýmsum stöðum við Miðjarðarhafið. Feneyingar voru miklir sæfarendur en auk þess urðu þeir slyngir kaupsýslumenn. Krydd, vefnaðarvara og ýmsir listmunir sem fengnir voru með vafasömum hætti komu á land í Feneyjum. Súlurnar á Markúsartorgi, bronshestarnir á Markúsarkirkjunni og m.a.s. líkamsleyfar heilags Markúsar fengu far með einni galeiðunni. Skipin komu líka færandi drepsóttir til Feneyja. Svarti dauði geysar árið 1348 og fellir ¾ íbúanna. Skæð drepsótt kemur svo með galeiðu frá Egyptalandi og geysar árin 1575–1577. Sú plága kostaði 50.000 manns lífið – þriðjung allra íbúa Feneyja. Plágan blossar svo aftur upp 1630 og gengur yfir á einu ári.


Það var því ekki vanþörf á að koma upp vörnum og reyna að halda þessum vágestum í burtu. Galeiðurnar þurftu að lóna í lóninu og bíða í 40 daga og farþegar og varningur fengu ekki landgöngu fyrr en að þeim tíma loknum. Lengdin á sóttkvínni virðist hafa verið biblíutengd. Syndaflóðið stóð í fjörutíu daga og fjörutíu nætur, Móses var fjörutíu daga í Sínaífjalli áður en hann tók við boðrorðunum tíu og Kristur fastaði í 40 daga eftir að hann var skírður í ánni Jórdan, svo eitthvað sé nefnt. Allt eins gott að miða við það, enginn Þórólfur til í þá daga. Feneyska módelið var svo tekið upp víðar í Evrópu. Fjörtutíu daga reglan. Íslenska tveggja metra reglan er seinni tíma fyrirbæri...


Þannig ratað sóttkvíin inn í okkar líf, með sömu leið og kóróna vírusinn - frá Ítalíu!


P.S.

Ætla að leyfa mér að mæla með Venezia Autentica sem eru samtök með það markmið að breyta því hvernig ferðaþjónusta hefur áhrif á borgina. „Við viljum færa okkur frá fjöldaferðamennsku, sem hvorki nýtur gestanna né íbúanna, til sjálfbærari og ábyrgari ferðaþjónustu.”

278 views0 comments

Related Posts

See All
bottom of page