top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Gleym mér ei

Updated: Apr 17

Lagið sem átti ekki að gleymast.


Innihald dægurlaga texta hafa oft verið hitamál, uppspretta deilna og hneykslunar.


Lagið Gleym-mér-ei var einmitt slíkt lag. Pabbi samdi það meðan hann var í Vestmannaeyjum á árunum 1940-45 við texta æskuvinar síns og sveitunga, Kristjáns frá Djúpalæk. Lagið var frumflutt á dansleik í bænum, líklega í Alþýðuhúsinu eitt föstudags- eða laugardagskvöldið og hefur væntanlega fengið að hljóma nokkrum sinnum um kvöldið.

Sagan segir að áður en kvöldið var úti hafi birst embættismaður bæjarins í þeim erindagjörðum að banna flutning á laginu vegna þess að textinn þótti ósæmilegur. Ekki vegna þess að hann væri ádeila eða innihéldi klúryrði, heldur var ástæðan að orðið Drottinn kom fyrir í textanum. Já, tíðarandinn var annar, og þá þótti alls ekki við hæfi að minnast á Guð, Drottinn eða þá himnafeðga í dægurlagatextum. Slíkur lofsöngur átti að hljóma í kirkjum.


Það fauk nú ekki oft í hann pabba minn. Hann var af öllum talinn rólyndismaður, og hafði þolinmæði út fyrir endimörk alheimsins. Mannkostir sem hafa ekki erfst til örverpisins.


En þarna um kvöldið, í Vestmannaeyjum, var ungur lagasmiður að byrja ferilinn og þá mætti korktappinn og stöðvaði flæðið. Honum sárnaði, það er nokkuð víst, kannski hefur hann jafnvel reiðst, því að lagið heyrðist ekki oftar í Vestmanneyjum og í raun ekki næstu 35 árin. Pabbi afgreiddi málið þannig að lagið var læst inn í hugarfylgsni og það missti flugið.


En viti menn. Svo líða 35 ár og þá hringir síminn í Álftröðinni eitt kvöldið. Á hinum enda línunnar er Árni Tryggvason leikari og spyr hvort hann megi koma í heimsókn. Árni var þá að undirbúa söngskemmtun í Austurbæjarbíói í tilefni af leikaraafmælinu sínu. Hann óskaði eftir að fá staðfestingu á því að lag sem hann lærði þegar hann var léttadrengur í Kaupfélaginu á Borgarfirði eystra, væri ekki örugglega eftir pabba og hvort hann kynni það rétt.


Örverpinu fannst mikið til koma að fá svona frægan mann í heimsókn og pabba þótti jafnvel ennþá meira til koma að Árni kunni lagið, kórrétt eftir öll þessi ár og fékk auðveldlega leyfi til að flytja það á skemmtuninni.


Það er nokkuð merkilegt að lagið lifði af þennan flutning frá Vestmanneyjum til Borgarfjarðar eystri og svo til höfuðborgarinnar á þessum 35 árum. Málið var að Árni hafði lært lagið eftir eyranu af manni sem lærði það af manni sem var staddur á dansleik í Vestmannaeyjum kvöldið góða sem lagið var frumflutt og bannmerkt. Árni segir frá þessu í endurminningarbók sinni. Hann hafði ekki getað gleymt laginu og trúði pabba fyrir því að þetta lag væri honum mjög kært.


Já, bæjarfógetum, bæjarstjórum og lögreglustjórum tókst ekki að stífa flugfjaðrirnar af þessu lagi og það lifir enn og ber nafn með rentu, Gleym-mér-ei.


Á þeim árum sem liðin eru frá því að lagið var flutt hafa þolmörk í textagerð breyst töluvert, eða hvað finnst ykkur? Er þessi texti kannski ennþá hneykslanlegur?


Takk Árni Tryggvason fyrir að hafa svona gott minni og vera svona lagviss.


Það úti grær á víðavangi.

Veikur leggur krónu ber.

Vekur mann af vanans gangi.

Viðkvæmni um hugann fer.

Dýrðlegt tákn um drottins mildi,

draumlynd sál við grýttan svörð.

Himinblámans blæju reifað,

við brjóst þitt fóstrað, móðir jörð.


Eins og barn að blíðri móður

blöð það réttir sólu mót.

Hljómar dagsins ástaróður.

Orku teygar blómsins rót.

Í ástarvímu’, ef frítt það færir

fljóð að barmi unnustans,

það dregur sig með duldu afli

deyjandi að brjósti hans.


Þegar undir sólin sígur,

sveipast jörð í rökkurfeld.

Tárdögg blómsins titrar, hnígur,

tregar dagsins horfna eld.

Mót himni lyftir blöðum bláum,

bærist hægt í kvöldsins þey.

Angurvært af hrelldu hjarta

hvíslar: Drottinn, gleym-mér-ei.


Kristján frá Djúpalæk úr ljóðabókinn

Frá nyrztu ströndum, 1943


Hér er hægt að hlusta á lagið á SPOTIFY

345 views0 comments

Related Posts

See All
bottom of page