top of page

Æskuminning

Writer's picture: Ágústa Sigrún ÁgústsdóttirÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Updated: Nov 13, 2023

Lagið Æskuminning ásamt Þórði sjóara eru líklega þekktustu lög pabba. Ég held það sé óhætt að segja að Æskuminning hafi komið pabba á kortið sem dægurlagahöfundi á sjötta áratug síðustu aldar.


Lagið hefur laumað sér inn í líf fjölmargra af kynslóð þeirra sem fæddir eru á seinni hluta síðustu aldar og okkur syskinum hafa oft verið sagðar rómantískar sögur um hvernig lagið hafi jafnvel verið örlagavaldur í lífi sumra þegar ástin var annars vegar.


Mamma átti reyndar talsverðan þátt í því að Æskuminning komst á framfæri, því þegar pabbi hikaði, tók hún af skarið og eggjaði hann til að senda lagið í dagslagakeppnina árið 1952.


Æskuminning lenti í öðru sæti í danslagakeppni SKT árið 1952, en bar sigur úr býtum í vali áhorfenda.


Það kom fyrst út á 78 snúninga plötu með Alfreð Clausen hjá Íslenzkum tónum árið 1953 (IM 11). Á þeirri plötu var einnig lagið Manstu gamla daga eftir Alfreð sjálfan.


Í takt við vinsældir Æskuminningar gaf Drangeyjarútgáfan út nótur af laginu. Forsíðuna teiknaði Þorleifur Þorleifsson sem hannaði flest plötuumslög Íslenzkra tóna.


Lagið fékk síðar sérstaka viðurkenningu frá Félagi íslenskra dægurlagahöfunda (FÍD).


Félagið var stofnað haustið 1955 með því að um tuttugu og fimm manna hópur dægurlagahöfunda kom saman í því skyni að efla og þroska gengi léttra tónsmíða og höfunda þeirra, þá var áhersla lögð á gott samstarf við ljóðskáld.


Fyrstu árin stóð félagsskapurinn fyrir ýmis konar tónleikum og kynningum á íslenskri dægurlagatónlist, og m.a. hélt félagið utan um dægurlagasamkeppnir í ætt við það sem SKT hafði gert nokkrum árum fyrr. Þá stóð félagsskapurinn fyrir útgáfu hefta með dægurlagatextum, dagskrárgerð í útvarpi, námskeiðahaldi (s.s. í tónfræði o.fl.) og sitthvað fleira. Félag íslenzkra dægurlagahöfunda var ekki réttinda- eða baráttusamtök í þrengsta skilningi þess hugtaks en beitti sér þó eitthvað fyrir bættum réttindum dægurlagahöfunda t.d. gagnvart STEFi. Pabbi var í stjórn félagsins um tíma, ef ég man rétt var hann ritari.


Æskuminning var valið næst besta dægurlagið árið 1953, í skoðanakönnun tímaritsins Hljómplötunýjungar og Jenni Jóns fékk samskonar viðurkenningu fyrir textann.


Alfreð Clausen syngur Æskuminningu
Alfreð Clausen syngur Æskuminningu

Íslensk dægurlög 1 er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1954. Þetta er fyrsta 45-snúninga plata sem gefin er út á Íslandi. Á henni flytur Alfreð Clausen fjögur lög með hljómsveitum Josef Felzmann og Carl Billich. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló. Prentun: Alþýðuprentsmiðjan hf.

  1. Æskuminning - Lag - texti: Ágúst Pétursson - Jenni Jónsson

  2. Vökudraumur - Lag - texti: Jenni Jónsson

  3. Litla stúlkan - Lag - texti: Steingrímur Sigfússon

  4. Manstu gamla daga - Lag - texti: Alfreð Clausen - Kristín Engilbertsdóttir


Æskuminning naut mikilla vinsælda og kom einnig út á Norðurlöndunum. Carl Billich útsetti lagið. Ágúst átti fleiri lög sem Íslenzkir tónar gáfu út, lögin Hittumst heil og Ég mætti þér sem Tígulkvartettinn söng, Harpan ómar sem Alfreð og Ingibjörg Þorbergs sungu saman og Þórður sjóari sem Alfreð söng.


Viðurkenning fyrir annað besta íslenska dægurlagið skv.skoðanakönnun blaðsins Hljómplötunýjungar árið 1953
Viðurkenning fyrir annað besta íslenska dægurlagið skv.skoðanakönnun blaðsins Hljómplötunýjungar árið 1953

Lagið var gefið út í Noregi ásamt Hreðarvatnsvalsinum og Litlu flugunni af norska hljómplötufyrirtækinu NERA A/S í Osló, sem gaf út MUSICA hljómplöturnar. Norska útgáfufélagið Oscar Skau A/S gaf lögin jafnframt lögin þrjú út á nótum með leyfi frá Drangeyjarútgáfunni. Æskuminning var ennfremur gefið út í Svíþjóð og Danmörku á hljómplötum.


Það hafa margir spreytt sig á þessu lagi og hér er viðleitni til að lista upp þá söngvara sem hafa sungið lagið inn á plötu en til eru mun fleiri upptökur í Kistunni hjá Ríkistútvarpinu. Auk þess hefur lagið fjölmörgum sinnum verið spilað inn án söngs m.a. af höfundi. Ef þið vitið um fleiri útgáfur á laginu megið þið endilega láta okkur vita.


  • Alfreð Clausen

  • Sigurður Ólafsson

  • Ragnar Bjarnason

  • Rúnar Júlíusson

  • Fjórtán fóstbræður, syrpa

  • Strákabandið

  • Vagnsbörnin að vestan

  • Egill Ólafsson

  • Ágústa Sigrún Ágústsdóttir og Einar Clausen


Æskuminning


Ó, manstu gamlar æskuástar stundir,

svo yndislegt var þá að vera til

litla kofann blómabrekku undir,

bunulækinn, upp við hamragil.

Um sumarkvöld við sátum þar og undum

um sólarlag í blíðum sunnanþey

og litla blómið fagra, er við fundum

í fjóluhvammi, það var Gleym-mér-ei.


Manstu litlu lömbin út við stekkinn,

litla rjóðrið fagra upp við hól;

fuglinn litla er sætast söng á kvöldin,

silungshylinn fram við kvíaból.

Ánni í dalnum ei við munum gleyma,

oft við hlýddum blítt á hennar nið.

Allt var best og okkur kærast heima,

unaðslegt í dalsins kyrrð og frið.


Related Posts

See All

תגובות


bottom of page