top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

🇸🇮 Emóna 🇸🇮

Updated: Jan 19, 2022

Fyrir tvö þúsund árum stóð rómversk borg sem heitir Colonia Iulia Aemona eða Emóna á staðnum sem Ljubljana er í dag. Borgin hefur frá þeim tíma heitið fleiri nöfnum, t.d. Laibach á tíma yfirráða Habsborgara en í dag ber hún hið fallega nafn Ljubljana sem mætti þýða hin ljúfa eða elskaða.

Styttan á myndinni fékk hið táknræna nafn Emóna borgarinn þegar hún fannst árið 1836, á stað sem skilgreindur er sem "úthverfi" Emóna borgar. Hér voru rómversku grafreitirnar og styttan prýddi einn slíkan. Frumgerðin er frá 2.öld og hægt er að heimsækja Emóna borgarann í Þjóðminjasafnið (Narodni muzej Slovenije).


Það sem eftir stendur af borgarmúrunum er líka skemmtilegt að virða fyrir sér og sjá hvernig helsti arkitekt slóvena, Jože Plečnik endurhannaði hluta múrana og gaf þeim nýja ásýnd.


Á tímum Rómverja lá þjóðleið frá Adríahafi til Vínar (Vindobona) í gegnum borgina. Rómverjar byggðu Emóna í raun á stað þar sem vitað er um að frumbyggjabyggð hafði verið.


Borgin náði yfir svæði sem talið er hafa verið 430m x 540m og var umlukin borgarmúrum sem voru 6-8m háir og 2,5m að þykkt. Þar stóðu 29 varðturnar með 60m millibili eftir endilöngum borgarmúrunum.


Rómverska borgarskipulagið með aðalgötunum decumanus og cardo eru í dag Rimska og Slovenska göturnar og þar finnast reglulega rómverskar menjar þegar farið er í götuframkvæmdir eða jarðrask á sér stað.



Borgin er stofnuð árið 14 e. Kr. Ári síðar er það greypt í stein, í bókstaflegri merkingu, því fundist hefur áletrun um framlög frá Ágústusi og Tíberíusi keisurum Rómarveldis af þessu tilefni.


Víðsvegar um Ljubljana hafa fundist fornleifar svo sem hlutar af rómverska borgarmúrunum, íbúðarhús, styttur, legsteinar, nokkrir mósaíkmyndir og hlutar skírnarhúss frumkristinna manna, sem sjást enn í dag.


Í einum af tveimur fornleifagörðum borgarinnari er að finna hið svokallað Emóna hús sem hefur verið grafið upp. Garðurinn opnaði fyrir almenning árið 1966 og fékk yfirhalningu árið 2014 á 2000 ára afmæli Emóna borgar. Hér er auðveldlega hægt að virða fyrir sér hversdagslíf Rómverja, hvernig húsin voru hituð með hitaþrýstingi undir gólfum og inn í veggjum og einnig hversu vel úthugsuð fráveitan var.


Árið 452 var Emóna nánast lögð í rúst af Húnum, undir forystu Atla Húnakonungs. Þeir sem komust af flúðu borgina; sumir komust niður strönd Istria (nú Króatía), þar sem þeir stofnuðu aðra Emóna, bæ með nafninu Novigrad, sem þýðir ný borg. Þar fundu þeir nýtt upphaf.







Related Posts

See All
bottom of page