top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Hittumst heil

Updated: Nov 13, 2023

Þessi pistill birtist í textabók geisladisksins Hittumst heil sem gefinn var út árið 2001, með lögum Ágústs Péturssonar. Þá fögnuðum við fjölskyldan 80 ára fæðingarafmæli. Jónatan Garðarsson skrifaði þennan formála Hittumst heil.

Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvað íslenskt tónlistarlíf er blómlegt í dag; hvað okkur hefur fleygt fraa á stuttm tíma. Um aldir var hljóðfæraeign í lágmarki hér á landi og fáir kunnáttumenn á sviði tónlistar, þótt söng og kvæðahefðin væri ætíð ríkjandi. Þegar fyrstu harmoníum komu í kirkjur landsins á seinni hluta nítjándu aldar urður töluverðar breytingar í tónlistarlífi þjóðarinnar. Um líkt leyti kynntust landsmenn harmonikunni og fyrr en varði bárust tónar dragspilsins frá ystu nesjum til innstu dala. Það var varla til svo afskekkt byggð að þar fyrirfinndist ekki harmonika og þokkalegur nikkuspilari. Á fáeinum áratugum varð harmonikan almannaeign og góðir nikkuleikarar komust í hóp mektarmanna, burtséð frá ætt og uppruna. Hljómfall nikkunnar efldist í takt við vöxt ungmennafélaganna oa aukna þjóðarvitund svo úr varð íslensk dægurtónlist á skömmum tíma.


Þó svo að íslenskir tónlistarmenn væru farnir að semja ágætis dægurtónlist á fyrri helmingi 20. aldar var undir hælinn lagt hvort lagasmíðar þeirra næðu almennri útbreiðslu. Þeir sem fengust við þessa iðju áttu ekki marga valkosti. Nótnaútgáfa var eina færa leiðin, sem fæstir höfðu efni á því menn urðu að fjármagna útgáfuna sjálfir. Þar við bættist að fáir kunnu að lesa nótur svo að nótnaútgáfa hafði mjög takmarkaðan tilgang. Útgefendur hljómplatna einblíndu framan af á einsöng og kóratónlist og íslensd dægurtónlist heyrði til undantekninga í dagsrká útvarpsins á fyrstu árum þeirrar stofnunar.


Þegar stjórnarmenn Skemmtiklúbbs templara í Reykjavík fengu þá snjöllu hugmynd um 1950 að efna til árlegarar danslagakeppni var eins og skriðu hefði verið hleypt af stað. Á næstu árum var Danslagkeppni S.K.T. helsti vettvangur nýjunga í danslagagerð hér á landi, enda komu fjölmargir laga- og textasmiðir fram í dagsljósið á sjötta áratugnum sem hefðu öðrum kosti haldið sig algerlega til hlés.


Í þessum hópi var Ágúst Pétursson húsgagnasmiður og harmonikuleikari, sem hafði fengist við lagasmíðar um nokkurt skeið þegar hann afréð að senda átta ára gamalt lag sitt, Æskuminningu í keppnina 1952. Laginu vegnaði vel, hlaut 2. verðlaun í keppninni en 1. verðlaun hjá fólkinu í salnum, og þar með var Ágúst orðinn þekktur lagasmiður. Árið 1954 spurði blaðamðaur Hljómplötunýjunga Ágúst álits á Danslagakeppni S.K.T. og svarað hann því til að keppnin væri mjög nauðsynleg, þar sem óframfærnum tónskáldum gæfist tækifæri ti að koma lögum sínum á framfæri í keppninni.


Ágúst hafði fengist nokkuð við tónlist heima á æskuslóðum sínum við Finnafjörð og þar nærri var Djúpilækur, æskuheimili skáldsins Kristjáns Einarssonar sem kenndi sig við þann stað. Þeim varð vel til vina enda lagði Kristján til texta við nokkur laga Ágústar sem hlutu almannahylli. Nægir að nefna texta Kristjáns um Þórð sjóara sem Alfreð Clausen gerði þjóðkunnan með söng sínum og lögin Hittumst heil og Ég mætti þér sem Tígulkvartettinn hljóðritaði um miðjan 6. áratuginn. Annar félagi Ágústar var Jenni Jónsson sem gerði texta við lögin Æskuminning og Harpan ómar. Sjálfur var Jenni býsna snjall lagasmiður og vann nokkrum sinnum til verðlauna fyrir tónsmíðar sínar. Ágúst og Jenni störfuðu um langa hríð með Jóhanni Eymundssyni í Hljómatríóinu sem lék lengst af í Skátaheimilinu við Snorrabraut. Um tíma starfaði Alfreð Clausen með Hljómatríóinu og má heyra samspil þeirra félaga á einni af plötum Alfreðs á frá 6. áratugnum.


Eitt af einkennum Ágústar og félaga hans sem áttu þátt í að móta íslenska dægurlagahefð í öndverðu var hógværð og lítillæti. Fyrir bragðið var réttur þeirra oft fótum troðinn og mikilvægt að snúast til varnar. Var það gert með stofnun Félags íslenskra dægurlagahöfunda árið 1955, hagsmunafélags sem stóð vörð um íslenska dægurtónlist í tvo áratugi. Ágúst var meðlimur í F.Í.D. frá upphafi og gegndi formennsku um tíma. Árið 1956 fékk Ágúst aðild að Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF) sem tónhöfundar. Það verður seint hægt að setja mælistiku á vægi dægurtónlistar í mótun þjóðarinnar á einum mestu umbrotatímum í sögu okkar. Engu að síður er hægt að fullyrða að íslenskir tón- og textasmiðir hafi lagt sitt af mörkum til að treysta grundvöll tungunnar og skerpa á þeim þáttum sem einkenna okkur sem þjóð.


Jónatan Garðarsson


Diskurinn Hittumst heil fékk gífurlega góðar viðtökur þegar hann kom út þó eðli málsins samkvæmt hafi hann ekki ratað inn á vinsældarlista ársins 2001. Diskurinn hefur selst í bílförmum og hann er aðgengilegur á Spotify. Ef einhver vill frekar geisladisk til að spila í þar til gerðum græjum, þá er velkomið að hafa samband. Við eigum enn nokkur eintök.


Jónatan minntist pabba í þætti sínum FLUGUR nýverið og spilaði nokkur lög eftir hann ásamt að rifja upp sögu danslagakeppnanna. Þátturinn er sá fimmti í röðinni þar sem hann leikur lög sem komu fram í kringum Danslagakeppni SKT um miðjan sjötta áratuginn.

Related Posts

See All

Comentários


bottom of page