top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Á frívaktinni

Updated: Nov 13, 2023

Hverjir voru þessir nafntoguðu menn, Ólafur sjómaður og Þórður sjóari?


Það er gaman að rifja upp tímann þegar sjómannalög voru eftirsótt og vinsæl í óskalagaþætti sjómanna. Oft var þá beðið um lög sem tengdust starfsgreininni. Það sama var ekki endilega upp á teningnum þegar óskalög sjúklinga voru annars vegar, enda ekki eins mikið magn af lögum verið samin um sjúklinga og sjómenn ☺️.


Ágúst Pétursson
Ágúst Pétursson

Þórður sjóari er eitt af þekktustu lögum pabba og hljómar enn oft á öldum ljósvakans og þegar vantar svona einkennislag fyrir sjómannstengt myndefni í sjónvarpi.


Hver var Ólafur sjómaður? Jú, það var mágur Jenna Jóns og Jenni gerði honum þann heiður að semja bæði lag og texta honum til heiðurs.


En hver var Þórður sjóari? Hef ekki hugmynd. Líklega er það persóna sem fæddist í höfði Kristjáns fra Djúpalæk sem samdi textann. Þið látið mig vita ef þið vitið betur.


Við vitum ekki til þess að lagið og textinn um hann Þórð hafi nokkrum sinnum verið sent í danslagakeppni S.K.T. enda ólíklegt að lagið hefði fengið að hljóma með textanum hans Kristjáns. S.K.T. stóð jú fyrir Skemmtiklúbb Templara og þar fengu ekki endilega spilun lög þar sem var fjallað var um áfengi og drykkju. Að glingra við stút, taka upp pyttlu og óska þess að öldurnar breyttust í vín átti þar ekki upp á pallborðið, eða barborðið... og ekki heldur sukk, drukk og ölkollur.


Sagan segir að til þess að lagið fengist flutt í Templarahöllinni hafi textanum verið breytt. Ég sel ekki ölið dýrara en ég keypti það...

Ja, sjómennskan er ekkert djók. Þó skyldi ég sigla um eilífan aldur, ef öldurnar breyttust í kók.

Við erum nú ekki viss um að það sé nokkuð til í þessu og ekki heldur í efasemdum um kynhneigð Þórðar þar sem honum er legið á hálsi fyrir að elska þilför meira en konur og vilja glingra við stúf...


Þórður sjóari

Hann elskaði þilför, hann Þórður,

og því komst hann ungur á flot.

Og hann kunni betur við Halann

en hleinarnar neðan við Kot.

Hann kærði sig ekkert um konur,

en kunni að glingra við stút,

og tæki ‘ann upp pyttlu ef töf varð á löndun,

hann tók ‘ana hvíldarlaust út.


Og þá var hann vanur að segja til svona:

Ja, sjómennskan er ekkert grín.

Þó skyldi ég sigla um eilífan aldur,

ef öldurnar breyttust í vín.


Og þannig leið ævin hans Þórðar

við þrældóm og vosbúð og sukk.

Svo kvaddi hann lífið eitt kvöldið.

Þeir kenndu það of miklum drukk.

Og enn þegar sjóhetjur setjast

að sumbli og liðkast um mál,

þá tæma þeir ölkollu honum til heiðurs

og hrópa í fögnuði: skál!


Því þá var hann vanur að segja til svona:

Ja, sjómennskan er ekkert grín.

Þó skyldi ég sigla um eilífan aldur,

ef öldurnar breyttust í vín.


Þessi skemmtilega ritgerð til M.A. prófs eftir Aðalheiði Bragadóttur fjallar um sérstöðu ljóðagerðar Kristjáns frá Djúpalæk og ég hvet ykkur til að lesa.


Þar greinir Aðalheiður ljóð Kristjáns um Þórð þannig:

"Í kvæðinu, sem er frá 1957, er dregin upp óvenju raunsæ mynd af erfiði sjómannsins og baráttunni við Bakkus... Sáluhjálpin leynist í skálinni, jafnt fyrir Þórð sem aðra sem í hans sporum standa. Áhersla er lögð á samheldni innan starfsgreinarinnar og þá staðreynd að einhver mun sakna þín þó svo að ævin hafi ekki verið upp á marga fiska. Þórður verður táknmynd og söngurinn því nánast minningarljóð fyrir hinn ógæfusama sjóara sem þó gat glaðst yfir glasi. Þegar hressilegu lagi Ágústs Péturssonar er bætt við dapurlegan textann verður útkoman hálfgert baráttulag þar sem línan: "Ja, sjómennskan er ekkert grín," er endurtekin aftur og aftur og verður að einskonar leiðarstefi."


Annars átti pabbi annað sjómannalag við texta eftir Kristján sem ekki náði eins miklu flugi en á fullt inni. Það heitir Vér siglum og er stundum ritað Við siglum eða lagið kallað eftir fyrstu ljóðlínunni: "Mann þyrstir til sjós hann er saltur". Alfreð Clausen syngur. Í þessum texta hans Kristjáns er enn talað um að súpa og skála fyrir skálinni.


Vér siglum

Mann þyrstir til sjós, hann er saltur,

því súpum vér fastar á,

þá sjaldan að inn er siglt.

Skál fyrir skálinni, bræður.

Á hafinu sæguðinn hart oss agar,

í höfn bíða gleðinnar þráðu dagar,

og hér er það hún, sem ræður.


Vér kynntumst við djúpsins dætur,

en dreymir um hlýrri vör,

þá loksins vér höldum í höfn.

Skál fyrir vífunum, vinir.

Vér ást vora spörum til einnar nætur,

sem eldur hún logar við hjartarætur

því kyssum vér heitar en hinir.


Hæ, stillið þér strengina hærra,

því stigið skal þétt á fjöl.

Og upp með sjómannasöng.

Skál yðar, skrautbúnu hallir.

Vér örskammar stundir hér unað getum,

vor útþrá við heimþrá er jöfn að metum.

Vér siglum við sólris – allir.


"Hér er áherslan á karlmennsku og kvenhylli. Ástríðufullir karlmenn sem eiga konu í hverri höfn… Þráin fyrir landlegu og sjóför er jöfn, hún togar í sjómennina sitt á hvað eftir því hvort þeir eru á sjó eða landi. Fyrir vikið eru þeir aldrei fullkomlega sáttir og vegna þessa eirðarlausa lífs er hægt að fyrirgefa þeim drykkjuna, .... Goðsögnin ríkir í þessum texta, hann sýnir hrausta menn sem gleðjast við vinnu sína og einnig í fríum, þeir kyssa heitar en aðrir, drekka hressilegar og lifa lífinu lifandi þrátt fyrir andstæðurnar sem togast á." (Aðalheiður Bragadóttir)


Ja, sjómennskan... Má til með að benda ykkur á fræbæran flutning Sykurmolanna á Þórði sjóara hér... þetta er sko ekkert grín!

Related Posts

See All
bottom of page