top of page
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

🍇 Vínviður 🍇

Updated: Jan 24, 2022

Gæði víns og þá sér í lagi verðmæti fer oft eftir aldri.


Hinsvegar er ekki er oft fjallað um aldur vínviðarins sem gefur af sér þennan dýrmæta ávöxt, vínberin. Gamlar eikur og linditré komast á spjöld sögunnar en lífslíkur vínviðarins er ekki fréttaefni. Hundarð ára gamall vínviður þykir hafa þjónað sínu hlutverki vel, enda búinn að gefa af sér efnivið í eðalvökva sem hefur seytlað um kverkarnar og glatt okkur í gegnum tíðina.


Þegar vínviður, sem nær oftast mest 125 ára aldri verður 450 ára, þá er einhver galdur í gangi. Það er er því hátíð á hverjum degi í bænum Maribor í Slóveníu þar sem er að finna þessa háöldruðu plöntu sem er í hávegum höfð á samnefndu safni. Þarna geta gestir virt fyrir sér þennan forföður sem er skv. heimsmetabók Guinness elsti vínviður heims.


Á tímum innrása Tyrkja á svæðinu á miðöldum, var plantan gróðursett fyrir framan húsið á Vojašniška götu nr. 8, sumpart til að tryggja framhald vínræktunar á svæðinu. Það reyndist góð ákvörðun því vínakrarnir allt um kring brunnu margsinnis í þessum átökum. Plantan lifði jafnframt af vírus sem geysaði um 1870 og eyddi öllum plöntum á nærliggjandi vínekrum. Sú staðreynd að rætur hennar lágu svona djúpt og teygðu sig víða, bjargaði málum. Plantan gat náð sér í ómengað vatn til að lifa sýkinguna af.



Tveimur heimsstyrjöldum síðar voru það svo mannanna verk sem settu þennan heimsins elsta vínvið í hættu og nánast drekktu plöntunni. Þegar byggð var stífla í ánni Drava árið 1963, hækkaði vatnsborði um þrjá metra. Plantan, sem á rætur sínar að rekja niður að árbakkanum og hafði orðið plöntunni til lífs þegar vírusinn geysaði hundrað árum fyrr, var um það bil að gefast upp þegar sérfræðingar frá stofnun landbúnaðarins veittu henni athygli og tókst á að endurlífga hana á elleftu stundu.


Vínviðurinn ber ávöxt enn þann dag í dag og framleitt er vín úr vínberjunum. Heiti vinberjanna er Žametovka, mjög dökk vínber sem vaxa í stórum klösum og eru uppstaðan í þekktu slóvensku rauðvíni sem heitir Cviček.


Gæðin eru víst ekki lengur í hæsta flokki en sú hefð hefur skapast að heiðra virta gesti með flösku af víni af elsta vínvið heims. Heilt safn hefur verið sett á laggirnar til að heiðra plöntuna sem teygir sig eftir endilöngum húsgafli safnsins og nú hefur ný tækni verið kynnt til sögunnar til að upplifa ævi plöntunnar á eigin skinni. Gestir geta ferðast aftur í tímann til ársins 1570 þegar plantan var lítill græðlingur og fylgt þroskaferlinu til dagsins í dag og upplifað samtímasögu hennar.


Ferðaþjónustan í Lent í Maribor hefur nýtt sér frægð plöntunnar. Söngvar hafa verð sungnir og kvæði ort og hún á sitt eigið safn. Ekki nóg með það heldur hefur hún einkaþjón í sinni þjónustu, víngæslumann sem nostrar við hana og pamperar á hverjum degi.


Að vera 450 ára gömlu planta er hreint ekki svo slæmt hlutskipti.





Skrifað fyrir Colletto Vínklúbbinn

Áður birt á Facebook síðu klúbbsins 15.5.2021

109 views0 comments

Related Posts

See All

Comments


bottom of page