Örverpinu finnst eiginlega ótrúlegt að eiga pabba sem fæddur var svona snemma á síðustu öld, 29. júní 1921. Önnur staðreynd er eiginlega enn ótrúlegri að föðuramma mín, Sigríður Friðriksdóttir, á sama afmælisdag og pabbi, 29. júní, en hún er fædd á þarsíðustu öld, árið 1885. Ég meina, hvaða unglingur á ömmu sem er fædd árið 1885. Skil þetta bara ekki.
Nokkrum árum eftir að pabbi dó fór ég að grúska í dótinu hans og reyna að skrásetja það sem ég fann. Ég rakst þá á kassettu með lagi sem pabbi hafði spilað inn á píanó stuttu áður en hann dó. Þetta var hægur tignarlegur vals. Pabbi hafði greinilega eitthvað verið að vinna með lagið og ætlað því hlutverk í lífinu. Það má leiða líkum að því hann hafi samið þetta fyrir brúðkaup í vændum, því hann kallaði lagið einfaldlega „brúðarvals” á kassettunni.
Ég tók mig til og lét skrifa lagið upp og það eignaðist tilhlýðilegan texta. Hörður Sigurðarson samdi textann og lagið fékk nafnið Næturvals og var sent í Danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks árið 2002, 16 árum eftir fráfall Ágústs. Upptökur fór fram 31. janúar 2002 hjá Magnúsi Kjartanssyni sem útsetti lagið ásamt Gunnari Gunnarssyni sem jafnframt spilaði á píanó og hljómborð í laginu. Lagið komst í úrslit og var flutt á Sæluvikunni í íþróttahúsinu á Sauðárkróki.
Lagið var sent inn með dulnefni eins og reglurnar kröfðust. Þar kom millinafn hans að góðum notum, METÚSALEM. Hann hafði einmitt notað millinafnið sitt áður þegar hann sendi inn lag og texta í dægurlagakeppni Félags íslenskra dægurlagahöfunda (FÍD) í Þórskaffi 1958. Hann samdi þá lagið Óskastund undir eigin nafni en virðist eitthvað hafa verið feiminn að upplýsa að textinn væri eftir hann sjálfan. Metúsalem er því alltaf skráður fyrir textanum af þessum fjörlega tango. Lagið fékk 2. verðlaun í nýju dönsunum í keppninni árið 1958. Á disknum Hittumst heil sem fjölskyldan gaf út árið 2001 með lögum pabba fékk Óskastund að hljóma í flutningi Agnesar Kristjónsdóttur, Hörpu Harðardóttur og Ágústu Sigrúnar.
Lagið Næturvals fékk svo enn stærra hlutverk á diski sem ég gaf gaf út árið 2015. Lagið er þar í nýrri úsetningu og undir nýju nafni, Stjörnubjart sem jafnframt varð heitið á disknum, textinn óbreyttur.
Haraldur V. Sveinbjörnsson stjórnaði upptökum og spilaði á gítar og hljómborð og Ágústa Sigrún syngur. Kjartan Guðnason, klukkuspil. Þórir Jóhannsson, kontrabassi. Strengjakvartettinn skipuðu þær: Una Sveinbjarnardóttir; Pálína Árnadóttir; Guðrún Hrund Harðardóttir og Margrét Árnadóttir
Textarnir í þessum lögum eiga það sammerkt að í þeim brennur þrá og eftirsjá, ýmist til æskustöðvanna eða til horfinnar ástar.
ÓSKASTUND
tango
Lag: Ágúst Pétursson
Texti: Metusalem
Ef óskastund ætti ég efa ei það,
á æfileið minni yrði brotið á blað
því bágt er að kenna sér fjötur um fót,
ég fram vil til sigurs og lífinu mót.
Í huga mér brennur hið alkunna bál,
sem bindur við æskustöðvar sérhverja sál.
Ó, óskastund, óskastund hald mér í hönd,
og mig heim leið að vori er sól vermir lönd.
Hlaut 2.verðlaun í nýju dönsunum í dægurlagakeppni FÍD í Þórskaffi 1958
STJÖRNUBJART (formerly known as Næturvals)
brúðarvals
Lag: Ágúst Pétursson
Texti: Hörður Sigurðarson
Man ég milda nótt
er máni skein og allt var hljótt
leit ég ástin mín
ljúfu augun þín.
Man ég mína þrá
á meðan hvíldi ég þér hjá
myrkrið var sem höfugt vín.
Nótt sem leyndi okkar stund
og nærði ástarfund
á örskotsstundu leið sitt skeið.
Nótt sem dúnn var dimma þín
óf máni silfurlín
á sinni himinleið.
Haust nú gengur hjá
er horfinn burt þú ert mér frá
mega andar tveir
unnast aldrei meir.
Kvelur spurningin
ó, hví ei framar vinur minn
ég fæ að líta svipinn þinn.
Lagið komst í úrslit danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks árið 2002
Comentários