top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Njósnarósir

Updated: Jan 24, 2022

Hafið þið einhvern tímann velt fyrir ykkur hvers vegna rósum er oft plantað við endann á lengjum af vínviðarplöntum sem liggja lárétt í landslaginu eins og reglustika?


Rósirnar gegna mikilvægu hlutverki og þær bera alveg sérstakt nafn, eða njósnaplanta (it. pianta spia).


Ástæðan er sú að ef einhver óværa tekur sér bólfestu í jarðveginum eða sest á plönturnar á vínekrunum sýna rósirnar fyrst merki um að eitthvað sé að. Rósirnar finna fyrst fyrir sársaukanum af árás sníkjudýra, sjúkdóma og jafnvel skorti á steinefnum í jarðveginum.


Þetta hjálpar vínbændunum að grípa inn í tímanlega áður en vandamálið breiðist út og eyðileggur uppskeruna.


Algengast er að sjá gular eða ljósleitar rósir við enda á vínviðarlengjum þar sem græn vínber vaxa og rauðleitar rósir þar sem dökkum vínberjum er plantað.


Þróun í landbúnaði og vínrækt hefur samt gert þetta hlutverk rósarinnar óþarft. Þessi siður er samt enn mjög útbreiddur, sérstaklega hjá vínbóndum sem að vilja heiðra aldagamar hefðir og vernda náttúrulega hringrás vistkerfisins. Í dag er þessi þáttur fagurfræðilegur frekar hagnýtur en samt vinsæll hjá þeim sem eru með lífræna ræktun á vínberjum.


Hér áður fyrr, þá sérstaklega í Frakklandi, gegndi rósin auk þess því hlutverki að gefa merki um hvar vínviðarlengjurnar enduðu. Þetta var gagnlegt fyrir hestana sem drógu kerrurnar sem vínberin voru sett í og gaf til kynna hvernig þeir ættu að staðsetja sig til að skaða ekki dýrmæta uppskeruna.


Rósin er því bæði falleg og nytsamleg planta. Ekki skaðar að hafa rósailm í loftinu þegar gengið erum vínræktarsvæðið til að dytta að og fylgjast með uppskerunni.


Ilmur af rósum og væn uppskera af vínberjum hlýtur að vera sena í einhverri fallegri ástarsögu. Ef ekki, þá er kominn tími til að skrifa hana. Hver býður sig fram?


Skrifað fyrir Colletto Vínklúbbinn

Áður birt á Facebook síðu klúbbsins 19.4.2021




Related Posts

See All
bottom of page