top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Maria Callas og Angelina Jolie

Updated: Jun 21, 2023

Þar kom að því. Bíómynd um ævi Cecilia Sophia Anna Maria Kalogeropoulus eða Maria Callas er á leiðinni,


Ég er ekki frá því að það hafi tekist vel til með að velja leikkonuna sem túlkar Mariu, en ég velti fyrir mér hver muni syngja Mariu, því það verður ekki auðvelt að tileinka sér gullbarkann hennar Mariu.


Fædd 2. desember 1923 í New York – dáin 16. september 1977 í París.


Leikstjóri er Pablo Larraín sem gerði myndina Spencer um Diönu prinsessu. Hann gerði líka mynd um Jacqueline Kennedy Onassis sem var eiginkona Aristoteles Onassis. Þar er skýr tenging, því Maria átti í ástarsambandi við Onassis áður en hann gifist Jacky.


Maria Callas var bandarísk, fædd á Manhattan en af grískum ættum innflytjenda. Hún lærði óperusöng í Grikklandi frá 13 ára aldri.


Tenging Mariu Callas við Ítalíu, þá sérstaklega Verona, Arenuna og Sirmione við Gardavatn er mjög sterk. Hún sló í raun ekki í gegn fyrr en hún flutti til Ítalíu. Hún debúteraði í Arenunni í ágúst 1947, í óperunni La Gioconda eftir Amilcare Ponchielli. Hljómsveitarstjóri var Tullio Serafin. Næstu tvö ár söng hún víða um Ítalíu en sló ekki í gegn fyrr en sami hljómsveitarstjóri bað hana um að bjarga sér og taka að sér hlutverkt Elviru í I Puritani í óperuhúsinu La Fenice í Feneyjum. Aðalsöngkonan, Margherita Carosio, hafði forfallast. Hún afþakkaði það fyrst í stað og sagðist ekki geta það, enda var hún að syngja Brynhildi í Valkyrjunni eftir Wagner á sama tíma. Hljómsveitarstjórinn sagði henni að hún gæti þetta alveg og Maria lærði hlutverkið á 6 dögum. Hún sló algerlega í gegn og þar með hófst frægðarferill hennar.


Maria glímdi við ýmis vandamál í lífinu og hneykslismál í einkalífinu. Hún átti í harðri samkeppni við ítölsku óperusöngkonuna Renata Tebaldi og þær skutu föstum skotum hver á aðra. Hún á einu sinni að hafa sagt að reyna að bera saman raddir þeirra væri eins og að bera saman kampavín og Coca-Cola. Hún glímdi við offitu um tíma en tók sig til og grenntist á ljóshraða og varð eftir það eftirsótt af frægustu tískuhönnuðum heims sem báru í hana föt til að skarta. Hún var líka mjög nærsýn, sá nánast ekki neitt þegar hún var á sviði.


En hennar persónulega líf var líklega skrautlegra og dramatískara en söguþráður í flestum óperum sem hún söng í. Eftir erfiða æsku og stormasamt fyrsta hjónaband við viðskiptajöfurinn Giovanni Battista Meneghini, sem hún sakaði um að hafa stolið frá sér - hóf Callas áratuga langt samband við Aristoteles Onassis sem á endanum yfirgaf hana fyrir Jacky.


Það eru margar sögusagnir varðandi heilsubrest sem hún glímdi við og dró hana til dauða, einungis 53 ára að aldri. Þá var hún hætt að syngja fyrir þó nokkru, hafði misst röddina. Sagt er að hún hafi þjáðst af einhverjum tauga-/vöðvasjúkdómi en líka var talað um að hjartaáfall hafi verið dánarmein. Ástarsorg og nokkur fósturlát hafa ekki aukið lífsviljann hjá henni. Talað var um að hún hefði verið eyðilögð eftir að Onassis yfirgaf hana.


Þegar komið er til Sirmione er gaman að ganga fram hjá húsinu sem hún bjó í og var hennar afdrep á milli tarna. Hún dvaldi þar oft til að hlaða batteríin.


Það verður fróðlegt að sjá hvernig myndin mun nálgast þetta, en mér skilst að mest verði fjallað um síðustu ár Maestru, Mariu Callas.


Angelina á að hafa sagt þegar tilkynnt var að hún hefði tekið að sér hlutverkið:

“I take very seriously the responsibility to Maria’s life and legacy. I will give all I can to meet the challenge,”

Related Posts

See All

Comments


bottom of page