top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Hver er munurinn á Osteria, Trattoria og Ristorante?

Updated: Aug 7, 2023

er ég oft spurð af farþegum.


Satt best að segja hefur merkingarmunurinn á þessum þremur aðlaðandi orðum minnkað með árunum.


Það er heldur ekki sjálfgefið að þýða þessi þrjú heiti á íslensku. Við myndum líklega kalla alla þessa staði einu nafni, veitingastað.


Kannski væri hægt að gera greinarmun með þessum hætti

  • Trattoria = matsölustaður

  • Osteria = krá, knæpa eða greiðasölustaður

  • Ristorante = veitingastaður

Þumalputtaregla:
Trattoria er staður sem maður fer á til að fá sér að borða og drekka smá, á meðan að Osteria er staðurinn sem þú ferð til að fá þér að drekka og smá að borða. Það er því meiri áhersla á mat á Trattoria heldur en á Osteria.

Á árunum 1840 og 1880 fóru matsölustaðir (trattoríur) og veitingastaðir (ristorante) að gera sig meira gildandi á Ítalíu, í beinni samkeppni við krárnar (osteríur). Ólíkt osteríum voru trattoríur og ristorante veitingastaðir ÁN gistirýmis en venjulega buðu osteríur upp gistingu og greiðasölu fyrir ferðalanga og maturinn var lágt verðlagður.


Nú eru mörkin orðin frekar óskýr. Margar trattoríur hafa tileinkað sér svipaðan stíl og veitingastaðir (ristorante), jafnvel stjörnum prýdda matreiðslu, en upphaflega voru trattoríur það sem næst kemst skilgrieningu á skyndibitastað.


Trattoria

Þetta er hefðbundinn, heimilislegur matsölustaður, oftast í fjölskyldueigu. Mjög oft eldar mamma eða pabbi, jafnvel afi eða amma. Innréttingarnar eru oftast mjög einfaldar, líta út fyrir að vera gamlar og sögulegar jafnvel. Verð er oft mun lægra en á ristorante. Matseðillinn er oftast hefðbundinn og áhersla lögð á staðbundna matargerð, rétti og uppskriftir sem eru klassískir.


Í Lucca er veitingastaður sem heitir Trattoria Gigi sem svo sannarlega er hægt að mæla með. Heimilislegra gerist það varla. TIl dæmis kemur hann Giovanni að borða þar á hverju kvöldið og eigandinn hefur boðið honum að verða eitt af húsgögnunum. Hérna útskýrir eigandinn að hann heiti alls ekki Gigi heldur Carmine, en þar sem nafnið á veitingastaðnum var orðið svo þekkt þegar hann tók við, ákváðu þau að breyta því ekki.




Osteria

Þetta er krá eða knæpa sem hefur þróast yfir í það að bjóða upp á einfaldar málsverði. Matseðillinn er oft skrifaður á töflu eða á blað og getur verið breytilegur frá degi til dags. í samræmi við það sem er í boði úr sjónum eða á markaðnum.


Oftast er um að ræða tvo eða þrá rétti á föstu verði, þar á meðal vín. Reksturinn er oftast í fjölskyldueigu og ekki sálfgefið að það séu lærðir kokkar eða þjónar á staðnum.


Í gamla daga kom fólk oft með mat með sér á osteríurnar til að borða á meðan þau dreyptu á glasi af góðu víni.




Í Verona er veitingastaður sem jafnan er sagt að sé sá elsti í borginni, Osteria Sottoriva. Liklega svo gamall að þau eru hvorki með Facebook síðu né heimasíðu. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir. Heimilisfangið er: Via Sottoriva, 9/a, 37121 Verona VR, Italy



Ristorante

Við þekkjum flest okkar hvað Ristorante er. Á veitingastöður sem kalla sig ristorante starfa oftast þjónar, kokkar og vínþjónar sem er reynslumikið fagfólk og þekkja siði og venjur í matreiðslu og þjónustu. Matseðill er oftast à la carte, prentaður og með föstu verði. Reikningurinn getur líka verið hærri en annars staðar. Hins vegar skaltu ekki búast við því að maturinn sé endilega betri eða eftirminnilegri.


Enoteca var upprunalega vínsölustaðir, líklega líkast krám, en með meiri áherslu á vín. Þar var jafnvel hægt að koma með eigin flöskur og fá fyllt á þær. Enótekur bjóða í dag oftast upp á eitthvað að maula með vínglasinu sem þú færð þér. Þar er líka mikið lagt upp úr vínúrvali og hægt að fara í vínsmökkun.


Svo eru Ítalir farnir að nota kunnuleg nöfn eins og Bistrot og æ oftar sér maður matsölustaði sem heita Locanda. Nafnið locanda kemur úr latínu og þýðir staður eða staðsetning og það eru upprunalega gististaður. Í dag oftastveitingastaður, jafnvel lítið hótel. Bistrot er eftir sem áður lítill staður, kannski með mjög fáum borðum, getur bæði verið vínstaður eða veitingastaður og er einskonar skyndibitastaður, ekki endilega hugsaður til að setjast niður og njóta kvöldlangt.


Svo eru fleiri staðir sem selja mat, s.s. Rosticceria þar sem seldur er tilbúinn matur sem þú þarft bara að hita þegar heim kemur, eða borða kaldan.


Já, það er ekki einfalt að lesa í tegundarheitin lengur en vonandi hjálpar þessi pistill eitthvað til með það.


Buon appetito!











Related Posts

See All
bottom of page