Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur, er gleðin skín á vonarhýrri brá? Eins og á vori laufi skrýðist lundur, lifnar og glæðist hugarkætin þá. Og meðan þrúgna gullnu tárin glóa og guðaveigar lífga sálaryl, þá er það víst, að beztu blómin gróa í brjóstum, sem að geta fundið til.
Guðaveigar koma í raun fyrst fram í vísunni „Hvað er svo glatt.“ Það virðist hafa verið óþrjótandi orðabrunnurinn sem Jónas Hallgrímsson sótt í. Auk kveðskaparins þá var Jónas orðasmiður og í þessar einu ljóðlínu koma fram tvö nýyrði, guðaveigar og sálarylur. Máltilfinning hans og næmi fyrir blæbrigðum tungunnar var einstök og mörg þessara orða hafa munstrast vel inn í tungumálið. Ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins.
Í dag eigum við orð eins og sporbaugur, miðflóttaafl, klakabundinn, fjaðurmagnaður, láréttur, hrímvhítur auk hins undurfagra orðs sálarylur sem guðaveigarnar lífga. Á tíu þúsund króna seðlinum sem tileinkaður er Jónasi eru ýmis nýyrði hans sem mynda Háafjall og Hraundranga.
En hvernig tengjast guðaveigarnar Guði?
Margt bendir til þess að Jónas hafi verið með tilvísun í nectar, sem var guðdómlegur drykkur í grískri/rómverski goðfræði sem goðin á Ólympusfjalli drukku til að viðhalda sínu eilífa lífi. Ef mennskur maður fékk sér sopa varð hann líka ódauðlegur. Nectar var oftast vökvinn á meðan Ambrosia var maturinn eða fæðan en það er ekki óalgengt að því sé víxlað.
Málverk af hertogaynjunni Louise-Henriette de Bourbon-Conti (1726-1759), Duchess de Chartres, asem Heba. Málað af Jean-Marc Nattier og nemendum (1685-1766)
Í Hómerskviðum þýðir Sveinbjörn Egilsson orðið nectar sem ódáinsdrykk.
Á 16. öld verður merkingin almennari og nectar er notað um hvaða dýrindisdrykk sem er.
Þegar við tölum um guðaveigar í dag, erum við oftast að hugsa um gott vín eða hollan og næringarríkan drykk sem bragðlaukarnir gleðjast yfir. Stundum dugar okkur að hugsa um uppáhalds vínið okkar og þá mæta bragðlaukarnir til vinnu.
Bragðlaukar, ætli Jónas hafi líka smíðað það orð?
Skrifað fyrir Colletto Vínklúbbinn
Áður birt á Facebook síðu klúbbsins 6.6.2021
Comments