top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

„Helvítis tjakkurinn!“

Updated: Jan 19, 2022

Bílstjóri nokkur var á ferð um afskekktan veg þegar sprakk á einu dekki bílsins og ekki annað að gera en skipta um dekk. Þegar hann ætlaði að grípa til tjakksins var hann ekki á sínum stað. Og nú voru góð ráð dýr. Hann svipaðist um og sá að nokkuð fjær var bóndabær. Þess fullviss að þar fengi hann tjakk lánaðan hélt hann því af stað. Hann sér fyrir sér hlýjar móttökur og verða boðinn velkominn af hinni alkunnu sveitagestrisni.


Á göngunni fer efinn smám saman að sá fræjum í huga hans. Hvað ef ekki fyndist tjakkur sem passaði undir bílinn? Hvað ef enginn væri heima? Hvað ef bóndinn myndi fara fram á greiðslu fyrir lánið? Hvað ef bóndinn myndi neita að lána honum tjakk?


Nú var heldur betur farið að sjóða á bílstjóranum og hann herti gönguna. Hann bankaði á útidyrnar á bænum og hvæsti þegar bóndinn opnaði í blásakleysi: „Þú getur sko átt þennan helvítis tjakk sjálfur.” Að svo búnu snýr okkar maður sér á hæl og rýkur burt í fússi, tjakklaus.


Það er áhugavert að velta fyrir sér því sem gerðist í kollinum á bílstjóranum þann tíma sem tók hann að ganga upp að bóndabænum. Það er hæglega hægt að heimfæra það á það sem við gerum líklega sjálf á hverjum degi. Að mikla fyrir okkur hlutina sem verður til þess að við framkvæmum ekki.


Í þessu tilviki stendur bílstjórinn frammi fyrir vandamáli eða áskorun og hann veit lausnina alveg frá upphafi. Þá gerist eitthvað í kollinum á honum og hann flækir sig í hugsanaferli sem engin leið er út úr. Hann miklar þetta einfalda verkefni svo fyrir sér, býr sífellt til hærri og ókleifari hindrun sem endar með því að hann hafnar fyrirfram hjálpinni sem í boði er.


Er þetta eitthvað sem við könnumst við úr raunveruleikanum? Ákvarðanir teknar sem aldrei komast út úr kollinum á okkur og setjast þar að og trufla okkur á hverjum degi. Því meira sem við hugsum um það sem okkur langar að gera þrjóskast “bílstjórinn” í kollinum á okkur meira við, neitar að sjá útgönguleiðina og veginn fram á við. Hann situr sem fastur.


Vafalaust finna flestir sína leið út úr svona völundarhúsi, en það eru alltaf verkefni sem okkur dreymir um að koma í framkvæmd og höfum kannski frestað allt of lengi.

Markþjálfi er sá aðili sem fær þig til að kalla fram lausnirnar sjálfur og er svo þinn helsti hvatamaður að koma þeim í framkvæmd. Það er gagnlegt að fara í markþjálfun til að koma sér af stað og taka strikið framhjá botngötum. Þegar það verður ljón á veginum getur markþjálfinn aðstoðað við að komast framhjá svo hægt sé að halda ótrauð áfram. Þegar við verðum bensínlaus eða orkulaus getur markþjálfinn aðstoðað við að skerpa á aðalatriðinum þannig að kjarnorkan virkist á ný.


Lausnin er samt alltaf eign markþegans, þess sem sækir sér tíma hjá markþjálfa. Með því að koma okkar eigin lausnum í orð og í framkvæmd eru líkurnar yfirgnævandi á að við náum markmiðum okkar og þurfum ekki einu sinni á tjakk að halda.

138 views0 comments

Related Posts

See All

Comentarios


bottom of page