top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Feneyjalón & Jökulsárlón

Updated: Apr 3, 2022

Áskoranirnar eru fjölmargar þegar kemur að því að vernda búsetu og menningarverðmæti í Feneyjalóninu. Oft finnst manni að skilning skorti og að ráðamenn fljóti sofandi að feygðarósi. Flott samlíking, ekki satt 😃


Það voru því góðar fréttir þegar loksins var ákveðið að úthýsa, (...eða segir maður útskipa, af því það eru skip en ekki hús?) skemmtiferðaskipum úr lóninu, eða þannig leit það út. UNESCO hafði hótað að setja Feneyjar á lista yfir "borgir" í útrýmingarhættu. Í blásakleysi mínu hélt ég að þarna hefði pressan sem UNESCO setti á ríkisstjórn Ítalíu um að bregðast við þessu vandamáli, virkað.


Það hefur jú oft legið við stórslysi. Þann 2. júní 2019 sigldi stórt skemmtiferðaskip frá MSC Cruises inn í Giudecca eyjuna og inni í flaum af fólki sem reyndi að forða sér af landgangi sem lá út í ferðamannabátinn Michelangelo. Þetta var svona eins og atriði úr bíómynd eins og þið sjáið á þessu myndskeiði á Twitter. Fleiri slys hafa nær orðið en sjónmengunin er meiri.


Þann 1. ágúst 2021 tóku þessar nýjur reglur gildi sem við fyrstu sýn virðast vera mikil bragarbót en eru í raun hvorki fugl né fiskur auk þess sem reglurnar taka virka fyrst þegar búið er að byggja hafnaraðstöðu fyrir skipin annars staðar. Þeir sem reiðastir eru gefa í skin að reglurnar séu yfirvarp og taka muni mörg ár að klára framkvæmdir.


Samtökin No Grandi Navi settu í gang mótmæli þegar fyrsta skemmtiferðaskipið kom aftur eftir kófið.


Þegar hægt verður að framfylgja reglunum verður sem sagt ennþá í himnalagi að sigla stórum skemmtiferðaskipu inn í lónið en þau fara nú í gegnum annað "op" á lóninu þar sem olíuskipin sigla í gegn og það verður stækkað enn frekar. Þau leggjast að höfn í Porto Marghera sem þýðir heilmikil uppbygging á aðstöðu þar. Farþegarnir þurfa svo auðvitað að komast til Feneyja með einhverjum hætti, siglandi með smærri skipum sem auka umferðina enn meira.


Svo virðist sem eini ávinningurinn sé að skipin sigli ekki lengur framhjá Markúsartorgi og borginni sjálfri en komi inn bakdyramegin með tilheyrandi mengun og sama fjölda ferðamanna.


Auk þess gilda nýju reglurnar bara um stærstu skipin, þau sem eru meira en 25.000 tonn og/eða eru lengri en 180 metrar og/eða eru hærri en 35 metra há og/eða framleiða meira en 0,1% af brennisteini. Minni skip mega eftir sem áður leggjast að bryggju næst Feneyjum. Og ekki nóg með það heldur verða yfirvöld að greiða ferðaskipuleggjundum sem þurfa að breyta ferðaáætlunum sínum skaðabætur upp á 157.000.000 evra sem mér reiknast til að séu um 24 milljarðar í íslenskum.


Hagkerfið í lóninu er viðkvæmt, bæði það fjárhagslega og lífræna. Þessir 550 km2 eru heimkynni hundruða fugla og fiska. Þeir allra svartsýnustu staðhæfa að umhverfisáhrifin með þessari breytingu verði í raun enn meiri en þau eru í dag út af raskinu og þeirri staðreynd að skipin muni halda áfram að menga, bara annars staðar. Í kófinu komu auðvitað engin skemmtiferðaskip og Feneyjalungun fóru aftur að anda eðlilega. Síkin urðu hreinni og höfrungar sáust í fyrsta skipti í langan tíma.


Fjárhagslega hagkerfið snýst auðvitað um tekjur af ferðamönnum sem skipafélögin koma með en jafnvægið er viðkvæmt því algengustu ferðamennirnar sem koma inn til eyjanna eru þeir sem koma í "dagvistun", þ.e. koma og fara á sama degi sem kallað hefur ferið "hit and run". Þeir nýta hvorki gistingu eða veitingastaði að ráði. Samhliða þessum nýju reglum mun verða settur á ferðamannaskattur fyrir ferðamenn sem koma í dagsferðir til Feneyja. Skatturinn fellur niður ef ferðamaður getur sýnt fram á bókun á gistingu í Feneyjum í a.m.k. eina nótt. Hvenær þetta tekur gildi er ekki vitað, það hefur frestast og frestast.


Eins og við vitum mæta vel frá heimsóknum skemmtiferðaskipa til Íslands þá eru vélarnar í gangi allan sólarhringinn og brenna olíu. Það var því gleðiðlegt að heyra viðtal í í fréttunum um daginn að Faxaflóahafnir stefna að því að ljúka uppbyggingu fyrir raftengingu farþegaskipa í höfnum allra hafna fyrirtækisins innan fimm ára. Þannig verður dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og loftgæði almennt bætt í Reykjavíkurborg.


Le Bellot
Mynd: Kári Jónasson

Skemmtiferðaskipið Le Bellot, sem var annað skemmtiferðaskipið sem kom til Íslands sumarið 2020, festi akkeri úti fyrir Jökulsárlóni í hádeginu þann 18. júlí sl. og stoppaði þar í eina þrjár klukkustundir. Bæjarstjórinn á Höfn, Matthildur Ásmundardóttir sagði að þau hafi ekki haft hugmyndaflug í að þetta gæti gerst. "Ástæða er að horfa til svipaðra aðgerða og farið var í á Hornströndum varðandi landkomu skipa við Breiðamerkursand". sagði Matthildur Ásmundardóttir.


Ekki ósvipað mál komu upp á Hornströndum 2018, en þá var systurskip þess fyrrnefnda, skemmtiferðaskipið Le Boreal, eitt þeirra skipa sem sendu farþega með bátum upp í friðlandið. Engar reglur voru þá um slíkt á Hornströndum. Tæpu ári síðar tók gildi stjórnar- og verndaráætlun fyrir friðlandið þar sem gert var ráð fyrir stærðartakmörkunum skipa sem taka þar land, auk þess sem hópastærðir voru takmarkaðar við 30 manns.


Nú gætu lesendur haldið að pistlahöfundur sé alfarið á móti ferðalögum með skemmtiferðaskipum. Svar mitt er: Ég held að það sé hægt að gera mun betur. Ég hvet þá sem hafa áhuga á að prófa þennan ferðamáta að horfa í kolefnisfótsporið og velja sér ferðaskipuleggjendur sem styðja við staðbundna ferðamennsku, nýta þjónustu á viðkomustöðum og gera vel í mengunarvörnum.


Frekari upplýsingar - séð frá báðum hliðum






Related Posts

See All
bottom of page