top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Ertu eftirsóttur starfskraftur?

Updated: Jan 24, 2022

Kófið hefur svo sannarlega fært okkur mannauðsráðgjöfum áskoranir. Á sama tíma og verið er að segja upp meirihluta starfsmanna á sumum vinnustöðum þarf að gæta þess að það verði ekki spekileki og að þekkingin og reynslan gangi ekki út um dyrnar. Vanlíðan, óvissa og áhyggjur eru allt umlykjandi. Ef hægt væri að kaupa æðruleysi í töfluformi, væri það fín leið til að komast í gegnum þennan skafl, en það er ekki svo einfalt.


Það er gott að styðjast við rannsóknir og kannanir á líðan fólks og hvernig við getum beitt okkur til að styðja við fólk á þessum tímum sem veit minna en ekkert um það sem gerist næst. Virk hlustun er gjöf sem stjórnendur ættu að eiga til á lager, að gefa fólki tíma til að hugsa upphátt og losa um.


En það mun birta til og þá er það verðugt verkefni að setja saman starfslið sem er tilbúið í breytingar og þær áskoranir sem óvissan framkallar. Mun sú færni sem sóst er eftir verða eitthvað ólík því sem var fyrir fárið? Jú, það er margt sem bendir til þess.


Ljóst er að "soft skills" eða mjúkir hæfniþættir er það sem sett er forgang og hefur aukið vægi í ráðningum um þessar mundir.

Þessi grein fjallar um þá hæfniþætti sem algengastir eru í dag, þegar verið er að auglýsa eftir starfsfólki til starfa. LinkedIn gerði greiningu á milljónum starfa til að sjá hvort það væri breyting á þeirri færni sem verið væri að leita að á vinnumarkaði. Í greininni segir að 305 milljónir starfa hafi tapast á heimsvísu síðan COVID-19 skall á. Sú tala er byggð á tölum frá ILO (International Labour Organisation). Á sama tíma eru vísbendingar um að fjöldi ráðninga sé að aukast á sumum svæðum.


Samskiptafærni og lausn vandamála eru tveir efstu hæfniþættirnir skv. greiningu LinkedIn.


Samskiptastíllinn þarf að skila sér í skrifuðu máli og í samskiptum í gegnum miðla eins og Teams og Zoom, ekki síður en í "venjulegum" samskiptum. Það er kallað “digital body language”. Þeir sem stýra ráðningum vilja komast að því hvort umsækjendur nái fram sömu hughrifum í gegnum tölvupósta og textaskilaboð. Það þarf að vera samleitni í samskiptum, óháð því hvernig þau eiga sér stað.


Fyrirtæki hafa líka þurft að vera lausnamiðuð, starfsmenn vera úrræðagóðir og sýna hugmyndaauðgi við lausn vandamála undir pressu og á skala sem ekki var áður þekktur. Vinnuveitendur hafa komist að því að slík hæfni ætti að vera staðalbúnaður og vilja búa sig undir framtíðina með starfslið sem býr yfir þessari hæfni.


En hvað felst í hæfni til að leysa vandamál? Það sem algengt er að falli undir það er: rökhugsun, sköpunargleði, seigla, ímyndunarafl, víðsýni og ákveðni. Algerlega fullkomin blanda, ekki satt?


Ég sem mannaðusráðgjafi og markþjálfi fagna þessum nýju mjúku hæfniþáttum sem tróna á toppi vinsældarlistans. Nú er tækifæri til að fara að mýkja sig upp, pússa þessi hæfniþætti og uppfæra ferilskrána sína.


Hittumst heil.

Related Posts

See All

Comments


bottom of page