top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Endurfundir við Garda

Updated: Mar 21, 2022

Mér finnst fornleifauppgröftur svo spennandi fyrirbæri, jafnvel meira spennandi en eldgos. Það má segja að hægt hafi verið að horfa á „fornleifar í beinni“ frá Gardasvæðinu að undanförnu en þar hafa orðið miklir endurfundir nýverið.


Svæðið sem um ræðir eru vínekrur í Valpolicella dalnum í bæ sem heitir Negrar. Flykkið sem fannst var hvorki meira né minna en eitt stykki rómversk villa og jafnvel nærliggjandi hús (pars rustica).


Fyrir utan það að þarna er um 2000 ára gamla rómverska villu að ræða, þá þykir merkilegt að gifsbútar hafi varðveist og mósaik gólfið þykir einkar skrautlegt og hafa varðveist vel. Eins hefur komið í ljós að svæðið þar sem fornminjar er að finna er mun stærra en upphaflega var skráð.


Villan fannst fyrir tilviljun árið 1887, en ekki var mikið gert með þann fund. Það var ekki fyrr en árið 1922 að staðurinn var í raun grafinn upp en ekki í heild sinni. Núverandi rannsóknir eru að uppgötva mikið af nýjum fornleifum ásamt því að eiga endurfund við 1922 uppgröftinn. Þá fundust markverðir hlutir og góður partur af mósaíklögðu gólfi var selfluttur á fornminjasafnið í Verona. Það var aðferð þess tíma en núna þykir faglegra að varðveita slíkt á þeim stað sem þeir finnast. Fyrir 99 árum var sem sagt lagður dúkur yfir svæðið sem grafið var upp, svo jarðvegur þar ofan á og haldið áfram að rækta vínvið á fundarstaðnum, eins og ekkert hefði í skorist. Síðan komu tvær heimsstyrjaldir eða svo en Covid-19 hefur hleypt lífi í samvinnu varðandi uppgröft, endurfundi og framkvæmdir á svæðinu.


Verkefnið er vandasamt, þar sem nokkrir vínræktarbændur og eigendur jarðanna þurfa að gefa leyfi fyrir að fjarlægja dýrmætt svæði til vínræktar. Jafnframt þurfa þeir og allskonar yfirvöld að koma sé saman um hvernig staðið skuli að því að varðveita minjarnar. Svo virðist sem það sé mikill einhugur í öllum þeim sem koma að þessu verkefni að láta það ganga vel og gera sögu og arfleifð Rómverja á svæðinu góð skil.


Franchini feðgarnir og Benedetti bræðurnir eru algerlega 100% samstíga um að skapa sér sína eigin arfleið með því að gefa hluta jarða sinna til að þarna megi varpa ljósi á fortíðina. Að þessu sinni verða fornminjarnar ekki fjarlægðar en fá að eiga heima á sínum upprunastað. Rætt er um að búa til einhverskonar safn, eða í það minnsta að búa svo um að hægt sé að heimsækja svæðið, nota ímyndunaraflið og auðvitað dreypa á góðu glasi af Amarone. Þá fá jarðeigendur vonandi eitthvað aftur fyrir sinn snúð.


Önnur þekkt villa er skammt frá, í Sirmione, staðsett á einum fallegast stað við vatnið, Grotte di Catullo. Þeir sem rölta um Sirmone bæinn ættu ekki að missa af því að fara alveg út á tangann og skoða Catullo villuna. Hún er einstök svo ekki sé meira sagt.


Hér er meiri upplýsingar og nokkur myndbönd fyrir áhugasama


212 views0 comments

Related Posts

See All
bottom of page