top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Eigin mörk og staðlar

Updated: Jan 24, 2022

Ég sótti kúrs nýlega hjá Coach University sem er partur af minni endurmenntun sem markþjálfi. Ég get með sanni sagt að þetta sé einn þeirra kúrsa sem á eftir að nýtast mér um aldur og æfi. Eiginlega gjöf sem gefur. Kjarnorkukúrs. Innihaldið svo ótrúlega einfalt og sjálfgefið en svo erfitt í framkvæmd.


En út á hvað gengur þetta?

Oftast skilgreinum við mörk og staðla sem einn og sama hlutinn: mörk. En þessi nýja nálgun skiptir áður þekktum mörkum upp í mörk (boundaries) og staðla (standards). Mörkin verja okkur, ramma inn garðinn okkar, þangað sem enginn má fara inn á skítugum skónum. Staðlarnir erum við sjálf, hver við erum og hvað við stöndum fyrir. Garðyrkjustjórinn.


Talað er um að setja mörk sem skilgreina það sem aðrir geta ekki gert manni eða í kringum mann. Mörkin eru varnarþing, girðingin í kringum garðinn okkar. „Nei, þú getur ekki verið dónalegur við mig.“ „Nei, þú getur ekki hunsað mig.“ „Nei, þú getur ekki hent þessu verkefni yfir á mig.“


Staðlar eru það sem þú gerir (og að einhverju leyti það sem þú munt ekki gera). Staðlar eru hegðun og gjörðir sem þú fylgir náttúrulega og endurspeglast í þínum heilindum. Staðlar eru eigin gæðaviðmið! „Já, ég fer vel með aðra.“ „Já, ég er heiðarlegur.“ „Já, ég tileinka mér hratt nýja þekkingu.“


Með því að gera þennan greinarmun á mörkum og stöðlum lærum við meira um okkur sjálf og skiljum betur hlutverkið sem við gegnum og hlutverkið sem aðrir spila í lífi okkar. Ef við kölluðum allt mörk, þá myndi þetta allt snúast um að vera í nei-inu - allt um sjálfsvörn. Hvernig við vinnum með mörk og staðla er svo æfing í lífsleikni. Vinnan gengur út á að styrkja/lengja mörkin og hækka/bæta staðlana.


Mörkin eru mikilvæg vegna þess að við mennirnir erum í grunninn dýr með eðlislæga þörf fyrir að lifa af. Mörk veita okkur öryggi frá ógn, raunverulegri eða ímyndaðri. Staðlar eru mannlega eðli okkar, sem gefur okkur mannfólkinu tækifæri til að verða FRÁBÆR, þróast í okkar besta sjálf og geta þannig notið lífsins til fullnustu.


Hittumst heil.

Related Posts

See All

Σχόλια


bottom of page