top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

„Allan daginn hugsa ég um að gera vel“

Updated: Jun 11, 2022

voru einkunnarorði Buonvisi aðalsættarinnar. Heimildir segja að ákveðinn Buonviso di Corrado hafi verið forfaðir ættarinnar. Hann var uppi á tíundu öld.

Buonvisi höllin í Ghivizzano

Nafnið þróaðist í Buonvisi og varð ættin ein af áhrifamestu og valdamestu ættum í Lucca allt frá því á miðöldum. Þau voru þekkt um alla Evrópu fyrir bankastarfsemi og lánsviðskipti. Ættarveldið átti velgengni sína að þakka viðskiptum með silki og umfang viðskiptanna teygði sig yfir Atlantshafið, með hinum nýfundnu" löndum en einnig út um alla Ítalíu, til Spánar, Flandern og Bretlands. Þau urðu á skömmum tíma ríkasta fjölskyldan í Lucca.


Viðskiptaveldi og virðing ættarinnar óx jafnt og þétt og höfðu þau pólitísk ítök en einnig innan kirkjunnar þar sem þrír fjölskyldumeðlimir urðu kardinálar. Þekktastur þeirra var Francesco Buonvisi, fæddur 1626 sem var skipaður kardináli af Innocent XI páfa árið 1681 og varð svo biskup í Lucca árið 1690 og er grafinn í fjölskyldugrafreitnum í San Frediano kirkjunni í Lucca.


Flestar heimildir herma að ættin hafi dáið út árið 1800 þegar ættfaðirinn Francesco Gerolamo Buonvisi lést. Hins vegar eru afkomendur Buonvisi ennþá á lífi, svo það virðist sem keðjan hafi ekki alveg slitnað. Alltént er Francesca, eigandi Palazzo Buonvisi, afkomandi eins ættbogans. Þökk sé greifanum Pompeo Pisano sem flæmdist frá Feneyjum árið 1705 til Lucca vegna ágreinings við ríkjandi stjórnvöld þar. Hann gifist dóttur Paolo Buonvisi þeirri sem var næstelst í systkinahópnum. Með þessu hjónabandi hríslaðist ættartré Buonvisi fjölskyldunnar áfram.


Þegar mest var áttu meðlimir fjölskyldunnar 19 villur/hallir og 6 herragarða i í Lucca og nágrenni.

Skjaldarmerki Buonvisi

Viðskiptin blómstruðu á 16. og 17. öld en þá urðu þau einstaklega illa út í efnahagshruni þess tíma og töpuðu nær öllu. Í Lucca er enn til orðatiltæki sem segir: Jafnvel Buonvisi urðu blönk" sem gefur til kynna á hversu stórum skala þetta efnahagshrun var.


Af þessum 19 eignum hefur mér tekist að finna upplýsingar um 8 þeirra á veraldarvefnum. Hér eru upplýsingar um þær ásamt skemmtilegum sögum og myndum sem tengjast þeim.

 

Palazzo Buonvisi

Þetta er eina eign Buonvisi ættarveldisins þar sem eigendur eru enn Buonvisi og bera það nafn. Ég fékk áhuga á Buonvisi ættinni eftir að hafa skoðað Palazzo Buonvisi í Ghivizzano í Toskana þegar ég var á ferðalagi þar í fyrra. Það var eins og fara nokkrar aldir aftur í tímann að stíga inn í þessa byggingu sem er byggð utan um borgarmúrinn og hefur tilheyrandi garð sem hæfir eðalbornu fólki. Aðalinngangurinn í bæinn í gegnum borgarhliðið liggur undir höllinnni. Byggingin á sér auðvitað áhugaverða fortíð, hefur gegnt ólíkum hlutverkum. Fyrstu heimilidir eru frá 1294 en eignarhaldið færðist á milli aðalsmanna þar til Nuti ættin urðu eigendur á 17. öld og breyttu ásýndinni úr víggirtri höll yfir það að vera veiðihús. Með mægðum á milli Nuti og Bunovisi fjölskyldnanna komst á tenging við Buonvisi nafnið og höllin ber það nafn í dag. Frá þeim tíma fékk byggingin nafnið Höll hina hundrað glugga.


Seinna verð húsnæðið heimavistarskóli fyrir stúlkur að skipun Monsignor Camilli sem var fæddur í Ghivizzano en varð síðar biskup í Fiesole.

Til að loka hringnum þá komst eignin aftur í eigu Buonvisi ættarinnar fyrir nokkrum árum. Húsakynnin eru í fornfrægum glamúr stíl en með nútíma þægindum. Francesca Pisani Buonvisi er núverandi eigandi og hefur leigt reksturinn til Pálma Sigmarssonar, athafnamanns á svæðinu. Reyndar hét Francesca einu sinni Francesco en það er önnur og lengri saga.


Það er ævintýri líkast að gista í þessari stærstu fjögurra herbergja íbúð sem ég hef nokkurntíman séð, enda höll. Myndir tala meira en þúsund orð og þúsund gluggar. 

La tenuta di Forci


Þessi búgarður var upphaflega byggður sem veiðihús. Reksturinn í Forci komst hjá því að verða illa út úr hruninni á 17.öld en blómaskeið þessa herragarðs náði ekki sömu hæðum eftir það. Að lokum var eignin yfirgefin, fór í eyði og svæðið skipti ört um eignarhald í kjölfarið.


Árið 1917 keypti Vincenzo Giustiniani greifi eignina og jörðina. Hann flutti á landareignina og næstu þrjátíu ár helgaði hann sig viðgerðum og að gera upp byggingar og koma rækt í jörðina. Hann stofnaði til góðra samskipta og samvinnu við nágrannana


Í dag býr barnabarn greifans á jörðinni, Diamantina Scola-Camerini, sem síðan 1975 hefuri ásamt samstarfsmanni sínum, Armando Scaramucci, haldið áfram starfi forfeðra sinna Allt svæðið í dag er til mikillar fyrirmyndar og hægt að leigja þar hús, kaupa afurðir og halda veislur.

 

Villa Torrigiani

Villa Torrigiani hét áður Villa Camigliano. Hennar er fyrst getið í heimildum frá 1593 þá sem eign Buonvisi ættarinnar en þau höfuð keypt eignina 1591 af Berti fjölskyldunni. Eignin var síðar keypt af Nicola Santini og hans fjölskylda hreiðraði um sig þar.

Sérlega minnistæð ástarsaga tengist þessari eign, þar sem hin unga Lucrezia var neydd til að gifast einum af Buonvisi sonunum. Hún hafði verið ástfangin af Massimiliano Arnolfini og þau fellt hugi saman og harmaði að að verð þvinguð inn í annað hjónaband en hún óskaði sér.


Það mun hafa verið 1. júní 1593 sem markgreifinn Lelio Buonvisi var drepinn með 19 hnífsstungum. Massimiliano var handsamaður við garðhliðið inn í Camigliano og ákærður fyrir morðið á Lelio. Refsingin sem þau hlutu var að hann múraður inni lifandi í Matilde turninum í Viareggio og Lucrezia var látin ganga í klaustur.


Í dag er hægt að heimsækja þetta stórkostlega hús og skoða garðana í kring, ásamt því að leigja aðstöðuna.

 

Villa Tuscany Buonvisi


Þetta glæsilega hús er frá því á 16. öld og fjölskyldan Buonvisi, upprunalegu eigendurnir, gaf henni nafnið. Eignin hefur verið mikið endurnýjuð en samt fengið að halda mörgum fallegum einkennum eins og sýnilegum bjálkum, flísum á gólfi og fjölmörgum eldstæðum og viðarofnum. Í dag er húsið til útleigu fyrir stærri hópa.

 

Villa Bottini

Villa Buonvisi, aðal og eina "Villa Lucchese" þ.e. villa í Lucca stíl innan veggja Lucca sem í dag er þekkt sem Villa Bottini, var reist á 17. öld, af Bernardino Buonvisi, upprunalegu eigendunum, og síðan var hún keypt snemma á 19. öld af Elisa Baciocchi Bonaparte, systir Napóleons.


Villan hefur töluvert sögulegt mikilvægi því svo virðist sem teikningarnar hafi verið fyrirmynd að byggingu margra annarra hefðarbygginga í Lucca. Svona ríkishönnun sem plantaði sér víðar.


Húsið var keypt snemma á 20. öld af Marquis Bottini eins og núverandi nafn gefur til kynna en eftir nokkra eigendur í kjölfarið, varð villan eign Toskana-héraðs sem, eftir mikla viðhaldsvinnu, seldi það til bæjarins Lucca.


Húsið stendur í fallegum garði og þar eru ýmsar móttökur, sýningar og viðburðir og garðurinn er alltaf aðgengilegur almenningi.


 

Villa Buonvisi


Í upphaf 15. aldar var ar Villa Buonvisi farin að taka á sig mynd sem einn af sumarbústöðum fjölskyldunnar eftir vandlega leit að hinni fullkomnu jörð. Rétt fyrir utan borgarmúra Lucca, við fyrrum landamæri Lucca og Písa, varð þetta fullkominn staður með góð tækifæri til ræktunar og veiða. Ábúendur ræktuðu nautgripi, gróðursettu ólífutré, vínvið og sítrónutré um landareignina.


Fjölskyldan seldi Villa Buonvisi í byrjun 20. aldar og voru nokkrir eigendur að eigninni eftir það og í seinni heimsstyrjöldinn var húsið víggirt af nasistum sem komu sér þar fyrir.


Villa Buonvisi er í dag um 500 ára gömul og er ein elsta bygging svæðisins. Í kjallarahvelfingu má sjá ummerki um eldri turn sem húsið er byggt á og er talið vera yfir 1000 ára gamall.


Í dag er hægt að leigja eignina fyrir veislur og gistingu og hér eru haldin jóganámskeið og matreiðslunámskeið.


 

Villa/Palazzo Buonvisi (Villa Webb)


Þessi fornfræga villa hét upphaflega Villa Buonvisi eftir umræddri ætti sem lét byggja hana á árunum 1558 og 1570. Eignarhaldið færðist yfir til Montecatini, annarrar aðalsættar þegar veldi Buonvisi leið undir lok. Árið 1812 var hún svor seld John Webb og fékk nafn hans.


Árið 1978 var húsið gefið sveitarfélaginu og hefur frá 2010 verið undir Vicarial Val di Lima sem aðsetur samtakanna. Samtökin hafa sett á til sýnis vopnabúr með búningum tímabilsins, lásboga, riffla, sverð og önnur vopn. Eldhúsið frá 14. öld hefur verið endurbyggt og endurgert og inniheldur áhöld fortíðar.


Í dag hýsir það spilavítasafnið með rúllettum og því sem prýddi fjölmörg spilavíti sem staðsett vorur í Bagni di Lucca. Þar er líka að finna safnið "Museum of the Impossible", sem er áhugavert fyrir unnendur dulspeki og dulúðar.

 

Villa OlivaLandareignin er rakin aftur til tíma Buonviso di Corrado, sem Buonvisi ættin er frá komin. Hann mun hafa gefið landið árið 1042 til kirkjunnar af San Pancrazio. Villan var svo byggð um 1500 og teiknuð af frægum arkitekt að nafni Matteo Civitali fyrir afkomendur Buonvisi ættar.


Eignin var í eigu Buonvisi ættarinnar þar til árið 1800 þegar ættboginn hvarf. Maria Caterina Buonvisi sem gift var Nicola Montecatini eignaðist þá staðinn. Í kjölfarið voru fjölmargir eigendur þar til Oliva fjölskyldan frá Genova eignaðist hana og eiga enn.


Húsið hefur verið gert mjög falleg upp og er núna sumardvalarstaður Oliva fjölskyldunnar. Auk þess er hús á jörðinn leigð út til veisluhalds, brúðkaupa o.fl.

 

Einkunnarorð Buonvisi ættarinnar

Tutto il giorno penso a ben fare / Allan daginn hugsa ég um að gera vel
Related Posts

See All

Comments


bottom of page