Þrýstipunktar í markþjálfun

Updated: Dec 26, 2020

Ég er oft spurð um hvernig markþjálfunarsamtal fari fram. Hér er örstutt lýsing á því hvernig ég nálgast það oftast.


Fyrsti tíminn er oft frír prufutími til þess að meta hvort markþeginn og markþjálfinn séu rétta teymið til að vinna saman. Ef svo er, gera aðilar með sér samkomulag um samstarf, umgjörð, fjölda tíma, verð o.fl. Samningurinn listar líka hvað markþjálfun er og hvað hún er ekki. Markþeginn hefur alltaf rétt á að hætta í markþjálfuninni ef hann vill, án skýringa, og fá endurgreidda þá tíma sem eftir eru. Eins kemur fram hvaða siðareglum vottaðir markjálfar fylgja, að það ríki 100% trúnaður og fleira sem gagnlegt er að vita fyrir samstarfið, eins og hvort samtölin fari fram á netinu eða í eigin persónu.


Að byrja samstarf með markþjálfa er spennandi ferðalag. Það krefst ekki sérstaks undirbúnings að mæta í fyrsta markþjálfunartímann en það getur stuðlað að því að markþeginn fái flugstart og komist fljótt af stað. Í aðdraganda fyrsta tímans er ráðlegt að gera sér grein fyrir væntingum sínum og hvað er ætlunin að vinna með til þess að fá sem mest út úr ferlinu.


Því sendi ég venjulega nýjum markþegum svokallaða þrýstipunkta fyrir fyrsta samtal til þess að koma kollinum af stað. Þrýstipunktarnir eru áleitnar spurningar á borð við: „Hver er stærsta persónulega áskorunin sem þú stendur frammi fyrir núna?” „Hvaða vandamál virðist þér vera óleysanlegt í augnablikinu?” Markþeginn velur svo oftast það umræðuefni sem er mest aðkallandi, aðstæður eða hugsanir sem jafnvel halda vöku fyrir viðkomandi. Markþjálfinn biður um dæmi um hvernig þetta ástand lýsi sér. Svo þarf að komast að því hvaða áhrif það er að hafa á líðan og lífsgæði markþegans. Samtalinu vindur svo fram og markþjálfinn spyr hverju það myndi breyta ef markþeginn fyndi lausn og hvaða áhrif það hefði til batnaðar.


Þá getur sjálfsskoðunin hafist. Ferlið er bæði krefjandi og skapandi samtal sem stuðlar að auknum persónulegum þroska og betri árangri í lífi og starfi. Lausnin er alltaf markþegans, en markþjálfinn hjálpar til við að spegla, umorða og framkalla það sem markþeginn er að fást við.


Gott er að leiða strax hugann að takmarkinu. Ég spyr mína markþega að því hvað væri góður árangur að þeirra mat eftir 5/10 tíma í markþjálfun. Ég býð þeim að þiggja áskoranir frá mér, jafnvel verkefni. Í eðli sínu aðstoðar markþjálfun markþegann við skilgreina hvað virkilega skiptir hann máli og hvers vegna - að finna kjarnann. Mitt hlutverk er að benda á þegar markþeginn er að skauta framhjá kjarna málsins og er kannski ómeðvitað að forðast að ræða hið augljósa. Markþjálfun er kröftugt verkfæri til að framkalla viskubrunninn og tengja markþegann betur við innsæi sitt.


Sem markþjálfi geri ég ráð fyrir að sá sem kemur í markþjálfun hafi valið það til að auðga líf sitt enn frekar. Að viðkomandi taki þátt í samstarfinu af samviskusemi og sé fullur eldmóðs og tilbúinn til að gera breytingar til að ná markmiðum sínum. Stundum er markþjálfun einfaldlega valin til að hjálpa markþeganum að rúlla hlutum á stað, fjarlægja hindranir, finna farveg og virkja athafnir. Markþjálfunin hjálpar þá til við að hugsa sig í gegnum flókið verkefni eða undirbúa sig fyrir mikilvægan fund.


Umfram allt þarf að vera gaman. Léttleikinn er smurning á ferlið, algerlega ómissandi.


Markþjálfinn heldur svo samtalinu gangandi með krefjandi spurningum, umorðar og dregur saman það sem markþeginn er að segja. Í farteskinu hefur markþjálfinn allskonar verkfæri til að markþeginn finni sína leið. Hann hvetur markþegann til dáða, heldur honum við efnið og samgleðst.


Hittumst heil.


148 views0 comments

Recent Posts

See All

ÁSÁ ehf. | Álfhólsvegur 32, 200 Kópavogur | Ísland

markthjalfun@agustasigrun.is
www.agustasigrun.is | sími: +354 899 4428

Reikn: 536-26-520215 | Kennitala: 520215-0690