top of page
  • Writer's pictureÁgústa Sigrún Ágústsdóttir

Þögnin hvíslar hálfum orðum

Updated: Jan 19, 2022

Þögnin var verkefni vikunnar. Að leyfa þögninni að lifa. Að þegja lengur en þægilegt er. Að hvíla innri röddina og leyfa innsæinu að finna næstu spurningu. Að hlusta, án þess að bregðast strax við.


„Þremur munkum var einu sinni sagt af meistara sínum að lykillinn að uppljómuninni lægi í þögninni. Munkarnir strengdu þagnarheit. Eftir stuttan tíma sagði fyrsti munkurinn: „Það er erfitt að þegja,“ og annar munkurinn svaraði „Bjáninn þinn, þú talaðir!“ eftir það andvarpaði þriðji munkurinn og sagði: „Ég er sá eini sem ekki hefur talað.“


Já, þetta getur verið flókið. Mikið var gott að rifja upp galdra þagnarinnar í vikunni. Námskeið sem ég sæki þessa dagana hjá CoachU hafði þögnina í markþjálfun sem viðfangsefni. Við markþjálfar notum þögnina óspart. Það er samt svo auðvelt að fylla í þagnirnar sem er eiginlega það sama og fylla í eyðurnar. Að geta sér til, svara í huganum og drífa samtalið áfram.


Sem markþjálfar þurfum við að skilja hvaða skilaboð felast í þögninni hverju sinni. Við þurfum að spyrja okkur:

  1. Hversu róleg er ég með að leyfa þögninni að lifa?

  2. Hvernig samband á ég við þögnina?

  3. Hvaða merkingu hefur þögnin fyrir mig?

Þögnin getur verið spennuþrungin en hún getur líka hvíslað hálfum orðum. Ég tengi við það á margan máta, bæði sem söngkona og markþjálfi. Mér er það í fersku minni þegar ég söng langið Við Vatnsmýrina eftir Sigfús Halldórsson með Jónasi Ingimarssyni um árið. Þar þurfti þögnin að lifa lengi lengi til að ná fram ákveðnum áhrifum í flutningnum. Ég átti erfitt með það til að byrja með, en Jónas leiðbeindi mér. Það tókst betur og betur eftir því sem við fluttum lagið oftar og þögnin varð einskonar einkennismerki flutningsins. Við settum traust okkar á þögnina.


Það eru kannski ekki meðmæli með markþjálfa að það sem hann geri best sé að þegja en það er kjarnorka í þögninni. Tómarúmið er orkuhlaðið og það hjálpar markþeganum að fá aðgang að sinni eigin orkuuppsprettu, sinni uppljómun.


Ég tek áhættuna.


Ég treysti þögninni því þögnin hvíslar hálfum orðum.

63 views0 comments

Related Posts

See All

Comments


bottom of page