Við komum færandi

 

Fyrirspurnir og bókanir í síma  899 4428

 

Ágústa Sigrún Ágústsdóttir er klassískt menntuð söngkona, fædd árið 1965 í Kópavogi. Hún hefur tæra og hlýja sópran-rödd og er jafnvíg á dægurtónlist og létt-klassík. Raddtegund hennar mætti skilgreina sem léttur eða crossover sópran sem flæðir jafnt inn í þjóðlagatónlist, popp og dægurtónlist. Hún hefur sungið í kórum frá barnæsku og lagði stund á klassískt söngnám við Söngskólann í Reykjavík og lauk söngkennaraprófi þaðan árið 1994. Hún gaf út geisladiskinn Hittumst heil með gömlum íslenskum dægurlögum árið 2001 sem innihélt lög föður hennar, Ágústs Péturssonar. Lög á borð við Þórð sjóara, Æskuminningu, Harpan ómar o.fl. Hún tók þátt í afmælistónleikum Sigfúsar Halldórssonar og flutti lagið Við Vatnsmýrina á afmælisdiski sem gefinn var út í kjölfarið. Nýverið gaf hún út geisladiskinn Stjörnubjart.

Haraldur V. Sveinbjörnsson er klassískt menntað tónskáld, en er einnig þekktur sem gítarleikari og lagasmiður sveitarinnar Dead Sea Apple, hljómborðsleikari og einn söngvara Manna ársins og nú nýverið bassaleikari í Buff, auk þess að hafa starfað náið með sveitum eins og Dúndurfréttum og Skálmöld. Hann vann sænsku tónlistarverðlaunin "Morgondagens tonsättare" árið 2004 fyrir hljómsveitarverkið „Sjö byltur svefnleysingjans“ og var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir sama verk árið 2005 en hann hefur alls verið tilnefndur fjórum sinnum í hinum og þessum flokkum. Þá hefur hann unnið með og útsett fyrir fjölda tónlistarmanna og átt útsetningar á fjölmörgum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands með innlendum listamönnum. Má þar nefna hina geysivinsælu Skálmaldartónleika 2013 sem vann til Íslensku tónlistarverðlaunanna nýverið í flokknum Tónlistarviðburður ársins, Hátíðartónleika FTT 2013, Pál Óskar & Sinfó 2010 & 2011, Dúndurfréttir & SÍ 2007 (Pink Floyd The Wall) og Söngbók Gunnars Þórðarsonar 2009. Haraldur gaf út í vor sína fyrstu sólóplötu undir merkjum Red Barnett og var sæmdur íslensku tónlistarverðlaununum í opnum flokki fyrir plötuna Shine.

Sváfnir Sigurðarson hefur komið víða við í tónlist, ýmist sem flytjandi eða höfundur. Fyrst með hljómsveitinni KOL sem sendi frá sér geisladiskinn Klæðskeri Keisarans árið 1994. Sváfnir var um tíma meðlimur í dönsku hljómsveitinni Quite Frankly sem lék víða í Danmöru á árunum 1997 – 1999. Hann er annar söngvara og lagahöfunda í hljómsveitinni Menn ársins sem sendi frá sér geisladisk árið 2008. Sváfnir hefur samið tónlist við nokkrar af sýningum Leikfélags Kópavogs, þar á meðal Grimms og Hringinn, sem voru báðar valdar áhugaleiksýningar ársins. Sváfnir hefur auk þess gert tónlist við nokkrar stuttmyndir. Hann hefur einnig komið fram sem trúbador um árabil og gefur út fyrstu sólóplötu sína fyrir jólin 2016.